Þegar hartnær tveir mánuðir voru liðnir frá kosningum í Þýskalandi fóru stjórnarmyndunarviðræður kristilegra, frjálslyndra og græningja út um þúfur seint í gærkvöld. Rétt fyrir miðnætti gengu fulltrúar Frjálslynda flokksins (FDP) á dyr og sögðust ekki sjá neinn tilgang í að taka þátt í frekari viðræðum.
Hér hafa stjórnmálamenn glímt við stjórnarmyndun, rétt eins og íslenskir kollegar þeirra. Sitthvað er þó ólíkt í vinnubrögðum og -aðferðum við stjórnarmyndunina. Hér virðist til dæmis ekkert liggja á. Kosningarnar fóru fram 24. september en þegar úrslit lágu fyrir fóru flestir bara í frí og einhverjir helltu sér út í aðra kosningabaráttu því fylkiskosningar fóru fram í Neðra-Saxlandi 15. október. Þar hélt meirihluti krata (SPD) og kristilegra (CDU) velli en kratar urðu stærsti flokkurinn og fengu því forystuhlutverkið, öfugt við það sem gerðist á landsvísu.
Að þessum kosningum loknum hófst það sem hérlendir kalla Sondierung og útleggst á íslensku könnunarviðræður. Þá þukla flokkarnir hver á öðrum og leita uppi þolmörkin í hinum ýmsu málaflokkum. Þetta skeið varði í fjórar vikur og lauk nú fyrir helgina. Þá hófst úrslitatilraun til þess að ná málamiðlunum og komast að niðurstöðu um stjórnarsáttmála. Berlínarblaðið Tagesspiegel kallaði fundinn sem boðaður var á fimmtudag „nótt hinna löngu hnífa“ þótt ekki stæði til að úthella blóði heldur beita hnífum til að skera niður óhóflegar væntingar einstakra flokka.
Fundurinn stóð í 15 klukkustundir og lauk um fjögurleytið á föstudagsmorgni – án samkomulags. Síðan hefur staðið yfir úrslitatilraun til að ná samkomulagi og flokkarnir settu sér það markmið að ljúka viðræðum fyrir kvöldmat á sunnudag. Næðist ekki samkomulag mætti jafnvel búast við því að boðað verði til nýrra kosninga. Ólíkt því sem gerðist í íslensku kosningunum eru möguleikarnir á myndun stjórnar afskaplega fátæklegir hér í Þýskalandi.
Forsetinn varar við
Það er fleira ólíkt með löndunum tveimur og eitt af því er staða þjóðhöfðingjanna. Á Íslandi gegnir forsetinn stóru hlutverki í stjórnarmyndun, bæði bakvið tjöldin og framan við þau. Hér er forsetinn að heita má stikkfrí meðan verið er að mynda stjórn. Hann hefur að vísu neyðarvald til þess að senda þingið heim og boða til kosninga, en því er afar sjaldan beitt.
Það kom því töluvert á óvart þegar Frank-Walter Steinmeier varaði stjórnmálamennina við því að þrýsta á um nýjar kosningar í viðtali við Springer-blaðið Welt am Sonntag í gær. Forsetinn hvatti þá til að axla ábyrgð sína en varpa henni ekki aftur til kjósenda og bætti því við að hann ætti bágt með að trúa því að flokkarnir vildu taka áhættuna af nýjum kosningum. Þessi viðvörun er þeim mun hljómmeiri þar sem hún kemur frá manninum sem hefur áðurnefnt neyðarvald í hendi sér. – Reynið meira, segir hann og undanskilur ekki Sósíaldemókrata sem sitja hjá í þessari umferð viðræðnanna.
Án þátttöku SPD yrði ekki mynduð stjórn, færi Jamaíku-tilraunin út um þúfur. Tölfræðilega væri ekkert því til fyrirstöðu að endurvekja stjórn krata og kristilegra, en Martin Schultz leiðtogi flokksins þvertekur fyrir þátttöku flokksins í stjórnarmyndun. – Kjósendur höfnuðu GroKo í kosningunum, segir hann og á þar við Große Koalition, eða samsteypustjórn stóru flokkanna. Og ekki þarf að taka það fram að enginn flokkur vill koma nálægt AfD. Þetta tvennt þrengir stöðuna því verulega.
Engin leynd um málefnin
Þriðja atriðið sem greinir löndin að er að hér fjalla fjölmiðlar mikið um málefnin sem flokkarnir takast á um í viðræðunum og sýna þeim heilmikla athygli. Heima neita samningamenn að tjá sig um málefnin nema í svo almennum orðum að enginn er neinu nær hvað þeir eru að takast á um. Það sem er þó verra er útbreitt áhugaleysi fréttamanna á öðru en því hverjir muni setjast í ráðherrastóla eftir að stjórnin er komin á koppinn.
Í þýskum fjölmiðlum eru þessi mál til stöðugrar umfjöllunar og fulltrúar flokkanna í stjórnarmyndunarviðræðunum taka fullan þátt í því. Eitt lítið dæmi: Í lok október efndi Tagesspiegel til málþings um heilbrigðismál þar sem heilbrigðisráðherra úr röðum kristilegra mætti og greindi frá umræðum milli flokkanna um málaflokkinn. Þar voru einnig fulltrúar hinna flokkanna og ræddu málin opinskátt.
Blöðin segja líka frá því sem gerist á bakvið tjöldin í viðræðunum og vitna í menn undir nafni – og stundum nafnleynd – um afstöðu og samskipti einstakra flokka og þátttakenda í umræðunum. Blaðamenn verða sér úti um skjöl sem verða til og birta úr þeim kafla, jafnvel með breytingartillögum, athugasemdum og málamiðlunum. Svona vinnubrögð eru því miður fáséð í íslensku pressunni.
Innanhússvandi kristilegra
Það er líka nóg af ágreiningsefnum milli flokkanna. Að nafninu til eru flokkarnir þrír – Kristilegir, Frjálslyndir og Græningjar – en í viðræðunum eru þeir greinilega fjórir því kristilegir demókratar starfa í tveim sjálfstæðum flokkum sem oftast hafa þó starfað saman. Annar þeirra heitir Christlicher Sozialer Union (CSU) og starfar einungis í Bæjaralandi, hinn heitir Christlicher Demokratischer Union (CDU) og starfar í afganginum af Þýskalandi undir forystu Angelu Merkel kanslara.
Fyrirfram var búist við að mestur ágreiningur yrði milli Græningja og hinna flokkanna, en um hann virðist að verulegu leyti hafa tekist að ná málamiðlunum – þó ekki alveg eins og síðar greinir. Hingað til hefur mestur ágreiningurinn verið á milli kristilegu flokkanna tveggja. Þar virðist enginn treysta öðrum yfir þröskuld. Ástæða þess er ekki síst það tap sem flokkarnir tveir máttu þola í kosningunum. Viðræðurnar hófust raunar á því að formaður CSU, Horst Seehofer, kom á fund Angelu í Berlín til að setja niður ágreining um innflytjendamálin.
Bæjararnir í CSU voru ekki sáttir við Merkel þegar hún opnaði landið í miðjum flóttamannastraumi fyrir tveimur árum. Þeir rekja eigið tap og uppgang hægripopúlistanna í AfD til þeirrar ákvörðunar og segjast hafa skilið hægri vænginn eftir galopinn þegar þeir eltu Merkel inn á miðjuna. Nú hafa þeir fengið því framgengt að þak er sett á fjölda innflytjenda sem má ekki fara upp fyrir 200.000 á ári. Hins vegar var áfram tekist á um að hve miklu leyti eigi að hindra flóttamenn í því að sameina fjölskyldur sínar hér í landi.
Það sem gerir þennan ágreining þó illleysanlegri en ella er valdabarátta í forystu CSU. Í Bæjaralandi verður gengið til fylkiskosninga á næsta ári og staða Seehofer sem leiðtoga veiktist verulega við fylgistapið í sambandskosningunum. Þetta birtist meðal annars í því að samningamenn hér í Berlín vantreysta fulltrúum CSU. Tagesspiegel segir um þingflokksformann CSU, Alexander Dobrindt, að hann sé óútreiknanlegur og hefur eftir ónafngreindum CDU-manni að enginn viti hverra erinda hann gangi í viðræðunum.
Vafasamar ástir og orkumál
Hitt stóra ágreiningsmálið sem tekist er á um eru loftslagsmálin. Á því leikur enginn vafi að Þjóðverjar ætla sér að standa við Parísarsamkomulagið sem stendur styrkum fótum eftir velheppnaðan fund sem lauk á laugardag í Bonn. Það eru hins vegar leiðirnar sem fara á og hraðinn á þeim vegi sem vefst fyrir samningamönnum hér í Berlín.
Þýskaland er í allnokkurri klemmu í orkumálum, ekki síst eftir að Angela Merkel ákvað að leggja niður öll kjarnorkuver í landinu í kjölfar kjarnorkuslyss í Japan fyrir nokkrum árum. Takmarkaðir möguleikar og hægagangur í þróun umhverfisvænna orkukosta hefur valdið því að Þjóðverjar hafa neyðst til að grípa aftur til gamallar auðlindar sem ekki telst lengur stofuhæf: kolabrennsla hefur aukist talsvert að undanförnu.
Á hinn bóginn hefur einnig gengið hægara en skyldi að draga úr orkunotkun Þjóðverja, sér í lagi hefur bílaiðnaðurinn dregið lappirnar. Bílafyrirtækin eru öflugur þáttur í þýsku atvinnulífi enda ekki hvaða land sem er sem getur státað af bílategundum eins og Mercedes Benz, BMW, Porsche, Audi og Volkswagen, svo nokkrar séu nefndar. Síðastnefnda fyrirtækið var gómað með allt niðrum sig þegar í ljós kom að það hafði svindlað kerfisbundið á mengunarmælingum bíla sinna. Þrátt fyrir þetta og fleiri hneyksli hafa þýskir stjórnmálamenn haldið uppi ákaflega innilegu sambandi við bílaiðnaðinn. Þær ástir verða þeir augljóslega að taka til endurskoðunar, ætli þeir að draga úr loftslagsáhrifum þýskra bíla og standa við Parísarsamkomulagið.
Engin lystireisa í augsýn
En eins og fram kom í upphafi er þessi draumur um Jamaíku-stjórn úr sögunni. Eftir að fresturinn var runninn út í gærkvöld héldu menn áfram að funda fram undir miðnætti þegar frjálslyndir gengu á dyr. Leiðtogi þeirra, Christian Lindner, sagði tilgangslaust að hanga yfir þessu lengur, það næðist hvorki trúnaður né traust á milli manna, enginn vilji til að stjórna saman hefði skapast. Var á honum að skilja að deilan um sameiningu fjölskyldna flóttamanna hefði verið skerið sem viðræðurnar steyttu endanlega á. Það væri þó ekki það eina því frjálslyndir söknuðu margs sem þeir hefðu gert kröfur um í þeim drögum að stjórnarsáttmála sem orðinn var til.
Hvað nú gerist er óljóst. Nýjar kosningar eru sennilega það síðasta sem menn vilja en staðan er þröng eins og áður sagði. Nefndur hefur verið sá kostur að kristilegu flokkarnir mynduðu minnihlutastjórn en andrúmsloftið í samningaviðræðunum gerir þann kost hvorki fýsilegan né líklegan. Aðrir kostir eru vart greinanlegir eins og staðan er.