Mynd: Landsvirkjun

Hvernig minnkum við kolefnisfótspor Íslendinga?

Hvernig geta heimili og fyrirtæki minnkað kolefnisfótspor sitt? Hér er þriðja greinin í greinaröð á vegum Circular Solutions um umhverfismál á Íslandi.

Mótvægisaðgerðir heimila

Í grein eftir Jack Clarke, Jukka Heinonen og Juudit Ottelin (1) er kolefnisfótspor neyslumenningar íslendinga lýst og talað er um þann sýndarveruleika sem er hið umhverfisvæna Ísland. Þar sem mestu máli skiptir er mengun frá samgöngum, sem og innfluttum matvælum, vörum og fatnaði. Mótvægisaðgerðir fyrir Parísarsáttmálann taka á samgöngumálunum en hann snertir ekki á áhrifum neyslu Íslendinga á mengun sem á uppruna sinn í öðrum löndum við framleiðslu og flutning á þeim vörum sem enda hér á landi. Í þeirri grein var einnig nefnt að meirihluti umhverfis-birgða sem neysla Íslendinga setur á önnur lönd eru í þróunarlöndum. Í heimilishaldi eru það matvæli sem hafa mest áhrif á kolefnisfótspor fyrir utan samgöngur (1). En þegar borið er saman við Evrópu þá er kolefnisfótspor á matvæli svipað en það er magnið sem er meira hér, það ber því við að minnkun á neyslu og/eða á matarsóun getur haft mikil áhrif.

Mynd 1. Gróðurhúsaáhrif á hverja orkueiningu frá ýmsum svæðum og löndum.

Einnig eru aðrar lausnir nefndar í greininni, t.d. að auka neyslu á mat sem er framleiddur innanlands og innleiða stefnur varðandi umhverfisvænan mat (1). Aukin neysla á vörum sem eru framleiddar innanlands á ekki aðeins við um matvæli, heldur einnig eldsneyti, föt og aðrar vörur. Ástæðan er að gróðurhúsaáhrif á hverja framleidda orkueiningu er lítil hér á landi í samanburði við flest lönd sem við flytjum þessar vörur inn frá (smá mynd 1). Ef ekki er hægt að framleiða vörur sem nýttar eru hér á landi má aðstoða þau lönd sem við höfum áhrif á með jákvæðum fjárfestingum í „grænum innviðum“ og þróunaraðstoð.

Í því samhengi er einnig vert að nefna að samkvæmt bókinni „Drawdown: The most comprehensive plan ever proposed to reverse global warming“ (2) er eitt af því sem fólk og fyrirtæki geta gert til þess að hafa áhrif á losun gróðurhúsalofttegunda að styrkja menntun stúlkna í þróunarlöndum. Þar sem aukin menntun stúlkna leiðir af sér færri og heilbrigðari börn sem getur hjálpað til að stemma stigu við fólksfjölgun. Það eru fjölmargar stofnanir á Íslandi og erlendis sem hægt er að styrkja í þessum tilgangi.

Einföld jafna er oft sett fram í umræðum um loftslagsbreytingar og hvað þurfi til þess að ná böndum á það vandamál. Hún er margfeldi og segir; fjöldi fólks margfaldaður með þjónustu á hverja manneskju margfaldað með orku á hverja þjónustu margfaldað með gróðurhúsalofttegundum á hverja orkueiningu er jafnt og heildarútblástur gróðurhúsalofttegunda.

Jafnan sem kennd er við Bill Gates.

Það er skemmtilegt að skoða þessa jöfnu fyrir okkur Íslendinga, því við erum fámenn þjóð. Hins vegar, eins og nefnt hefur hér að ofan, þá er bæði þjónusta á hverja manneskju mikil og hugsanlega orka á hverja þjónustu sem á bæði við um innlenda orku og orku sem er notuð í að framleiða innfluttar vörur erlendis. Lítið magn gróðurhúsalofttegunda er við hverja orkueiningu, það er að segja þá orku sem er notuð hér á landi við framleiðslu á vöru eða þjónustu sem við neytum, en ekki endilega á innfluttum varningi sem er um 60 prósent af kolefnisspori neyslu okkar samkvæmt tölum frá OECD. (4)

Mótvægisaðgerðir fyrirtækja

Líkt og fyrir heimilin – sé ekki einungis litið til beins reksturs fyrirtækja heldur þátta ofar í virðiskeðju þeirra (líkt og framleiðslu á hráefnum) – eru umhverfisáhrif oft töluvert meiri en gert er ráð fyrir í fyrstu. Þar skiptir máli hvert land framleiðslunnar er líkt og bent var á hér að ofan; Flutningsleiðir, hvernig vörunni er fargað og fleira. Slík vitneskja er oft ekki á reiðum höndum, en fáir þekkja framleiðslu íslenskra fyrirtækja betur en starfsfólk og sérfræðingar innan þeirra eigin raða.

Það eru margir möguleikar sem birtast þegar fyrirtæki skoða fyrir alvöru umfang starfsemi þess og hvernig það hefur áhrif á umhverfið hér á landi og erlendis. Hugmyndafræði hringhagkerfis (e. circular economy) getur komið að góðum notum fyrir fyrirtæki þar sem hægt er að ná utan um sóun á hráefnum og auðlindum, uppgötvað nýtt líf fyrir vörur og hráefni með endurnýtingu og endurnýjun. Einnig geta fyrirtækið farið á mis við verðmæti úrgangs og svo framvegis.

Vindtúrbínur í dögun
Gradert / Unsplash

Utanaðkomandi ráðgjöf getur því einungis aðstoðað við útreikninga á slíkum umhverfisáhrifum, en það er einungis í nánu samstarfi við þá sem þekkja sína vöru best sem raunhæfum niðurstöðum er náð. Hér er ekki hægt að hafa eina lausn sem hentar öllum, því lang flest fyrirtæki eru gríðarlega ólík, jafnvel frá hörðustu samkeppnisaðilum sínum. Séu umhverfisáhrif af rekstri fyrirtækis þekkt opnast heimur möguleika (5). Aðgengi opnast að mörkuðum með strangt regluverk og sem innlegg í markaðsstarf svo fátt eitt sé nefnt. Það mikilvægasta er þó að með slíka vitneskju í farteskinu geta fyrirtæki tekið meðvitaða ákvörðun um hvaða aðgerðir skal taka til að lágmarka umhverfisáhrif sín, ákvarðanir byggðar á rökföstum grunni og vísindalegri nálgun (6).


Þessi grein er þriðja af sex í greinaröð um umhverfismál á Íslandi. Í næstu greinum munum við fjalla hvernig hægt er að minnka umhverfisáhrifin og um umhverfismál í sjávarútvegi, landbúnaði og svo framvegis.

Um höfunda

Hafþór Ægir Sigurjónsson er doktor í verkfræði frá Tækniháskólanum í Danmörku (DTU). Hann er nýdoktor við Háskóla Íslands og DTU og einn meðstofnenda Circular Solutions ehf.
Reynir Smári Atlason er doktor í umhverfis og auðlindafræði frá Háskóla Íslands. Hann er lektor við Háskólann í Suður Danmörku (SDU) og einn meðstofnenda Circular Solutions ehf.

Heimildir

[1] Clarke, J., Heinonen, J., & Ottelin, J. (2017). Emissions in a decarbonised economy? Global lessons from a carbon footprint analysis of Iceland. Journal of Cleaner Production, 166, 1175-1186.

[2] Hawken, P., 2017. Drawdown: The most comprehensive plan ever proposed to reverse global warming.

[3] Climte for life; http://climateforlife.se/2016/06/

[4] OECD inter country input-output tables (2016 edition); oe.cd/icio

[5] Nidumolu, R., Prahalad, C. K., & Rangaswami, M. R. (2009). Why sustainability is now the key driver of innovation. Harvard business review, 87(9), 56-64.

[6] Circular Solutions. Consulting. https://www.circularsolutions.is/

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar