Birgir Þór Harðarson

Íslenskur landbúnaður – hvar liggja sóknarfæri?

Mikil sóknarfæri eru til staðar þegar kemur að minnkun umhverfisáhrifa vegna íslensks landbúnaðar. Hér er fimmta greinin í greinaröð á vegum Circular Solutions um umhverfismál á Íslandi.

Íslenskur land­bún­aður hefur tölu­verða sér­stöðu á heims­vísu að mörgu leyti. Ímynd vegur þar þungt enda hefur mikil gagn­rýni hefur komið fram á verk­smiðju­land­búnað erlend­is, þá sér í lagi innan Banda­ríkj­anna. Hin íslenska ímynd er minna tengd við þessa gagn­rýni og er það af hinu góða.

Íslenskur land­bún­aður virð­ist einnig vera tölu­vert skil­virkur enda má sjá að fram­leiðni í íslenskum land­bún­aði er mjög góð í alþjóð­legum sam­an­burði (1). Starfs­fólk í þessum geira er því sýni­lega mjög hæft og selur vöru sem aðrir eru til­búnir að greiða hærra verð fyr­ir. Á mynd 1 má sjá sam­an­burð við önnur svæði er lítur að þessum þætti. Íslenskur land­bún­aður skilar tölu­vert meiri ábata en hjá þeim löndum sem við berum okkur saman við, fyrir hvern starfs­mann innan geirans.

Mynd 1. Framleiðni á hvern starfsmann er mjög góð á Íslandi í alþjóðlegum samanburði (1).

Í nýlegri skýrslu Hag­fræði­stofn­unnar Háskóla Íslands er bent á að útstreymi gróð­ur­húsa­loft­teg­unda (GHL) frá sjáv­ar­út­vegi hefur dreg­ist saman um 43% á milli áranna 1990 og 2014. Í land­bún­aði hefur slíkur útblástur minnkað minna og dreg­ist saman um 4% (2). Í skýrsl­unni er bent á að útblástur frá land­bún­aði gæti náð 500 þús­und tonnum árið 2020. Losun GHL í land­bún­aði skipt­ist nokkuð jafnt á milli dýra­halds og tún­ræktar (52% og 48%). Í aðgerða­á­ætlun rík­is­ins frá 2010 er ekki gripið til ráð­staf­ana til að minnka losun GHL vegna með­ferðar úrgangs og er þar gert ráð fyrir að almenn stefna og laga­setn­ing muni leiða til þeirrar minnk­unar (2).

Land­bún­aður er ábyrgur fyrir um 16% af útblæstri gróð­ur­húsa­loft­teg­unda Íslend­inga og þess vegna er umhugs­un­ar­vert hvers vegna hið opin­bera hefur ekki litið til og tekið á þeim mikla útblæstri sem hér á sér stað með mark­vissum hætti. Þó ber að nefna að í júní 2017 var und­ir­rit­aður samn­ingur um verk­efni við mótun veg­vísis um minnkun los­unar gróð­ur­húsa­loft­teg­unda frá land­bún­aði sem er skref í rétta átt (2).

Til sam­an­burðar er sjáv­ar­út­vegur ábyrgur fyrir 10% og úrgangur 6% af útblæstri á Íslandi. Sé litið til sam­an­burð­ar­ins er útblástur frá land­bún­aði, dreift á hvern íbúa lands­ins, tölu­vert meiri en þeirra landa sem við gjarnan berum okkur saman við. Fyrir útblástur á hvern íbúa standa Norð­menn, Finn­ar, Þjóð­verjar, Frakkar og Banda­ríkja­menn betur en Íslend­ing­ar. Sem mögu­lega útskýr­ingu á slæmu kolefn­is­spori íslensk land­bún­aðar hefur verið bent á að staðlar milli­ríkja­nefndar Sam­ein­uðu þjóð­anna um lofts­lags­mál (IPCC) um útblástur frá jórt­ur­dýrum geti gert það að verkum að útblástur íslenskra dýra sé ofmet­inn þar sem „ís­lensku búfjár­kynin eru nokkru minni en þau búfjár­kyn sem notuð eru til við­mið­un­ar”. (3) Til þess að fá raun­hæf­ari mynd af útblæstri frá íslenskum land­bún­aði er þörf á nán­ari rann­sóknum sem snúa að íslenskum dýrum og hver raun útblástur frá þeim er.

Mynd 2. Möguleikar íslensks landbúnaðar eru gríðarlegir, og auðsóttir (4).

En hvað geta bændur sjálfir gert?

Það getur vel verið að IPCC sé mögu­lega að ofmeta útblástur frá búfén­aði eða það að staðlar IPCC eigi bein­línis ekki við íslenskan búfén­að. Það er þó ekki víst að hvaða marki slíkt ofmat skiptir í raun máli og hvort frammi­staða Íslend­inga verði betri en nágranna­þjóða þrátt fyrir að slíkir útreikn­ingar séu leið­rétt­ir.

Það sem þessi staða býður þó upp á er að bændur taki málin í eigin hendur og geri eitt­hvað í mál­un­um. Umhverf­is­á­hrif fram­leiðslu má skoða frá mörg­um, misná­kvæmum vís­inda­legum sjón­ar­horn­um. Líf­fer­ils­grein­ing (LCA) er til dæmis aðferða­fræði sem skoðar umhverf­is­á­hrif frá fram­leiðslu, en ýmsa aðra mæli­kvarða má nota til að skoða nýtni í land­bún­aði. Orku­arð­semi (ER­OI) hefur verið notuð (5), en aðrir stuðla, svo sem orku­notkun á hverja fram­leidda ein­ingu, má nota til að greina og bæta fram­leiðslu innan land­bún­aðar í heild sinni en einnig innan ein­stakra býla (6).

Nið­ur­stöður slíkra grein­inga má svo að sama skapi nota til að lág­marka umhverf­is­á­hrif í land­bún­aði ann­ars veg­ar, án nauð­syn­legrar aðkomu rík­is, og nýta til virð­is­aukn­ingar á íslenskum land­bún­að­ar­vörum hins veg­ar. Það er svo að slíkar grein­ingar má nota – og þess þarf gjarnan – til að öðl­ast leyfi til að merkja land­bún­að­ar­vörur sem umhverf­is­væn­ar.

Einnig hefur það oft verið sýnt að neyt­endur eru með­vit­aðir um umhverf­is­á­hrif þeirrar vöru sem þeir versla og greiða gjarnan hærra verð fyrir slíka vöru (7). Hér er því gott tæki­færi fyrir íslenskan land­búnað að minnka umhverf­is­á­hrif sín, án aðkomu stjórn­valda, og á sama tíma auka virði sinnar vöru.

Miklir mögu­leikar liggja í land­bún­aði. Bændur eru í eðli sínu fram­sýnir og þekkja sína fram­leiðslu best sjálf­ir. Fram­kvæmd grein­inga á umhverf­is­á­hrifum frá búum getur aukið virði land­bún­að­ar­vöru og ekki þarf þrýst­ing frá stjórn­völdum til að sækja þann ávinn­ing.


Þessi grein er fimmta af sex í greina­röð um umhverf­is­mál á Íslandi. Í næstu greinum munum við fjalla hvernig hægt er að minnka umhverf­is­á­hrifin og um umhverf­is­mál í sjáv­ar­út­vegi, land­bún­aði og svo fram­veg­is.

Um höf­unda

Reynir Smári Atlason er doktor í umhverfis og auðlindafræði frá Háskóla Íslands. Hann er lektor við Háskólann í Suður-Danmörku (SDU) og einn meðstofnenda Circular Solutions ehf.
Hafþór Ægir Sigurjónsson er doktor í verkfræði frá Tækniháskólanum í Danmörku (DTU). Hann er nýdoktor við Háskóla Íslands og DTU og einn meðstofnenda Circular Solutions ehf.

Heimildir

[1] World Bank. Sustainable Development Goals. (Virðisaukning í landbúnaði er mælieining á framleiðni landbúnaðar, hér mælt í 2010 dollurum á hvern starfsmann.)

[2] https://www.stjornarradid.is/verkefni/allar-frettir/frett/2017/06/02/Vegvisir-um-minnkun-grodurhusalofttegunda-fra-landbunadi-i-vinnslu/

[3] Hagfræðistofnun Háskóla Íslands. Skýrsla nr. C17:01. Ísland og loftslagsmál.

[4] Unsplash. Agence Producteurs Locaux Damien Kühn.

[5] Atlason, R. S., Kjærheim, K. M., Davíðsdóttir, B., & Ragnarsdóttir, K. V. (2015). A comparative analysis of the energy return on investment of organic and conventional Icelandic dairy farms. Icelandic Agricultural Sciences.

[6] Atlason, R. S., Lehtinen, T., Davíðsdóttir, B., Gísladóttir, G., Brocza, F., Unnþórsson, R., & Ragnarsdóttir, K. V. (2015). Energy return on investment of Austrian sugar beet: A small-scale comparison between organic and conventional production. Biomass and bioenergy

[7] Sirieix, L., Delanchy, M., Remaud, H., Zepeda, L., & Gurviez, P. (2013). Consumers' perceptions of individual and combined sustainable food labels: a UK pilot investigation. International Journal of Consumer Studies, 37(2), 143-151.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar