Lágmarkar mikil hagsæld áhrif á umhverfið?

Útblástur gróðurhúsalofttegunda virðist aukast í takt við hagsæld og þess vegna er mikilvægt að stjórnvöld og hagsmunaaðilar beiti sér fyrir fjárfestingu í grænum lausnum. Hér er síðasta greinin af sex í greinaröð á vegum Circular Solutions um umhverfismál á Íslandi.

Við lifum á áhuga­verðum tímum þar sem umhverf­is­vit­und almenn­ings og fyr­ir­tækja hefur tekið stökk­breyt­ing­um. Í sögu­legu sam­hengi þá er gjarnan talað um þrjár öldur umhverf­is­vit­und­ar. Sú fyrsta var á sjö­unda ára­tugnum þegar umhverf­is­á­hrif frá fram­leiðslu fóru að koma ljós sem vanda­mál og þrýst­ingur fór að mynd­ast frá almenn­ingi. Umhverf­is­stofnun Banda­ríkj­anna (EPA) var síðar stofnuð árið 1970. Á níunda ára­tugnum fóru leið­bein­ingar og reglu­gerðir að myndast, sér í lagi innan Banda­ríkj­anna. P2 (Pollution Prevention) var komið á lagg­irnar innan EPA sem gaf fyr­ir­tækjum leið­bein­andi fyr­ir­mæli um hvernig mætti koma í veg fyrir mengun í stað þess að lág­marka hana. Eftir árið 2000 hefur umhverf­is­vakn­ing almenn­ings verið ráð­andi og fyr­ir­tæki hafa – að ein­hverju leyti – tekið mið af þeirri vakn­ingu (1).

Umhverfiskúrfa Kuz­nets

Ein kenn­ing sem sett hefur verið fram tengir saman hag­sæld og umhverf­is­á­hrif þjóða. Í stuttu máli er sagt að í upp­hafi, þegar hag­sæld er mjög lít­il, sé lít­ill iðn­aður til stað­ar. Þegar iðn­aður fer að aukast og hag­sæld eykst innan við­kom­andi lands, eykst einnig mengun á hvern fram­leiddan doll­ar. Þegar ákveðnu marki er náð heldur hag­sældin áfram að vaxa en umhverf­is­á­hrif á hverja fram­leidda ein­ingu byrja að minnka.

Þessa þróun má útskýra á tvennan hátt. Í fyrsta lagi þá hafa efn­aðri þjóðir frekar mögu­leika á að fjár­festa í umhverf­is­vænni tækninýj­ungum og eru (oftast) viljugri til þess. Í öðru lagi þá eru efn­aðri lönd gjörn á að úthýsa fram­leiðslu – til dæmis til fátæk­ari landa – og verða í leið­inni með þjón­ustu­mið­aðri efna­hag. Með þessa vit­neskju að leið­ar­ljósi ætti eina mark­mið okkar að vera aukin fram­leiðni enda munu umhverf­is­vænni tímar bíða tak­ist okkur að þéna nægi­lega mik­ið. Þessi þróun er kölluð umhverfiskúrfa Kuz­nets (2).

Við nán­ari athugun sést að umhverfiskúrfa Kuz­nets stenst ekki skoðun að mörgu leyti (3). Í hvora átt­ina sem orsaka­sam­hengið snýr þá virð­ist það vera svo að þró­aðri ríki mengi ein­fald­lega meira á hverja fram­leidda ein­ingu en grípi ekki frekar til umhverf­is­vænni tækni. Hér að neðan má sjá mynd sem tekin er saman af höf­undum þess­arar grein­ar. Á mynd­inni er not­ast við gögn frá Alþjóða­bank­anum varð­andi útblástur gróð­ur­húsa­loft­teg­unda (y-ás), þjóð­ar­fram­leiðslu á hvern íbúa (x-ás) og hlut­fall þjóð­ar­fram­leiðslu sem kemur frá fram­leiðslu (stærð kúlna) (4).

Á mynd­inni getur þú ýtt á „Pla­y“-hnapp­inn og séð þróun 198 ríkja með til­liti til þess­ara þátta frá árinu 1990 til 2014. Stand­ist umhverfiskúrfa Kuz­nets ættu þjóð­irnar að ferð­ast yfir hól á miðjum x-ásn­um.

Mynd 1 – Graf­ísk fram­setn­ing umhverfiskúrfu Kuz­nets

Hafir þú nú skoðað þró­un­ina á mynd­rit­inu er auð­séð að slíkt mynstur líkt og spáð er fyrir í umhverfiskúrfu Kuz­nets er ekki sjá­an­legt þegar litið er til útblást­urs á koldí­oxíði. Þvert á móti þá virð­ist það svo vera að mengun á hverja fram­leidda ein­ingu auk­ist við frek­ari hag­sæld! Hvergi er að finna þann punkt (eða hann er mjög veik­ur) þegar þjóðir grípa til sterk­ari aðgerða til að draga úr útblæstri.

Nokkur ríki virð­ast þó vera und­an­skilin þessu, til dæmis Liechten­stein, Sviss og Lúx­em­borg sem þríf­ast að miklu leyti á fjár­mála­mörk­uð­um. Almennt séð þá virð­ist sú hug­mynd að aukin hag­sæld leiði að lokum til umhverf­is­vænni lifn­að­ar­hátta ekki stand­ast skoð­un.

Hvað með Ísland?

Í nýlegri skýrslu Hag­fræði­stofn­unar Háskóla Íslands er litið til sama tíma­bils og skoðað er hér að ofan, 1990 til 2014 [5]. Kemur þar fram að „Út­streymi gróð­ur­húsa­loft­teg­unda jókst um 26% frá 1990 til 2014…“ einnig er tekið fram að „út­streymi jókst mest frá iðn­aði og efna­notk­un, eða um 79%. Útstreymi jókst einnig frá orku­fram­leiðslu (69%), úrgangi (52%) og sam­göngum (39%).“

„Útstreymi gróðurhúsalofttegunda jókst um 26% frá 1990 til 2014…útstreymi jókst mest frá iðnaði og efnanotkun, eða um 79%. Útstreymi jókst einnig frá orkuframleiðslu (69%), úrgangi (52%) og samgöngum (39%).“

Almennt séð hafa Íslend­ingar sýnt fram á að umhverfiskúrfa Kuz­nets stand­ist alls ekki. Á mestu góð­ær­is­árum okkar höfum við aukið útblástur gróð­ur­húsa­loft­teg­unda, ekki ólíkt flestum öðrum þjóð­um, nema meira ef eitt­hvað er. Hefði þróun Íslands verið í takt við hug­mynd­ina um umhverfiskúrfu Kuz­nets hefði dregið úr útblæstri á Íslandi á tíma­bil­inu frá 1990. Í nán­ast öllum geirum hefur útstreymi gróð­ur­húsa­loft­teg­unda auk­ist.

Getur verið að þrátt fyrir mikla hag­sæld hafi hinar þró­uðu þjóðir ein­fald­lega ekki náð hápunkti umhverfiskúrfu Kuz­nets? Að þær eigi eftir að menga enn meira og öðl­ast frek­ari hag­sæld þar til að fjár­fest er í lausnum sem draga úr meng­un? Lítum aftur til Íslands.

Í téðri skýrslu Hag­fræði­stofn­unar er bent á að útblástur í sjáv­ar­út­vegi hafi dreg­ist saman um 43%. Í raun er það aug­ljóst afhverju lág­mörkun útblást­urs skipa sé í eðli sínu hag­kvæm enda er útblást­ur­inn bein­tengdur kostn­að­ar­samri olíu­notk­un. En sé aðeins rýnt betur í aðra iðn­að­ar­geira má einnig sjá þætti sem gefa til kynna að Ísland gæti verið á leið­inni niður hinn enda Kuz­nets-kúrf­unn­ar.

Til að mynda hefur Car­bFix-verk­efni Orku­veitu Reykja­víkur lofað virki­lega góðum nið­ur­stöðum varð­andi bind­ingu koldí­oxíðs frá jarð­varma­virkj­unum (6). Auð­linda­garð­ur­inn á Reykja­nesi er einnig ágætt sýni­dæmi um hvernig auka má orku­nýtni með úthugs­aðri stað­setn­ingu fyr­ir­tækja sem nýta afgangs­varma frá jarð­varma­ver­um. Þar má til dæmis nefna Bláa lón­ið, líf­tækni­fyr­ir­tæki og fisk­eldi (í raun hafa hund­ruð starfa skap­ast í tengslum við auð­linda­garð­inn).

Að lokum má benda á að hið opin­bera virð­ist ekki hafa áhuga á að færa okkur niður hægri enda umhverfiskúrfu Kuz­nets með beinum aðgerð­um. Heldur virð­ist það fyrst og fremst vera einka­fram­tak sem drífur áfram umhverf­is­væna nýsköpun og skapar störf tengd henni. Þar spilar mögu­lega inn í þrýst­ingur frá hinu opin­bera og almenn­ingi að ein­hverju leyti. Líkt og bent hefur verið á í fyrri greinum höf­unda (sem finna má hér að neð­an) er valdið í höndum fyr­ir­tækj­anna sjálfra að hámarka virði umhverf­is­vænni hátta, hvort sem þau eru í fram­leiðslu eða þjón­ustu.


Þessi grein er sú síð­asta af sex í greina­röð um umhverf­is­mál á Íslandi. Í næstu greinum munum við fjalla hvernig hægt er að minnka umhverf­is­á­hrifin og um umhverf­is­mál í sjáv­ar­út­vegi, land­bún­aði og svo fram­veg­is.

Um höf­unda

Reynir Smári Atlason er doktor í umhverfis og auðlindafræði frá Háskóla Íslands. Hann er lektor við Háskólann í Suður Danmörku (SDU) og einn meðstofnenda Circular Solutions ehf.
Birgir Örn Smárason er doktorsnemi í umhverfis og auðlindafræði hjá Háskóla Íslands. Hann starfar sem sérfræðingur hjá Matís og er einn meðstofnenda Circular Solutions ehf.

Heimildir

[1] Scarce, R. (2016). Eco-warriors: Understanding the radical environmental movement. Routledge.

[2] Stern, D. I., Common, M. S., & Barbier, E. B. (1996). Economic growth and environmental degradation: the environmental Kuznets curve and sustainable development. World development, 24(7), 1151-1160.

[3] HStern, D. I. (2004). The rise and fall of the environmental Kuznets curve. World development, 32(8), 1419-1439.

[4] World Bank (2017). Vefsíða. [https://data.worldbank.org/](https://data.worldbank.org/)

[5] Hagfræðistofnun Háskóla Íslands. Skýrsla nr. C17:01. Ísland og loftslagsmál.

[6] Matter, J. M., Stute, M., Snæbjörnsdottir, S. Ó., Oelkers, E. H., Gislason, S. R., Aradottir, E. S., ... & Axelsson, G. (2016). Rapid carbon mineralization for permanent disposal of anthropogenic carbon dioxide emissions. Science, 352(6291), 1312-1314.

Skiptir Kjarninn þig máli?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við erum til staðar fyrir lesendur og fjöllum um það sem skiptir máli.

Ef Kjarninn skiptir þig máli þá máttu endilega vera með okkur í liði.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar