B. Búa yfir sérþekkingu
C. Sleppa því að koma hingað
„Ef hann væri hjartaskurðlæknir myndi málið kannski snúa öðruvísi ... það eina sem ég get ráðlagt ykkur er að giftast.“ Þetta sagði ónefndur lögmaður þegar ég spurði hvernig þáverandi kærasti minn, kanadískur blaðamaður og uppistandari, gæti fengið dvalarleyfi á Íslandi. Í sem stystu máli tók við langt og dýrt ferli með neikvæðum hvötum í boði Útlendingastofnunar áður en hann eygði von um að geta kallað Ísland land sitt.
Frjálst flæði fólks, fjármagns, vöru og þjónustu er grundvöllur EES. Fólk fætt utan þess þarf hins vegar að hafa góða ástæðu til þess að mega setjast hér að. Allra best er að barna Íslending eða giftast Íslendingi. Næstbest er að vera sérfræðingur í einhverju sem íslenskt samfélag skortir, t.d. sérhæft heilbrigðisstarfsfólk, forritarar eða íþróttafólk. Sú sérhæfða þekking þarf þó að vera meiri og betri en nokkur annar býr yfir á EES svæðinu og íslenskt fyrirtæki þarf að votta það.
Þessi umfjöllun birtist fyrst í nýjustu útgáfu Mannlífs.
Dvalarleyfi vegna sérfræðiþekkingar getur orðið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis – það er hins vegar ekkert víst í þessu. Báðir möguleikarnir krefjast þess að fólk eigi böns af monní, því áður en kennitala og atvinnuleyfi er komið í hús, sem getur tekið marga mánuði, má fólk eðli málsins samkvæmt ekki vinna nema svart – einmitt af því það er hvorki komið með kennitölu né atvinnuleyfi. Catch 22, einhver? Fyrir utan það krefst umsóknarferlið þess að viðkomandi sé ekki lengur en þrjá mánuði á Íslandi í senn sem flækir mál enn frekar. Þriðji möguleikinn er augljóslega að gleyma hinum algræna skrúði og halda sig utan við EES.
Þurfum uppfærslu
En hvað með þá sem neita að gefast upp? Bandaríska skógarhöggsmanninn eða úkraínska kokkinn? Þeirra bíður staður í Skógarhlíð, þangað sem allir vegir liggja. Útlendingastofnun. Stofnun allra sem eru ekki Íslendingar. Stofnun sem, því miður, í hugum margra stendur fyrir tímafrekt, dýrt og kvíðavaldandi vesen. Í lok árs 2015 báru 17,9% Íslendinga mikið traust til stofnunarinnar samkvæmt MMR. Í skýrslu Alþjóðamálastofnunar sem kom út fyrr á árinu sögðust 50% flóttafólks og innflytjenda bera mikið traust til stofnunarinnar. Í sömu skýrslu er lagt til að Útlendingastofnun verði lögð niður í núverandi mynd. Í staðinn verði til ný stofnun, sem sjái til þess að verkefnin (sem heyra í dag undir tvö ráðuneyti), verði einfölduð og samþættuð.
Og fleira þarfnast uppfærslu; kerfin okkar og stofnanir ættu að vinna í takt. Það þarf að stórauka ensku- og tungumálakunnáttu innan eininga sem eiga í samskiptum við allan heiminn, hafa sem reglu að kalla til túlk ef fólk skilur ekki hvort annað og taka upp rafræna stjórnsýslu í meira mæli. Eða finnst einhverjum það góð hugmynd að Útlendingastofnun sendi bara bréf til skjólstæðinga, og þá er ég sérstaklega að vísa til þeirra sem mega bara vera á Íslandi 3 mánuði í senn og eru því ólíklega með fasta búsetu? Svo mætti skoða að leyfa fólki að borga með kreditkorti og hafa opið lengur en 5 tíma á dag.
Við þurfum að taka umræðuna
https://kjarninn.is/skyring/2017-11-24-er-island-land-thitt/Íslendingar með erlendan bakgrunn eru 8,9 prósent landsmanna. Það eru 31 þúsund manns, flestir frá Póllandi. Ef þessi hlutföll myndu endurspeglast á Alþingi sætu þar 6 þingmenn af erlendum uppruna. Í síðustu kosningum duttu hins vegar bæði Nicole og Pawel af þingi og eftir sitja 63 bornir og barnfæddir Íslendingar. Hvað með æðstu starfsmenn fyrirtækja, viðmælendur í ljósvakamiðlum, fréttalesara eða dómara í Hæstarétti? Hversu margir eru ekki fæddir í Gnúpverjahreppi eða Breiðholtinu? Íslendingar og útlendingar. Við og hinir. Þú og ég.
Í kringum 1900 fóru þúsundir Íslendingar til Kanada, gerðust Vesturfarar. Og við höfum sest að víðar með ágætis árangri. Í Brasilíu, Bandaríkjunum, Danmörku. Nokkur þúsund fóru til Noregs eftir hrun. Stundum er ástæða flutninga neikvæð; uppskerubrestur, skortur á tækifærum, fátækt - hrun. Það er þó ekkert algilt. Suma langar bara að kynnast meiru af heiminum áður en þeir drepast.
Við ferðumst meira en nokkru sinni fyrr og fjöldi ferðamanna hingað hefur ýtt undir sögulegt góðæri. Aldrei fleiri erlendir ríkisborgarar hafa greitt skatt á Íslandi en árið 2016 og Hagstofan spáir stöðugri fjölgun nýbúa næstu árin. Við stöðvum ekki þessa þróun en við ráðum hvernig við bregðumst við henni. Ætlum við að berjast við vindmyllur eða byggja upp vandað og notendavænt kerfi sem býður fólk velkomið?
--
Þessi kanadíski kærasti sem ég nefndi í upphafi gat bara valið möguleika A (í samráði við mig), þar sem hvorki blaðamennska né uppistand er skilgreind sem sérfræðikunnátta. Ári eftir giftingu gat hann loks sótt um dvalarleyfi á grundvelli hjónabands og er nú nýr Íslendingur.