Um þessar mundir eru tíu ár frá því að fyrstu alvarlegu einkennin komu fram um það - opinberlega - að ekki væri allt með felldu í íslensku hagkerfi. Hlutabréfaverð féll í kauphöllinni í október 2007, fasteignaviðskiptum snarfækkaði og gengi krónunnar hóf að gefa eftir.
Það þarf ekki að rekja í smáatriðum það sem gekk á fram á haust 2008. Hrunið, með neyðarlagasetningu 6. október og síðan fjármagnshöftum í nóvember sama ár, kom eins og sprengja inn í íslenskt efnahagslíf með tilheyrandi erfiðleikum. Gengið hrundi, atvinnuleysi rauk upp. Nýr veruleiki blasti við. Viðspyrna frá botni blasti við.
Heppni og róttækar aðgerðir
En núna, tíu árum eftir að hruntíminn hófst í reynd, er staðan allt önnur og betri. Hagvöxtur hefur verið viðvarandi frá árinu 2010 og var kröftugur í fyrra, yfir sjö prósent.
Allt frá árinu 2011 hefur vöxtur ferðaþjónustunnar knúið áfram öflugan hagvöxt. Ferðamönnum á ári hefur fjölgað úr innan við 450 þúsund árið 2010 í 2,3 milljónir á þessu ári. Flestar spár gera ráð fyrir áframhaldandi vexti og fjölgun ferðamanna. Merki um að aðeins sé að hægja á hagvexti hafa komið fram en spár Seðlabanka Íslands gera þó ráð fyrir 3,7 prósent hagvexti á þessu ári.
Atvinnuleysi er lítið sem ekkert, eða á milli 2 til 4 prósent, og launahækkanir hafa verið miklar undanfarin ár. Þá hefur mikill afgangur verið á viðskiptum við útlönd, þökk sé ferðaþjónustunni að miklu leyti, og verðbólga hefur í næstum fjögur ár haldist undir 2,5 prósent. Hún mælist nú 1,9 prósent á ársgrundvelli.
Fasteignaverð hefur rokið upp, einkum á höfuðborgarsvæðinu, en verðhækkunin nemur um 18 til 20 prósentum á undanförnu ári. Spár gera ráð fyrir áframhaldandi hækkunum næstu þrjú ár, en nýleg spá greinenda Íslandsbanka gerir ráð fyrir 12 prósent hækkun á næsta ári og 5 prósent árið þar á eftir. Þetta teljst miklar hækkanir í sögulegu samhengi, og mjög miklar í alþjóðlegum samanburði.
Með öðrum orðum; staðan er góð á flesta mælikvarða.
Varir ekki að eilífu
Jafnvel þó margt bendi til þess að hagvaxtarskeiðið muni halda áfram næstu árin, þá eru samt blikur á lofti í ákveðnum hlut hagkerfisins. Einkum og sér í lagi í útflutningi og í hinum svonefnda alþjóðageira. Fyrirtæki sem eru að selja vörur og þjónustu úr landi glíma nú við erfiðleika vegna þess hve gengi krónunnar er orðið sterkt, og greina má kælingaráhrif í ferðaþjónustu sömuleiðis.
Ferðamenn finna vel fyrir því hvað verðlag á Íslandi er hátt, þessi misserin.
Til lengdar litið virðist blasa við að þessi uppgangur sem hefur einkennt efnahagsmálin á Íslandi undanfarin misseri getur ekki varað að eilífu. Spennan í hagkerfinu er mikil og vöntun á vinnuafli víða, ekki síst í mannvirkjageiranum. Ný ríkisstjórn stendur frammi fyrir krefjandi hagstjórnarverkefni þar sem þarf að passa að spennan verði ekki of mikil, á sama tíma og það þarf að huga að mennta-, nýsköpunar-, samgöngu-, og heilbrigðismálum, ekki síst.
Allt kostar það peninga að bæta stöðuna sem fyrir er en stjórnvöld munu vafalítið þurfa að meta hvað teljist hinn gullni meðalvegur. Stjórnarsáttmálinn ber þetta með sér. Þar er ekki fullyrt mikið um hvað eigi að gera.
Freistnivandi?
Annað sem má telja jákvæðan vanda er að arðgreiðslur frá dótturfélögum ríkisins munu vafalítið aukast mikið á næstu árum. Tugir milljarða eru líklegir til að koma frá dótturfélögunum, þar helst Íslandsbanka, Landsbankanum og Landsvirkjun, í ríkiskassann.Í því árferði sem nú ríkir - þar sem mikil spenna er í hagkerfinu - þá gæti þetta skapað hálfgerðan freistnivanda fyrir stjórnmálamenn. Þeir gætu freistast til að greiða ekki niður skuldir heldur frekar stuðla að fjárfestingum og ýmsum vinsælum verkefnum sem gætu fært þeim atkvæði í kassann í kosningum.
Það er um margt merkilegt að hugsa til þess hvernig til hefur tekist við endurreisnina á íslenska hagkerfinu. Íslendingar ættu þó að muna, að það er ekki á vísan að róa, þegar kemur að góðu gengi í hagkerfinu. Þá má heldur ekki gleyma að neyðarlagasetningin og fjármagnshöftin, fyrir um níu árum, sköpuðu einstakar aðstæður til að bæta úr afar erfiðri stöðu. Þetta gátu aðrar þjóðir ekki gert. Ekki síst þess vegna ættu stjórnvöld að fara að öllu með gát, sýna auðmýkt og varfærni, frekar en að leggja upp í nýja rússíbanareið.