- Húsnæðisverð á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað um 94 prósent frá því í desember árið 2010. Raunverð fasteigna á svæðinu hefur aldrei í sögunni verið hærra en það er nú. Þetta hefur meðal annars leitt til þess að fjöldi íbúa á hverja íbúð hér á landi hefur hækkað undanfarin ár á meðan hann hefur almennt farið lækkandi á hinum Norðurlöndunum. Í dag eru um 2,5 íbúar í hverri íbúð á Íslandi en annars staðar á Norðurlöndum eru um tveir íbúar í hverri íbúð.
- Leiguverð hefur líka hækkað mikið. Alls hefur það hækkað um 78,7 prósent frá því i byrjun árs 2011. Á sama tíma er sífellt stærra hlutfall Íslendinga á leigumarkaði, eða 17 prósent. Meirihluti leigjenda, alls 57 prósent, er á leigumarkaðnum af nauðsyn og 80 prósent leigjenda vilja kaupa sér íbúð, en geta það ekki. Einungis 14 prósent leigjenda vilja vera á leigumarkaði. Þriðji hver leigjandi borgar meira en helming af ráðstöfunartekjum sínum í leigu og fáir tekjulágir leigjendur geta safnað sér sparifé. Þetta kom fram í nýlegri könnun Íbúðalánasjóðs.
- Um þessar mundir eru búa um 20.000 manns á aldrinum 20 til 29 ára í foreldrahúsum og hefur sá fjöldi farið vaxandi. Á höfuðborgarsvæðinu búa meira en fjórir af hverjum tíu íbúum höfuðborgarsvæðisins á þrítugsaldri ýmist enn eða á ný í foreldrahúsum.
- Helsta ástæða þess að íbúðaverð hefur hækkað mikið á skömmum tíma, og erfiðara hefur verið fyrir ungt eða tekjulágt fólk að kaupa eða leigja, er að eftirspurn er langsamlega meiri en framboð. Samkvæmt greiningu Íbúðalánasjóðs, sem gerð var fyrir aðgerðarhóp félags- og jafnréttismálaráðherra og birt var í apríl, vantaði nú þegar 4.600 íbúðir og byggja þyrfti níu þúsund íbúðir til loka árs 2018 til að ná jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar.
- Annar hluti húsnæðisvandans felst í aukinni skammtímaleigu íbúða til ferðamanna. Árið 2010 voru ferðamenn sem heimsóttu Ísland um 500 þúsund. Á þessu ári er búist við 2,3 milljónum slíkra. Um 1,2 prósent íbúða á höfuðborgarsvæðinu hafa verið í leigu á Airbnb í 180 daga eða fleiri á síðustu 12 mánuðum. Staðan er öðruvísi á mörgum öðrum landsvæðum þar sem minna er um að íbúðir séu í svo mikilli útleigu á Airbnb. Samkvæmt nýlegri greiningu Íslandsbanka á íslenskum íbúðamarkaði voru til að mynda 1.225 heimili í heilsársleigu á Airbnb í Reykjavík í ágúst 2016.
- Ein ástæða þess að leigumarkaður hefur orðið erfiðari á undanförnum árum er innreið leigufélaga sem rekin eru með hagnaðarsjónarmiði. Þau rökstyðja tilveru sína með því að þau tryggi stöðugleika, húsnæðisöryggi og langtímaleigu sem skort hafi á leigumarkaði þar sem húsnæðiseigandi var að leigja sína eign til leigjenda, oft til skemmri tíma. Stærstu aðilarnir á þessum markaði eru Almenna leigufélagið (stýrt af GAMMA) og Heimavellir. Frá því að þessir tveir aðilar fóru að kaupa upp þúsundir eigna til að leigja þær út hefur leiguverð hækkað um tugi prósenta. Samkeppniseftirlitið greindi frá því í tilkynningu fyrr á þessu ári að sérhæfð leigufélög á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum ættu allt að 40 prósent íbúðarhúsnæðis í almennri útleigu á höfuðborgarsvæðinu og á milli 70 til 80 prósent á Suðurnesjum.
- Kjör húsnæðislána á Íslandi hafa batnað mikið á undanförnum árum. Fyrr á þessu ári fóru að bjóðast í fyrsta sinn íbúðalánavextir á Íslandi sem eru undir þrjú prósent, verðtryggt. Bestu kjörin eru sem stendur hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, sem býður 2,77 prósent breytilega verðtryggða vexti. Endurkoma lífeyrissjóðanna inn á húsnæðislánamarkað, sem hófst af alvöru síðla árs 2015, hefur því gjörbreytt vaxtaumhverfinu. Þeir geta boðið mun betri kjör en viðskiptabankarnir. Þá hafa breytingar á lögum um lántökugjöld gert það að verkum að þau hafa lækkað mikið og gert neytendum auðveldara fyrir að færa sig á milli lánveitenda með íbúðalán sín til að fá sem best kjör.
- Átta af hverjum tíu Íslendingum hafa sagst vera hlynntir afnámi verðtryggingar. Samt taka Íslendingar nánast einvörðungu verðtryggð lán þótt aðrir lánakostir séu í boði. Og ásóknin í verðtryggðu lánin er bara að aukast. Af nýjum íbúðalánum sem lífeyrissjóðir landsins veittu á fyrri helmingi ársins 2017 voru 72,1 prósent verðtryggð. Hlutfallið var svipað hjá íslensku viðskiptabönkunum. Þar hækkar hlutfall verðtryggðra íbúðalána sífellt á kostnað óverðtryggðra lána. Auk þess eru öll lán Íbúðarlánasjóðs verðtryggð. Ástæðan er tvíþætt. Í fyrsta lagi hafa verðtryggð lán einfaldlega verið hagstæðari þar sem verðbólga hefur haldist undir 2,5 prósent markmiði Seðlabanka Íslands í 44 mánuði samfleytt og bankinn hefur verið að lækka meginvexti sína. Það hefur leitt til þess að íbúðalánavextir hafa líka lækkað. Hin ástæðan er sú að greiðslubyrðin af verðtryggðum lánum er lægri en á óverðtryggðum og því auðveldara að láta mánaðarmótin ganga upp með því að taka slík.
- Fyrir bankahrun jókst skuldsetning íslenskra heimila gríðarlega mikið. Almenningur tók út aukningu á eigin fé í húsnæði og fjárfesti fyrir eða eyddi í neyslu. Eftir að ráðist var í allskyns tiltekt í skuldastöðu íslenskra heimila á borð við sértæka skuldaðlögun, 110 prósent leiðina, leiðréttinguna og auðvitað endurútreikning á ólögmætum myntkörfulánum hefur skuldastaða íslenskra heimila batnað mikið. Þetta, ásamt stöðugleika í efnahagslífinu og hækkun húsnæðisverðs, hefur stóraukið eigið fé þjóðarinnar, sem er að mestu bundið í húsnæði. Alls áttu Íslendingar 3.343,3 milljarða króna í eigið fé um síðustu áramót, og þar af var 77 prósent eigið fé í fasteign. Íslendingar virðast hafa lært af reynslunni og hafa ekki tekið út þetta aukna eigið fé í þessari lotu. Skuldir heimilanna sem hlutfall af ráðstöfunartekjum hafa ekki verið lægri frá aldamótum.
- 10. Almennar vaxtabætur vegna vaxtagjalda af lánum til kaupa á íbúðarhúsnæði, sem einstaklingar greiddu af á árinu 2016, námu 4,3 milljörðum króna. Þær lækkuðu um 16,8 prósent á milli ára. Alls fengu 26.107 þiggjendur vaxtabætur á síðasta ári, eða 12,1 prósent færri en árið áður. Um 90 prósent þeirra fara til efnameiri helmings þjóðarinnar. Vaxtabætur hafa samtals lækkað um 7,7 milljarða króna síðan árið 2010 og þeim fjölskyldum sem fá þær hefur fækkað um rúmlega 30 þúsund á saman tíma. Á sama tíma og sífellt færri fá vaxtabætur vegna íbúðarhúsnæðis þá hafa fasteignagjöld, sem sveitarfélög leggja á, hækkað um 50 prósent vegna gríðarlegra hækkana á húsnæðisverði.
Tíu staðreyndir um húsnæðismál á Íslandi
Ungt og/eða efnalítið fólk getur ekki komist inn á húsnæðismarkað, þrátt fyrir langvinnt góðæri. Flestir sem leigja vilja vera í öðrum aðstæðum. Og þeir sem eiga húsnæði græða á þessu öllu saman. Hér eru tíu staðreyndir um þennan snúna markað.
Auglýsing
Við þurfum á þínu framlagi að halda
Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.
Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.
Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.
Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.
Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.
Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.
Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.
Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.
MorgunpósturinnEkki missa af neinuNánar