Vaxtarstigið á Íslandi hefur verið áberandi í umræðu stjórnmálamanna úr öllum flokkum undanfarin misseri. Allir virðast sammála um að lækka þurfi raunvexti, en þeir eru langtum hærri hér á landi heldur en í öðrum löndum sem við berum okkur saman við. Ástæður hárra raunvaxta eru fjölþættar og sumum þeirra verður erfitt að breyta. Hins vegar eru ýmsar vísbendingar á lofti um að þeir muni lækka umtalsvert á næstu árum.
Stærsta velferðarmálið
Íslenska hagkerfið hefur siglt nokkuð lygnan sjó undanfarin ár með auknum hagvexti og minnkandi verðbólgu. Samhliða bjartari horfum hefur pólitísk umræða um efnahagsmál á Íslandi einnig tekið nokkrum breytingum og snýst nú í auknum mæli um háa vexti á íbúðalánum, en lækkun þeirra hefur gjarnan verið nefnd „stærsta velferðarmál Íslendinga“.
Þessa þróun mátti sérstaklega sjá í nýliðinni kosningabaráttu, en þar var lækkun vaxta í einhverri mynd á stefnuskrá allra stjórnmálaflokkanna. Aðferðir flokkanna við lækkun vaxta voru margvíslegar en sneru flestar að raunvöxtum og hvernig mætti gera þá sambærilega því sem þekkist í nágrannalöndum okkar.
Ísland í Karíbahafinu
Vexti má líta á sem verð á fjármálaþjónustu, þ.e. hversu mikið við þurfum að borga til þess að geta tekið lán. Raunvextir mæla sama hlutinn en taka þó tillit til almennrar verðhækkunar í framtíðinni og eiga því að gefa betri mynd af kostnaðinum af lántöku.
Ef lítið er um fjármagn eða mikið um lántökur í ákveðnu landi eru lánin þar verðmætari og vextir hærri. Þetta tvennt er dæmigert fyrir þróunarlönd sem standa í mikilli uppbyggingu og því eru vextir þar gjarnan hærri en í iðnríkjum. Þess vegna virðist sérkennilegt að almennir vextir hérlendis, á skandinavískri eyju með öflugt velferðarkerfi, séu himinháir miðað við Evrópu og Norður-Ameríku og líkari því sem þekkist á eyjum í Karíbahafinu.
Fjórar ástæður
Háir raunvextir hafa fylgt Íslendingum í árabil og eru því langt frá því að vera nýtt vandamál. Margar ástæður liggja þar að baki, en eftirfarandi fjórar eru líklega veigamestar: Óstöðugt fjármálaumhverfi, uppsöfnuð fjárfestingaþörf, lágur meðalaldur og óhagkvæmni íslenskra banka.
Sveiflukennt hagkerfi með gjaldeyrishöftum og fallvalta krónu hefur rýrt traust erlendra aðila og gert þeim erfiðara fyrir að fjárfesta hér á landi. Þar af leiðandi er fjármagnsflæði til Íslands verulega heft og minna um lánsfjármagn en annars hefði verið.
Innlend fjárfesting hefur einnig setið á hakanum árin eftir hrun, á sama tíma og sprenging í komu ferðamanna hefur sett sinn svip á húsnæðismarkaðinn og innviði landsins. Nú er svo komið að veruleg þörf er á uppbyggingu nýrra íbúða og viðhaldi innviða víða um land, sem eykur eftirspurn eftir frekari fjármagni.
Sömuleiðis hefur lágur meðalaldur þjóðarinnar stuðlað að háum vöxtum. Vegna hans eru hlutfallslega margir Íslendingar á aldrinum 20-40 ára sem þurfa að skuldsetja sig, meðal annars fyrir skólagöngu og til íbúðarkaupa. Þannig er eftirspurn eftir slíkum lánum meiri hér en í öðrum Evrópulöndum þar sem meðalaldur er hærri.
Að lokum má svo nefna fákeppni á bankamarkaði. Landsbankinn, Íslandsbanki og Arion banki eru allir örlitlir í alþjóðlegu samhengi og hafa ekki þurft að standa í neinni samkeppni erlendis frá. Þannig er hagkvæmni í rekstri þeirra ábótavant, en lánakjör bankanna eru töluvert verri en hjá stærri evrópskum bönkum sem starfa í virku samkeppnisumhverfi.
Spennandi tímar fram undan
Eins og sést ræðst hátt vaxtarstig Íslands af fjölmörgum djúpum þáttum sem erfitt er að breyta skyndilega. Hins vegar ekki þar með sagt að það sé óbreytanlegt. Háir vextir í litlum ríkjum er ekkert náttúrulögmál, þvert á móti eru vísbendingar á lofti um að þeir eigi eftir að lækka á Íslandi á næstu misserum.
Með losun gjaldeyrishafta má vænta þess að erlendar fjárfestingar taki að aukast hérlendis og sömuleiðis virðast flestir stjórnmálaflokkar sammála um að ráðast eigi í fjárfestingar í innviðum og uppbyggingu íbúðarhúsnæðis á næstu árum. Einnig er ljóst að hlutfall ungs fólks á Íslandi muni lækka á næstu árum en það skilar sér að öllum líkindum í minni eftirspurn eftir íbúða- og námslánum, sé tekið tillit til mannfjölda.
Til viðbótar við mögulegar auknar fjárfestingar og minni lántöku er líklegt að bankaþjónusta á Íslandi muni taka stakkaskiptum í náinni framtíð. Samkvæmt nýlegri úttekt Sopra Banking er mikilli hagræðingu spáð í fjármálafyrirtækjum á heimsvísu og á Íslandi, en þar að auki þykir sennilegt að erlend stórfyrirtæki komi til með að bjóða lánaþjónustu sína á Íslandi. Hvort tveggja yrði til mikilla hagsbóta fyrir íslenska neytendur og myndi skila sér í betri þjónustu auk lægri vaxta.