Flokkarnir þrír sem hafa verið í stjórnarmyndunarviðræðum undanfarnar vikur mun hitta þingflokka sína í dag til að fara yfir stöðu mála í viðræðunum. Þar verður stjórnarsáttmáli þó ekki lagður fram til kynningar, þrátt fyrir að vinna við hann sé mjög langt komin. Enn á eftir að ákveða hvernig verkaskipting verður á milli flokkanna, þ.e. hver fær hvaða ráðuneyti og fastanefndir þingsins til að stýra. Þó er gengið út frá því í allri vinnunni að Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, verði forsætisráðherra.
Eftir þingflokksfundina stendur til að hitta fulltrúa væntanlegrar stjórnarandstöðu. Heimildir Kjarnans herma að flokksstofnanir Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstri grænna verði kallaðar saman um miðja viku. Þannig stendur til að mynda til að kalla flokksráð Vinstri grænna saman síðdegis á miðvikudag og niðurstaða þess ætti að liggja fyrir á miðvikudagskvöld.
Ef allar flokksstofnanir flokkanna þriggja samþykkja myndun ríkisstjórnarinnar mun hún verða formlega mynduð annað hvort á fimmtudag eða laugardag. Föstudagurinn 1. desember, fullveldisdagur þjóðarinnar, þykir ekki koma til greina vegna þess að forseti Íslands er ekki viðlátinn til að halda fyrsta ríkisráðsfund nýrrar ríkisstjórnar á þeim degi vegna embættisskyldna.
Fyrsta mál sem hin nýja ríkisstjórn mun leggja fram verða ný fjárlög og það er ekki hægt að gera fyrr en hún hefur verið formlega mynduð. Auk þess þarf framlagning fjárlaga að ganga í gegnum ákveðinn feril áður en hægt er að leggja þau fram. Því herma heimildir Kjarnans að búist sé við að þing verði ekki kallað saman fyrr en á fimmtudag í næstu viku, eða 7. desember
Heimildir Kjarnans herma að allar líkur séu á því að af myndun stjórnarinnar verði þrátt fyrir að formenn flokkanna þriggja: Katrín, Bjarni Benediktsson og Sigurður Ingi Jóhannsson, eigi enn eftir að ná lendingu í nokkrum stórum ágreiningsmálum. Þau sem helst hafa verið nefnd í því samhengi eru skattamál og rammaáætlun.
Þá hafa verið mismunandi skoðanir á því hvort að málefni Seðlabanka Íslands eigi að fara aftur til fjármála- og efnahagsráðuneytisins, þar sem Bjarni mun að öllum líkindum setjast, eða hvort þau eigi að vera áfram í forsætisráðuneytinu hjá Katrínu. Starf seðlabankastjóra verður auglýst til umsóknar á kjörtímabilinu og gengið er út frá því að Már Guðmundsson muni ekki sækjast eftir því að verða skipaður aftur. Því þarf að skipa nýjan mann, eða konu, í þessa miklu valdastöðu.