Seðlabanki Íslands hefur ekki tekið ákvörðun um hvernig hann ætlar að bregðast við birtingu á afriti símtals milli Davíðs Oddssonar, fyrrverandi seðlabankastjóra, og Geirs H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, um neyðarlánaveitingu til Kaupþings upp á 500 milljónir evra þann 6. október 2008. Samkvæmt svörum bankans er málið enn i skoðun.
Heimildir Kjarnans herma að innan bankans geri lykilmenn sér grein fyrir því að rannsaka þurfi málið með einhverjum hætti. Um sé að ræða birtingu á trúnaðarupplýsingum sem Seðlabankinn hefur barist hart fyrir að t.d. aðrir fjölmiðlar fái ekki aðgang að, en birtust svo í dagblaði sem fyrrverandi æðsti embættismaður bankans stýrir.
Trúverðugleiki Seðlabankans, jafnt innanlands sem utan, gæti skaðast vegna málsins.
Kjarninn stefndi Seðlabanka Íslands í lok október til að reyna að fá afhent hljóðupptöku af símtali Davíðs og Geirs. Seðlabankinn hefur ákveðið að taka til varna í því máli og leggur því augljóslega mikla áherslu á að símtalið kæmi ekki fyrir augu almennings.
Fjallað var um símtalið og afleiðingar þess í nýjasta sjónvarpsþætti Kjarnans á Hringbraut. Hægt er að horfa á þáttinn í heild sinni í glugganum hér að ofan.
Fáir símar hljóðritaðir
Innan Seðlabanka Íslands eru fáir símar hljóðritaðir. Þeir sem þannig er háttað um eru símar starfsmanna sem hafa með fjármála- og viðskiptagjörninga að gera. Þannig er málum einnig háttað innan stóru fjármálafyrirtækjanna hérlendis. Handfylli af símum eru alltaf hljóðritaðir vegna eðlis starfa þeirra sem þá nota. Innan í fjármálakerfinu vita allir hvaða símar það eru sem eru hljóðritaðir, og símtöl í þá bera þess merki. Menn vanda sig þegar hringt er í þá síma.
Einn þeirra sem var með hljóðritaðan síma innan Seðlabankans var Sturla Pálsson, sem í dag er framkvæmdastjóri markaðsviðskipta og fjarstýringar í bankanum. Allir lykilstarfsmenn bankans vissu að símtöl í síma Sturlu voru hljóðrituð.
Í vitnaskýrslu yfir Sturlu hjá sérstökum saksóknara árið 2012 kom fram að símtal milli Davíðs Oddssonar og Geirs H. Haarde, þar sem rætt var um neyðarlánveitinguna, hafi átt sér stað klukkan 11.57 mánudaginn 6. október. Þar sagði einnig að það hafi farið fram í gegnum síma Sturlu, sem var viðstaddur símtalið. Davíð sagði í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins 18. nóvember að samtalið hafi verið tekið upp fyrir tilviljun. Í frétt blaðsins um símtalið sama dag var því haldið fram að hvorki Davíð né Geir hafi vitað að það væri hljóðritað, án þess að neinn væri hafður fyrir því.
Við skýrslutökuna hjá sérstökum saksóknara árið 2012 sagði Sturla hins vegar að Davíð hafi vitað að sími Sturlu væri hljóðritaður og því frekar tekið símtalið úr síma samstarfsmanns síns en úr sínum eigin. Enginn annar var viðstaddur símtalið Seðlabankamegin en þeir tveir, Davíð og Sturla.
Viðmælendur Kjarnans sem þekkja vel til málsins telja engan vafa á því að Davíð Oddsson vissi nákvæmlega hvað hann var að gera. Hann vildi að símtalið yrði tekið upp og þess vegna tók hann það í gegnum síma Sturlu.
Misvísandi frásagnir um ábyrgð
En af hverju? Hvaða máli skipti það? Það skiptir máli þegar ákveða á hvar ábyrgðin á veitingu lánsins liggur. Um hana eru málsaðilar nefnilega alls ekki sammála. Yfirlögfræðingur Seðlabankans sagði til að mynda við rannsóknarnefnd Alþingis að Seðlabankinn hefði ákveðið að veita lánið.
Geir H. Haarde sagði í sjónvarpsviðtali í október 2014 að Seðlabankinn hefði haft fulla heimild til að veita lánið. Björn Þorvaldsson, saksóknari í Al Thani-málinu svokallaða, sagði í málflutningi fyrir héraðsdómi telja að þau fölsku hughrif sem kaupin hefðu valdið hefðu átt þátt í að Seðlabankinn veitti umrætt lán.
Davíð Oddsson sagði í Reykjavíkurbréfi í október í fyrra að ríkisstjórn Geirs H. Haarde hefði tekið ákvörðunina. Már Guðmundsson, núverandi Seðlabankastjóri, hefur hins vegar síðar sagt að ábyrgðin á láninu hvíli alltaf á endanum á Seðlabankanum.
Þegar afrit af samtali Davíðs og Geirs er lesið er nokkuð skýrt að Davíð vill að Geir segi hvort að veita eigi lánið eða ekki. Á einum stað segir hann t.d. við Geir: „Þú ert að tala um það að við eigum frekar að reyna að hjálpa Kaupþingi?“ Á öðrum stað, þar sem verið er að ræða veð, spyr Davíð:„Já, já ert þú ekki sammála því að við verðum að gera ýtrustu kröfur?“
Eftir að símtalinu lauk hringdi Davíð í Hreiðar Má Sigurðsson, þáverandi forstjóra Kaupþings, og tilkynnti honum að Kaupþing myndi fá fyrirgreiðsluna sem beðið hefði verið um. Í vitnaskýrslunni yfir Sturlu sagði að: „Aðspurður um hvenær sú ákvörðun hefði legið fyrir að SÍ ætlaði að hjálpa Kaupþingi en ekki LÍ kvað SP að DO hafa sagt að ekki yrði hæg að bjarga báðum bönkunum. DO hafi sagt GHH að þeir fengju þennan pening ekki til baka og að ákvörðunin hafi í raun verið GHH.“
Davíð kallaði Geir „idjót“
Geir gaf ekki leyfi fyrir birtingu símtalsins þegar það var birt í Morgunblaðinu. Hann hefur alla tíð verið á móti því að símtalið yrði birt vegna þess að það sé ólíðandi að símtöl forsætisráðherra við embættismenn ríkisins séu hljóðrituð án vitundar ráðherrans. Einn viðmælenda Kjarnans sem rætt hefur málið við Geir sagði að hann teldi sig að leikið hefði verið á sig á mjög viðkvæmum tíma. Davíð hafi vitað upp á hár hvað hann væri að gera.
Þær aðstæður fá stuðning í nokkrum frásögnum sem komu fram við skýrslutöku fyrir rannsóknarnefnd Alþingis. Jón Steinsson, hagfræðingur, sem búsettur er í Bandaríkjunum og er dósent við Columbia háskólann í New York, var kallaður til af Geir til að aðstoða við þær aðstæður sem upp voru komnar í byrjun október 2008. Jón sagði við nefndina að þegar hann hitti Geir fyrst eftir heimkomuna þá hafi „hann virst vera á barmi taugaáfalls.“ Hann sagði líka að starfsmenn Seðlabankans hefðu sagt sér að „Davíð Oddsson, formaður bankastjórnar Seðlabankans, talaði um Geir sem „idjót““.
Þarf formlega beiðni til að afrita símtal
Davíð skrifar aftur um símtalið í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins um liðna helgi. Þar segir hann að ýmsir fjölmiðlar hafi gefið það til kynna að hann hafi haft afrit af símtalinu með sér úr Seðlabankanum þegar hann var knúinn til að hætta sem seðlabankastjóri. Í Reykjavíkurbréfinu stendur: „En vandinn er sá, að þetta símtal var ekki afritað á meðan sá var í bankanum. Það var ekki fyrr en löngu síðar, þegar Rannsóknarnefnd Alþingis vildi fá að sjá ýmis símtöl sem kynnu að hafa þýðingu fyrir vinnu nefndarinnar, sem hafist var handa við afrit samtalanna. Bankastjórinn var þá fyrir löngu horfinn tómhentur úr bankanum og hefur ekki komið inn í það hús síðan.“ Með öðrum orðum þá segist Davíð ekki hafa tekið símtalið með sér úr Seðlabankanum og látið blaðamanni á Morgunblaðinu það í té mörgum árum síðar.
Og það er rétt, samkvæmt heimildum Kjarnans, að símtalið var ekki afritað formlega á meðan að Davíð var enn í Seðlabankanum. Til að fá afrit af hljóðrituðu símtali og til að fá leyfi til að hlusta á það þarf að leggja fram beiðni. Hún er alltaf bókuð. Síðan er verkefnið sent til ritara sem skrifar afritið upp og lætur viðkomandi hafa.
Beiðni til þess að afrita símtalið var ekki lögð fram, samkvæmt heimildum Kjarnans, fyrr en til stóð að afhenda það rannsóknarnefnd Alþingis á árinu 2009. Það gerði Sturla Pálsson og innan Seðlabankans er til beiðni fyrir gerð þess afrits. Sú nefnd var skipuð 30. desember 2008 og lauk störfum með skýrsluskilum í apríl 2010. Greint var frá því að Davíð myndi hætta sem seðlabankastjóri í lok febrúar 2009, eftir að rannsóknarnefndin hóf störf.
Þó er alltaf sá möguleiki fyrir hendi að afrit hafi verið tekið af símtalinu eftir öðrum leiðum. Eða að það afrit sem hafi verið gert hafi farið víðar en það átti að fara. Þetta er á meðal þess sem verið er að kanna innan Seðlabankans nú.
Ýmsir aðrir hafa haft afrit
Það hafa fleiri einingar innan stjórnsýslunnar fengið afritið af símtalinu fræga. Fréttastofa RÚV óskaði eftir því árið 2012 að Seðlabankinn léti umrædda hljóðupptöku af höndum, en bankinn synjaði beiðni fréttastofunnar um afhendingu upptökunnar. Hljóðupptakan væri undanskilin upplýsingalögum vegna þagnarskylduákvæða í lögum um Seðlabankann. Fréttastofan kærði synjunina til Úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Í úrskurði nefndarinnar var synjun Seðlabankans staðfest, en þar kom fram að bankinn hafi sent Úrskurðarnefndinni afrit af útskrift símtalsins í trúnaði, ásamt bréfi þar sem Seðlabankinn gerði athugasemdir við kæru málsins.
Fréttastofa RÚV vildi ekki una niðurstöðunni og vísaði úrskurði nefndarinnar til Umboðsmanns Alþingis, sem gerði ekki athugasemd við að Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefði synjað fréttastofunnar um aðgang að hljóðupptöku að fyrrgreindu símtali. Í niðurstöðu Umboðsmanns kom fram að embættinu hafi sömuleiðis borist útskrift af símtalinu.
Þá hefur Kjarninn heimildir fyrir því að útskrift af símtali Davíðs og Geirs hafi verið sent forsætisráðuneytinu.
Fjárlaganefnd Alþingis sótti fast á sínum tíma að fá afhenda sjálfa hljóðupptökuna af símtalinu, til að glöggva sig á því hvernig staðið var að lánveitingunni til Kaupþings, án árangurs. Seðlabankinn heimilaði að lokum nefndarmönnum fjárlaganefndar að lesa útskriftina af símtalinu á sérstökum fundi með fulltrúum Seðlabankans. Nefndarmenn fengu hins vegar hvorki að halda eftir eintökum af útskriftinni, né vitna til hennar í opinberum skýrslum.
Það eru því ýmsir sem hafa haft afrit af símtalinu undir höndum. En veruleikinn er samt sá að það birtist í dagblaði sem ritstýrt er af öðrum þeirra sem áttu samtalið. Sá hefur því alla tíð vitað nákvæmlega hvert innihald símtalsins var.
Símtalið við Mervyn King
Það sem eykur á tortryggni gagnvart Davíð er að hann hefur áður vitnað í símtal sem hann átti sem seðlabankastjóri, og tekið var upp án vitneskju þess sem við var rætt. Það símtal var við Mervyn King, þá bankastjóra Englandsbanka.
Davíð greindi opinberlega frá efni símtalsins í viðtali við áramótablað Viðskiptablaðsins 2010. Þar sagði hann að í því hefði King hefði lofað að falla frá kröfum á hendur Íslandi vegna Icesave-reikninganna. Við skýrslutöku hjá rannsóknarnefnd Alþingis sagði Árni M. Mathiesen, fyrrverandi fjármálaráðherra, að Davíð hafi á fundi í ráðherrabústaðnum 4. október 2008 lesið endurrit af símtali sínu við King. Það var mat Árna að Davíð væri að leggja „of mikið upp úr orðum Mervyn King“.
Í skýrslu rannsóknarnefndarinnar, sem kom út áður en að Davíð greindi frá efni símtalsins í Viðskiptablaðinu, var ekki birt endurrit af því. Þar segir: „Endurrit af framangreindu samtali Davíðs Oddssonar og Mervyn King ber ekki með sér að Davíð hafi í upphafi samtalsins óskað leyfis Mervyn King fyrir því að fá að hljóðrita það, líkt og skylt er samkvæmt 1. mgr. 48. gr. laga nr. 81/2003 um fjarskipti. Í endurritinu kemur einnig fram að Davíð hafi sérstaklega nefnt að um trúnaðarsamtal væri að ræða, sbr. orð hans („because we are talking 100% in secrecy and private“), og að Mervyn King hafi játað því. Af þeirri ástæðu veitti rannsóknarnefnd Alþingis King tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri varðandi hugsanlega birtingu efnis úr endurriti samtalsins. Í bréfi sem nefndinni barst frá Graham Nicholson, lögfræðingi hjá Seðlabanka Bretlands, dags. 17. desember 2009, kemur fram að Davíð hafi ekki upplýst King um fyrirhugaða hljóðritun samtalsins. Hljóðritunin gangi einnig gegn venjum í samskiptum milli seðlabanka. Í samtalinu hafi loks komið fram viðkvæmar upplýsingar um margvíslega banka. Af hálfu Mervyn King sé því lagst gegn birtingu endurritsins.“
Því liggur fyrir að Davíð hefur áður brotið trúnað vegna símtals sem hann átti sem seðlabankastjóri og greint frá innihaldi þess eftir að hann hætti í því embætti. Það símtal var einnig hljóðritað án vitneskju þess sem við var rætt.