Væntanlegur afgangur af nýju fjárlagafrumvarpi nýrrar ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur, sem nú er unnið að, mun verða mun minni en þeir 44 milljarðar króna sem síðasta ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar ætlaði að skila í afgang. Fimm ára fjármálaætlun síðustu ríkisstjórnar, sem var lögð fram í mars á þessu ári og samþykkt 1. júní, verður tekin upp og endurskoðuð með það í huga að auka útgjöld ríkissjóðs umfram það sem hún gerði ráð fyrir, samkvæmt heimildum Kjarnans.
Sú fjármálaáætlun gerði ráð fyrir að heildarútgjöld myndu vaxa um 208 milljarða króna yfir allt tímabilið og frumgjöld sem nemur 223 milljörðum króna. Stærstu útgjaldaliðirnir áttu að heilbrigðis- og velferðarmál.
Ekkert er fjallað sértækt um hvernig sú mikla fjárfesting sem ætluð er til lengri tíma í t.d. heilbrigðis- og menntamálum verður fjármögnum í fyrirliggjandi stjórnarsáttmála væntanlegrar ríkisstjórnar. Það þarf að búa til sjálfbæra tekjustofna til að standa undir þeirri fjárfestingu. Vilji er til þess innan þeirra flokka sem standa að ríkisstjórninni að lækka eigið fé í þeim bönkum sem ríkið á og greiða það út til að fjárfest Í t.d. innviðauppbyggingu. Það fé nýtist þó fyrst og fremst í einskiptiskostnað, t.d. við byggingu vega eða borun jarðganga, ekki við framtíðarrekstur stórra eininga innan stjórnkerfisins á borð við Landsspítala eða skólakerfisins.
Búið að ákveða hvernig ráðuneytin skiptast
Verkaskipting í ríkisstjórninni, sem verður mynduð á morgun samþykki flokksstofnanir stjórnarsáttmálann í kvöld og þingflokkar skipan ríkisstjórnar í fyrramálið, liggur ekki alveg fyrir. Heimildarmenn Kjarnans segja að Vinstri græn muni þó taka forsætisráðuneytið, heilbrigðisráðuneytið og umhverfisráðuneytið. Ljóst er að Katrín verður forsætisráðherra og búist er við því að Svandís Svavarsdóttir verði heilbrigðisráðherra. Steingrímur J. Sigfússon verður forseti Alþingis en misvísandi skilaboð berast um hver muni setjast í stól umhverfisráðherra. Þar koma til greina Lilja Rafney Magnúsdóttir, Ari Trausti Guðmundsson og Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir.
Framsóknarflokkurinn mun fá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið. Í það mun setjast Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður flokksins.
Lilja Alfreðsdóttir mun líklegast verða menntamálaráðherra og til viðbótar fær Framsóknarflokkurinn félagsmálaráðuneytið. Þar er talið líklegast að Þórunn Egilsdóttir muni setjast.
Hart verður tekist á um þær fimm nefndarformennskur sem stjórnarflokkarnir munu fá, en stjórnarandstaðan mun fá formennsku í þremur nefndum. Hjá Sjálfstæðisflokki eru tveir oddvitar án ráðherraembættis auk þess sem einn ráðherra mun missa sæti sitt í ríkisstjórn. Hjá Vinstri grænum verða tveir til þrír oddvitar án ráðherraembættis en ólíklegt verður að teljast að Rósa Björk Brynjólfsdóttir fái vegtyllu í ljósi andstöðu hennar við stjórnarmyndunarviðræðurnar. Auk þess liggur enn ekki fyrir hvort hún muni greiða atkvæði með stjórnarsáttmálanum. Hjá Framsóknarflokknum verða að minnsta kosti tveir oddvitar án ráðherraembættis.
Helstu atriði sáttmálans opinberuð í gær
Kjarninn greindi frá helstu atriðum stjórnarsáttmálans í gær. Þar kom fram að fjármagnstekjuskattur verður hækkaður um tvö prósentustig sem á að skila um 2,5 milljörðum króna í auknar skatttekjur. Gerð verður hvítbók um endurskipulagningu fjármálakerfisins, fæðingarorlof lengt og greiðslur til þeirra sem það taka hækkaðar. Komu- og brottfarargjöld verða lögð á og gistináttagjald mun renna óskert til sveitarfélaga.
Stofnaður verður stöðugleikasjóður, sem kallaður verður Þjóðarsjóður, og skipaðar þverpólitískar nefndir um endurskoðun á stjórnarskrá og um hvort þurfi að endurskoða útlendingalögin.