Kristján Þór Júlíusson, nýr sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, ætlar að leggja fram frumvarp á vorþingi um breytingar á lögum um umgengni um nytjastofna sjávar þar sem m.a. verða lagðar til breytingar á fyrirkomulagi vigtunar. Þetta verður gert í kjölfar nýlegrar umfjöllunar Kveiks og fréttastofu RÚV um brottkast sem á sér stað í íslenskum sjávarútveg og um að vigtun afla sé ekki sem skyldi. Þetta kemur fram í svari ráðuneytisins við fyrirspurn Kjarnans um málið.
Ekki verður greint frá því um hvaða breytingar sé að ræða fyrr en að frumvarpið verður lagt fram að öðru leyti en að viðurlög vegna brottkasts og vigtunarmála verða hluti af endurskoðun laganna.
Þá kemur fram í svari sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins að til greina komi að taka starfsemi Fiskistofu til sérstakrar skoðunar á næsta ári en að engin áform séu um að endurskoða flutning Fiskistofu frá Hafnarfirði til Akureyrar.
Styrkja þarf úrræði og viðurlög
Fjallað var um brottkast og alvarlega annmarka á vigtunarmálum á afla í fréttaskýringaþættinum Kveik á RÚV 21. nóvember síðastliðinn. Samkvæmt umfjölluninni á sér stað svindl í formi framhjálandana á afla og brottkast tíðkast á íslenskum skipum, þrátt fyrir að það sé ólöglegt. Eyþór Björnsson, forstjóri Fiskistofu, sagði í þættinum að stofnunin hefði ekki tök á að sinna þessum málum.
Daginn eftir sýndi fréttastofa RÚV myndband af brottkasti á fiski, sem átti sér stað á Kleifarberginu, skipi í eigu útgerðarfélagsins Brims, í fyrra.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sagði í Silfrinu 27. nóvember að útgerðin beri mesta ábyrgð á brottkasti og því að vigtun afla væri ekki sem skyldi. Hún sagði enn fremur að styrkja þyrfti úrræði og viðurlög vegna þessa.
Hin umdeildi flutningur Fiskistofu
Um mitt ár 2014 tilkynnti þáverandi ráðherra málaflokksins, Sigurður Ingi Jóhannsson, skyndilega að flytja ætti Fiskistofu frá Hafnarfirði til Akureyrar. Flutningnum átti að ljúka í árslok 2016.
Ákvörðunin var harðlega gagnrýnd, ekki síst af starfsmönnum stofnunarinnar. Í tilkynningu sem starfsfólkið sendi frá sér í lok september 2014 sagði að flutningurinn væri ólöglegur og engin fagleg sjónarmið byggju að baki. Þá hefði enginn starfsmaður Fiskistofu lýst yfir vilja til þess að flytja með stofnuninni til Akureyrar, að forstjóranum frátöldum. Málflutningur stjórnmálamanna, þar sem landsbyggð og höfuðborgarsvæðinu væri att saman, hafi verið óboðlegur og óþolandi þegar um pólitíska hreppaflutninga væri að ræða, þar sem flytja átti sérfræðimenntað fólk, nauðugt viljugt, milli landshluta án málefnalegra skýringa.
Í athugasemdum starfsmanna Fiskistofu til umboðsmanns Alþingis vegna flutningar stofnunarinnar, sem birtar voru í janúar 2015, sagði að ákvörðun Sigurðar Inga um flutning Fiskistofu hefði ekki lagastoð og væri því ólögmæt.
Sigurður Ingi ákvað í maí 2015 að falla frá því að starfsmenn Fiskistofu, að undanskildum Fiskistofustjóra, þyrftu að flytja til Akureyrar. Þess í stað myndi flutningurinn eiga sér stað í gegnum starfsmannaveltu og búist var við því að flutningurinn, sem átti að taka tvö og hálft ár, muni taka allt að 20 ár.
Segir árangur Fiskistofu ekkert síðri eftir flutning
Fiskistofustjóri sagði í apríl 2015 að merki væru um að stofnunin væri að liðast í sundur vegna þess óvissuástands sem skapast hefði um framtíð hennar í kjölfar ákvörðunar Sigurðar Inga.
Þorgerður Katrín sagði í Silfrinu 27. nóvember að Fiskistofu hefði verið „splundrað“ þegar hún var flutt til Akureyrar. Afleiðingin væri m.a. sú að stofnunin hefði ekki tök á því að sinna málum tengdum brottkasti og vigtunarmálum. „Það var pólitísk ákvörðun Sigurðar Inga að fara með stofnunina, sundra henni og setja í þetta einhverjar þrjú til fjögur hundruð milljónir sem ég hefði frekar viljað sjá í uppbyggingu á eftirlitskerfinu innan sjávarútvegskerfisins.“
Kjarninn spurði sjávarútvegsráðuneytið hvort flutningur Fiskistofu til Akureyrar yrði endurskoðaður. Í svari þess kemur fram að engin áform séu um slíkt. „Ekkert haldbært liggur fyrir um það að árangur Fiskistofu hafi verið eitthvað síðri eftir flutninginn til Akureyrar þó vissulega hafi mikil orka farið í flutninginn sjálfan og það sem honum við kom.“
Kjarninn spurði einnig hvort til greina kæmi að framkvæmd verði stjórnsýsluúttekt á Fiskistofu í ljósi þeirra upplýsinga sem nýverið komu fram, og viðurkenningu Fiskistofustjóra á því að stofnunin geti ekki sinnt lögbundnu hlutverki sínu?
Í svari ráðuneytisins kemur fram að starfsemi stofnana ráðuneytisins sé að jöfnu til skoðunar. „Á þessu ári var lögð áhersla á að fara vel yfir starfsemi Matvælastofnunar og til greina kemur að taka starfsemi Fiskistofu til sérstakrar skoðunar á næsta ári.“