Þess mun sjást staður í fjármálaáætlun nýrrar ríkisstjórnar, sem lögð verður fram í vor, að ríkið ætlar sér að leggja fé til þess að Borgarlínan verði að veruleika. Samstaða er um málið í ríkisstjórn. Þetta sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í sjónvarpsþætti Kjarnans í gærkvöldi.
Katrín sagði þar að það væri mjög mikilvægt að endurskoða samgöngukerfið á höfuðborgarsvæðinu og að huga þyrfti að því að breyta samgöngumynstrinu á svæðinu. Það væri skipulagsmál en ekki síður umhverfis- og loftlagsmál. Minnst er á borgarlínu stuttlega í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar. Þar segir: „Áfram þarf að byggja upp almenningssamgöngur um land allt og stutt verður við borgarlínu í samstarfi við Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.“
Hægt er að horfa á viðtalið við Katrínu í heild sinni í spilaranum hér að ofan.
Kjarninn greindi frá því í lok nóvember að í frumvarpi að fimm ára fjármálaáætlun Reykjavíkurborgar sem lagt var fyrir borgarstjórn í byrjun mánaðar sé gert ráð fyrir að 4,7 milljörðum króna verði veitt til uppbyggingar Borgarlínu.
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, sagði þó í sjónvarpsþætti Kjarnans 22. nóvember að þetta gæti breyst og að hann vissi ekki hvort þetta yrði endanleg tala sem veitt yrði í verkefnið á næstu fimm árum. „Kannski er ríkið tilbúið að fara ennþá hraðar í þetta og þá þurfum við að bæta við. En allavega þá er það algjörlega skýrt í mínum huga að Borgarlinan, það er að segja afkastameiri almenningssamgöngur þarf til þannig að samgöngukerfið á höfuðborgarsvæðinu virki.“ Hann benti á að spár sýni að um 70 þúsund manns muni bætast inn á höfuðborgarsvæðið til 2040 og á því þurfi að taka. Ef borgin bæti bara við nýjum hverfum í útjaðri sínum muni tafatími í umferðinni verða mun meiri en hann er nú þegar.
Dagur sagði að ef það séu einhverjir sem hafi ríka hagsmuni af því að almenningssamgöngur verði efldar, til dæmis með lagningu Borgarlínu, þá séu það þeir sem ætla sér áfram að nota bíl. Reykjavíkurborg, nágrannasveitarfélög höfuðborgarinnar og Vegagerðin séu samstíga í þessum málum vegna þess að allar greiningar sýni að hagsmunir allra fari saman í grænum áherslum í umferðarmálum.
Samkvæmt orðum Katrínar í sjónvarpsþætti Kjarnans í gær þá hefur ríkisstjórnin nú bæst í þann hóp.
Hagkvæmasta lausnin
Aukinn samgönguvandi á höfuðborgarsvæðinu hefur verið til umræðu á undanförnum árum og um leið lausnir við þeim vanda. Verkfræðistofan Mannvit vann kostnaðarmat á samgöngusviðsmyndum fyrir sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu árið 2014. Þar kemur í ljós að fjárfesting í bættum almenningssamgöngum og fjárfesting í vegakerfisins er hagkvæmasta lausnin. Það er jafnframt sú lausn sem skilar bestum árangri.
Ef ráðast á í uppbyggingu stofnvega innan höfuðborgarsvæðisins eingöngu til þess að takast á við auka bílaumferð innan og á milli sveitarfélaganna á suðvesturhorni landsins, mun það verða mun óhagkvæmara en að blanda saman uppbyggingu almenningssamgangna-, bílaumferðar- og hjólreiðainnviða.
Kostnaður við Borgarlínuna mun á endanum verða á bilinu 63 til 70 milljarðar króna. Sá kostnaður mun dreifast yfir nokkur ár.
Á aðalfundi SSH 3. nóvember síðastliðinn kom fram að ef ráðist verði í framkvæmdir við helming Borgarlínunnar í fyrsta áfanga yrði það fjárfesting upp á 30 til 35 milljarða króna.
Hraðvagnar ekki lestir
Ekki er gert ráð fyrir að lestarteinar verði lagðir á höfuðborgarsvæðinu fyrir Borgarlínuna fyrst um sinn. Þéttleiki byggðarinnar og fjöldi farþega uppfyllir einfaldlega ekki þau þarfaviðmið sem þurfa að vera til staðar fyrir járnbrautalestir. Þess vegna verða vagnarnir sem þjóna á Borgarlínunni hefðbundnir strætisvagnar.
Helsti munurinn verður hins vegar að vagnarnir stoppa tíðar á hverri stoppistöð fyrir sig og hafa greiða leið um borgarlandið, enda verður Borgarlínan aðskilinn frá annarri bílaumferð. Hönnun kerfisins á hins vegar ekki að útiloka að hægt verði að breyta því í léttlestarkerfi síðar meir ef þess gerist þörf.