Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, segir að veiðigjald sem lagt er á útgerðir landsins þurfi að byggja á nýjustu upplýsingum um afkomu þeirra og að það þurfi að taka í meira mæli mið af afkomu einstakra útgerðarflokka. Hann telur nauðsynlegt að endurskoða núverandi fyrirkomulag veiðigjalda. Niðurstaða þeirrar endurskoðunar kann, að sögn Kristjáns, að leiða til breytinga á álagningu veiðigjalda ýmist til hækkunar eða lækkunar. Áætlað er að veiðigjöld verði um ellefu milljarðar króna á yfirstandandi fiskveiðiári.
Kristján sagði í svari við fyrirspurn Stundarinnar í síðustu viku að vegna tengsla sinna við Samherja muni hann hugsanlega ekki koma að ákvarðanatöku sem tengist rekstri sjávarútvegsfyrirtækisins beint, en Kristján er fyrrverandi stjórnarformaður Samherja auk þess sem hann hefur tvívegis farið túra á skipum fyrirtækisins í þinghléum.
Samherji er stærsta sjávarútvegsfyrirtæki landsins og greiddi samtals 3,1 milljarð króna í tekjuskatt og veiðigjöld á árinu 2016. Aðspurður um hvort ákvörðun um breytingar á veiðigjöldum teljist tengjast rekstri Samherja beint segir Kristján svo ekki vera. Álagning veiðigjalda sé almenn aðgerð sem snerti öll útgerðarfyrirtæki landsins. Hann telur sig því ekki vera vanhæfan til að koma að ákvörðun veiðigjalda vegna tengsla sinna við Samherja.
Segir að endurskoða þurfi álagningu veiðigjalds
Í viðtali við ViðskiptaMoggann í síðustu viku sagði Kristján að ljóst sé að endurskoða þurfi álagningu veiðigjaldsins. Vert væri að skoða hvaða leiðir hægt væri að fara til að „einfalda gjaldtökuna um leið og við færum forsendur hennar nær okkur í tíma og látum hana spegla betur afkomu einstakra útgerðarflokka.“
Aðspurður um hvort til greina komi að lækka veiðigjöld segir Kristján að hann sé þeirrar skoðunar að það þurfi að endurskoða núverandi fyrirkomulag til að tryggja að það endurspegli betur mismunandi verðmæti og afkomumöguleika þeirra sem innan atvinnugreinarinnar starfa. „Niðurstaða slíkrar endurskoðunar kann að leiða til breytinga á álagningu veiðigjalda ýmist til hækkunar eða lækkunar.“
Verða ellefu milljarðar
Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS, sagði í sjávarútvegsblaði 200 mílna og Morgunblaðsins, sem birtist 17. nóvember, að veiðigjöld séu orðin „talsverð byrði“ fyrir sjávarútveg. Kristján segist hafa heyrt þá umræðu og það hafi meðal annars verið ákveðið af fyrri ríkisstjórn að kanna sérstaklega afkomu einstakra útgerðarflokka, meðal annars með hliðsjón af veiðigjöldum. „Ég hef verið upplýstur um að von sé á niðurstöðu þeirrar athugunar á næstunni.“
Hagnaður sjávarútvegsfyrirtækja í fyrra sló öll fyrri met. Hann var 55 milljarðar króna og aðeins hærri en 2013, þegar hann var mjög sambærilegur. Samanlagt hafa íslensku sjávarútvegsfyrirtækin hagnast um 342 milljarða króna eftir hrun. Bein opinber gjöld sem geirinn greiddi í fyrra voru 19,1 milljarðar króna og lækkuðu um 3,5 milljarða króna á milli ára. Veiðigjöldin ein og sér voru 6,4 milljarðar króna á síðasta ári og lækkuðu um 1,1 milljarð króna frá árinu á undan. Fyrir liggur að þau eigi að hækka vegna ársins í ár í um ellefu milljarða króna.