Nokkur spenna er nú á vettvangi Sameinuðu þjóðanna vegna fyrirhugaðrar atkvæðagreiðslu á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna á morgun, en þar verður meðal annars tekist á um þá ákvörðun Bandaríkjanna að viðurkenna Jerúsalem sem höfuðborg Ísraels og að færa sendiráð Bandaríkjanna til borgarinnar.
Ákvörðuninni hefur verið harðlega mótmælt meðal aðildarríkja og sást það ekki síst á vettvangi öryggisráðsins þar sem andstaða var algjör - 14 á móti 1 - við ákvörðunina og beittu Bandaríkin neitunarvaldi sínu. Einangrunin á alþjóðapólitísku sviði var augljós, og stóðu Bretar og Frakkar meðal annars hart gegn Bandaríkjunum.
Meginástæða andstöðunnar er sú, að ákvörðun Bandaríkjanna er talin grafa undan friði fyrir botni Miðjarðarhafs, og ögra alþjóðlegu samstarfi. Macron Frakklandsforseti hefur sagt að ákvörðunin sé „fjandsamleg“ og vinni gegn gildum sem vestrænar þjóðir hafa unnið eftir.
Ísland á mikla hagsmuni
Nikki Haley, sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum, segir að Donald Trump, Bandaríkjaforseti, muni fylgjast grannt með því hvernig aðildarríki Sameinuðu þjóðanna muni greiða atkvæði á allsherjarþinginu. Í bréfi sem hún hefur sent til aðildarríkja - þar á meðal Íslands, samkvæmt umfjöllun Vísis í dag - þá er ítrekað að Trump muni fylgjast vel með og að því verði tekið persónulega ef þjóðir kjósi gegn Bandaríkjunum.
Haley hefur talað fyrir mikilvægi þessi, að aðildarríkin virði ákvörðun Bandaríkjanna. Í tísti á Twitter ítrekaði hún þetta og sagði að Bandaríkin myndu „taka niður nöfn“ þeirra sem færu gegn Bandaríkjunum með atkvæði sínu.
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, segir framferði Bandaríkjastjórnar óvenjulegt en að það hafi engin áhrif á afstöðu Íslands. Þetta kemur meðal annars fram í viðtali við hann á vef Vísis.
I have determined that it is time to officially recognize Jerusalem as the capital of Israel. I am also directing the State Department to begin preparation to move the American Embassy from Tel Aviv to Jerusalem... pic.twitter.com/YwgWmT0O8m
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) December 6, 2017
Sú breyting hefur orðið á viðskiptasambandi Íslands og Bandaríkjanna á undanförnum árum, að Ísland á nú mikið undir sambandi við Bandaríkin og er umfang viðskiptanna það mesta af öllum ríkjum. Þar vegur ferðaþjónustan þyngst, en bandarískir ferðamenn eru mikilvægasti einstaki hópur ferðamanna sem kemur til Íslands ár hvert.
Vöruútflutningur hefur hins vegar verið tiltölulega lítil, í samhengi við stærð markaðarins, en hann hefur verið að eflast mikið og má sem dæmi nefna að hann hækkaði úr 35 milljörðum í 42 milljarða milli áranna 2015 og 2016.
Heildarumfang viðskipta Íslands og Bandaríkjanna, sé litið til inn- og útflutnings, nemur um 300 milljörðum á ári, og þar af eru gjaldeyristekjur vegna bandarískra ferðamanna yfir 70 milljörðum.
At the UN we're always asked to do more & give more. So, when we make a decision, at the will of the American ppl, abt where to locate OUR embassy, we don't expect those we've helped to target us. On Thurs there'll be a vote criticizing our choice. The US will be taking names. pic.twitter.com/ZsusB8Hqt4
— Nikki Haley (@nikkihaley) December 19, 2017
Með eða á móti?
Spurningin er, hvort þetta hafi einhver áhrif á það hvernig Ísland horfir á málið er tengist ákvörðun Bandaríkjanna. Eða hvort Ísland muni standa með ríkjum sem hafa verið mótfallin afstöðu Bandaríkjanna. Hlutleysi kemur einnig til greina, formlega, en Guðlaugur Þór segir að afstaða Íslands muni ekki taka neitt mið af því að Bandaríkin séu að stilla þjóðum upp við vegg.
Greinilegt er á viðbrögðum Hvíta hússins að þau ætla sér að standa að fullum þunga með ákvörðuninni um Jerúsalem, en um leið að draga línu í sandinn um það hvernig sambandi Bandaríkjanna við aðildarríki Sameinuðu þjóðanna verður háttað framvegis. Í umfjöllun Foreign Policy er sagt, að Trump og hans trúnaðarmenn - með Nikki Haley í broddi fylkingar - séu að gefa út þau skilaboð, að það sé verið að fylgjast með þeim. Annað hvort séu þau með eða á móti Bandaríkjunum.
Í ljósi þess hversu óútreiknanlegur Donald Trump hefur verið, þegar kemur að utanríkismálum, þá er erfitt að segja til um það hver viðbrögðin verða gagnvart þeim, sem ekki standa með Bandaríkjunum.