Ríkisstjórnin ætlar að veita 665 milljónum króna til að bregðast við markaðserfiðleikum í sauðfjárrækt. Þetta kemur fram í fjáraukalögum. Þar segir að þetta sé í samræmi við áform ríkisstjórnarinnar eins og þau birtist í stjórnarsáttmálanum.
Í fjáraukalögum segir að til að koma til móts við sauðfjárbændur í þeirri stöðu sem þeir eru sé lagt til að 300 milljónum króna verði varið í greiðslur til bænda sem miðast við fjölda kinda á vetrarfóðrum. 200 milljónum króna verður varið í „svæðisbundin stuðning til viðbótar við svæðisbundinn stuðning“. Þá munu 100 milljónir króna fara í að undirbyggja verkefni á sviði kolefnisjöfnunar, nýsköpunar og markaðssetningar og 15 milljónum króna veður varið í úttekt á afurðarstöðvakerfinu sem verði grundvöllur viðræðna stjórnvalda, sláturleyfishafa og bænda um breytingar „til hagsbóta fyrir neytendur og bændur“. Ef niðurstaða úttektarinnar leiðir í ljós að hægt sé að lækka sláturkostnað og auka hagræðingu í greininni þá er opnað á þann möguleika að allt að 50 milljónum króna geti verið nýttar til að styðja við hagræðingu í sláturhúsum.
Allar ofangreindar greiðslur koma til viðbótar beingreiðslum úr ríkissjóði til sauðfjárbænda, sem samþykktar voru með undirritun og staðfestingu búvörusamninga í fyrra. Þær eiga að skila sauðfjárbændum 47 milljörðum króna á tíu ára tímabili, eða um 4,7 milljörðum króna að meðaltali á ári. Auk þess fengu sauðfjárbændur 100 milljónir króna á fjáraukalögum ársins 2016 í markaðsmál sem átti að nota til að koma í veg fyrir verðlækkun á lambakjöti hérlendis.
Átti að endurskoða búvörusamning
Þann 18. ágúst síðastliðinn var lagt fram minnisblað á ríkisstjórnarfundi um tillögur þáverandi stjórnvalda vegna erfiðleika sauðfjárbænda. Sama dag voru þær kynntar á hitafundi í atvinnuveganefnd Alþingis. Í kjölfarið ákvað ríkisstjórnin að fela fulltrúum þriggja ráðuneyta að útfæra hugmyndirnar frekar, meðal annars í samráði við forystu Bændasamtaka Íslands og Landssamtaka sauðfjárbænda. Tillögurnar voru svo birtar opinberlega 4. september, níu dögum áður en að ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar sprakk.
Engin ofangreindra skilyrða eru sett fyrir fjárframlaginu á fjáraukalögum.
Mátu tap sitt á 1,9 milljarða
Afurðarstöðvar tilkynntu sauðfjárbændum í sumar að verð fyrir lambakjöt myndi lækka um 35 prósent í ár. Sú lækkun kemur ofan á tíu prósent lækkun sem átti sér stað í fyrra. Ástæðan er offramleiðsla. Mun meira er framleitt en eftirspurn er eftir. Umfangið var talið vera um 1.200 tonn. Þetta leiddi til þess að laun sauðfjárbænda stefndu í að verða 56 prósent lægri á þessu ári en í fyrra og nánast öll sauðfjárbú yrðu rekin með tapi. Sömu sögu er að segja með afurðarstöðvar.
Þau útgjöld sem fjáraukalög gera ráð fyrir að ráðist verði í verða ekki nálægt þeim 1,9 milljarði króna sem Landssamtök sauðfjárbænda hafa sagt að þurfti til að bæta sauðfjárbændum upp tap þeirra vegna framleiðslu ársins 2017.