Einn af hápunktum stjórnmálaársins á árinu 2017 voru breytingarnar á skattkerfinu í Bandaríkjunum sem Donald Trump Bandaríkjaforseti náði í gegnum þingið í Bandaríkjunum í þessum mánuði.
Breytingarnar eru þær mestu í áratugi og þykja vera „stærsti sigur“ Trumps eins og hann komst sjálfur að orði, eftir að þær voru komnar í gegnum þingið.
Hinir ríku verða betur settir
Margar hliðar eru á þessum breytingum.
Ein þeirra er augljós. Hún er sú, að þeir sem versta standa í Bandaríkjunum, og reiða sig á ýmsa aðstoð t.d. vegna heilbrigðisvanda eða fátæktar, munu koma illa út úr þessum breytingum.
Tugir milljóna manna, ekki síst í miðríkjunum - þar sem þungamiðjan í stuðningi við Donald Trump er - munu standa eftir með minna milli handanna að meðaltali.
Þannig má segja að Trump-byltingin sé farin að éta börnin sín, en það er ómögulegt að segja hvort þessi versnandi staða hinna verst settu muni skila sér í minni stuðningi við Trump.
Það þarf ekki að vera, þó kannanir á undanförnum sex mánuðum bendi til þess að stuðningurinn við hann hafi minnkað umtalsvert.
Our big and very popular Tax Cut and Reform Bill has taken on an unexpected new source of “love” - that is big companies and corporations showering their workers with bonuses. This is a phenomenon that nobody even thought of, and now it is the rage. Merry Christmas!
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) December 22, 2017
Það sem minna hefur verið rætt um er að þessa skattkerfisbreytingar gætu komið sér vel, sé horft yfir meðaltals áhrifin, fyrir mörg af auðugustu ríki Bandaríkjanna - þar sem þungamiðjan í stuðningi Demókrata hefur verið.
Sterkustu efnahagshagkerfi Bandaríkjanna eru flest orðin Demókratavígi. Í nýlegri umfjöllun Seattle Times segir að þeir sem vilji stofna til rekstrar geti allt eins horft eftir því hvaða ríki eru Demókrataríki (Blue state).
Má þar nefna Washington ríki, stóran hluta Kaliforníu, ríkari hluta New York og flest þau svæði þar sem byggst hefur upp sterkefnuð efri millistétt á undanförnum árum og áratugum. Skattalækkunin mun skila sér í því að meira verður eftir í veskjum margra á þessum svæðum, en minna á þeim svæðum þar sem tekjur eru lægri.
Tekjustofnar eru afar mismunandi í Bandaríkjunum eftir ríkjum og sveitarfélögum. Washington ríki er t.d. eitt þeirra sem ekki með neitt hefðbundið útsvar, eins og við Íslendingar þekkjum, heldur einungis ríkisskattinn (Federal Tax).
Í skrifum miðla hér vestra hefur verið á það bent, að sveitarfélögin og ríkin sem eru með þetta fyrirkomulag, gætu upplifað aukin umsvif sem síðan kynda undir tekjustofnum þeirra, eins og virðisaukaskatti á þjónustu (algengt 9 prósent) og fasteignasköttum. Sama má segja um mikla lækkun á fyrirtækjasköttum (úr 35 í 21 prósent). Sú lækkun gæti skilað sér ríkulega inn í efnahag þeirra svæða þar sem innviðir eru sterkir og auðsöfnun mikil, og einungis ríkisskattar.
Þau svæði sem hafa gengið í gegnum mikið velmegunartímabil á undanförnum árum, gætu notið verulega góðs af þessum breytingum (að meðaltali). Velferðarþjónustan, eins og skólaþjónusta, fjárfestingar í innviðum og fleiru, sem er á sveitarstjórnarstiginu, gæti eflst við þetta, vegna sterkari tekjustofna.
Sveitarfélögin gætu einnig tekið pólitískar ákvarðanir um að nýta sterkari efnahag til að koma til móts við þá sem minna hafa milli handanna eða standa höllum fæti.
Í samfélögum þeirra þar sem auðurinn er mestur gæti því verið mikil gósentíð framundan og enn meiri efnahagsleg uppsveifla. Ríkasta 1 prósentið mun líklega eignast meira en helminginn af auðnum í landinu þegar áhrifin af breytingunum hafa náð fram að ganga, en það á nú um 40 prósent, samkvæmt skrifum The Atlantic.
Erfitt er að spá fyrir um áhrifin á ýmsar hliðar þeirra fjölmörgu ólíku hagkerfa sem eru í Bandaríkjunum. Sérstaklega hefur verið rætt um að mikil áhrif kunni að koma fram á fasteignamarkaði.
Í nýju lögunum er gert ráð fyrir að viðmiðum vegna niðurgreiðslu vaxta húsnæðislána verði breytt, sem þýðir að margar fjölskyldur munu finna fyrir lakari vaxtakjörum, en aðrar - einkum þær efnameiri - finna fyrir betri stöðu. Sum staðar gæti fasteignaverðið lækkað, en á öðrum svæðum gæti það hækkað, vegna þessara breytinga.
Hörð pólitík
Hin harða pólitík í þessum breytingum á skattkerfinu er tiltölulega augljós. Hinir ríkari munu hafa það betra en áður, en hinir fátækari - einkum þeir sem minna mega sín og standa höllum fæti - mun búa við þrengri kost.
Pólitískt er erfitt að segja til um hver áhrifin verða til lengdar litið. Mörg af sterkustu Demókratasvæðunum í Bandaríkjunum, gætu fundið fyrir miklum efnahagslegum ávinningi og því gæti Trump nýtt sér þessar breytingar til að ná í nýja stuðningsmenn á þeim svæðum.
Það hefur sýnt sig í gegnum tíðina að meirihluti fólks á mörgum af verst settu svæðunum í Bandaríkjunum, ekki síst í miðríkjunum, stendur þétt að baki Repúblikönum, alveg sama hvað á því dynur. Því er til mikils að vinna að reyna að breyta landslaginu á þeim svæðum þar sem Demókratar hafa verið að styrkja stöðu sína.
Vaxandi ójöfnuður er ekki vandamál að mati Trumps og Repúblikana. Svo mikið er víst. Þrátt fyrir mikil mótmæli Demókrata, og reyndar málamiðlanir á ýmsum sviðum, þá komust skattkerfisbreytingarnar í gegnum bandaríska þingið.
Afleiðingarnar verða óumdeilanlega mun hraðari vöxtur ójafnaðar. Erfitt að segja til um pólitískar afleiðingar, ekki síst í ljósi ólíkra áhrifa í ríkjum Bandaríkjanna. En alveg sama hver raunveruleikinn verður að lokum, þá mun Trump vafalítið túlka málin sér í hag eins og hann hefur gert til þessa.