Þrír þeirra einstaklinga sem sækjast eftir því að leiða lista Sjálfstæðisflokks í Reykjavík eru andsnúnir því að Borgarlína verði að veruleika. Einn segist hafa verulegar efasemdir um verkefnið enn einn telur verkefnið sjálfsagt og að gott hraðvagnakerfi geti stórbætt almenningssamgöngur. Þetta kemur fram í svörum þeirra við fyrirspurnum Kjarnans um málið eða í yfirlýsingum sem viðkomandi hafa sent frá sér vegna framboðs síns.
Borgarlínan er heiti á samstarfsverkefni sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu um afkastamikið almenningssamgöngukerfi. Búið er að kortleggja helstu samgönguása á höfuðborgarsvæðinu þar sem þetta nýja samgöngukerfi mun liggja. Borgarlínan mun teygja sig í gegnum öll sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu og vera allt að 57 kílómetrar að lengd. Ekki verða allir kílómetrarnir lagðir í einu heldur verður verkefnið áfangaskipt.
Hraðvagnar, ekki lest
Ekki er gert ráð fyrir að lestarteinar verði lagðir á höfuðborgarsvæðinu fyrir Borgarlínuna fyrst um sinn. Þéttleiki byggðarinnar og fjöldi farþega uppfyllir einfaldlega ekki þau þarfaviðmið sem þurfa að vera til staðar fyrir járnbrautalestir. Þess vegna verða vagnarnir sem þjóna á Borgarlínunni hraðvagnar á hjólum.
Áætlaður kostnaður við Borgarlínuna er á bilinu 63 til 70 milljarðar króna. Sá kostnaður mun dreifast yfir nokkur ár.
Á aðalfundi Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) 3. nóvember síðastliðinn kom fram að ef ráðist verði í framkvæmdir við helming Borgarlínunnar í fyrsta áfanga yrði það fjárfesting upp á 30 til 35 milljarða króna.
Samstaða í ríkisstjórn
Kjarninn greindi frá því í lok nóvember að í frumvarpi að fimm ára fjármálaáætlun Reykjavíkurborgar sem lagt var fyrir borgarstjórn í fyrra sé gert ráð fyrir að 4,7 milljörðum króna verði veitt til uppbyggingar Borgarlínu. Hins vegar er aðeins gert ráð fyrir að 100 milljónir króna renni í verkefni tengd Borgarlínunni á þessu ári. Þess vegna má gera ráð fyrir að þungi framkvæmda við fyrsta áfanga Borgarlínunnar verði í lok fimm ára áætlunarinnar, verði áformin að veruleika.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði í sjónvarpsþætti Kjarnans í desember 2017 að þess myndi sjást stað í fjármálaáætlun nýrrar ríkisstjórnar, sem lögð verður fram í vor, að ríkið ætlar sér að leggja fé til þess að Borgarlínan verði að veruleika. Um það sé samstaða í ríkisstjórn, þar sem Vinstri græn, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur sitja.
Minnst er á borgarlínu stuttlega í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar. Þar segir: „Áfram þarf að byggja upp almenningssamgöngur um land allt og stutt verður við borgarlínu í samstarfi við Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.“
Fjórir á móti, einn fylgjandi
Fimm hafa tilkynnt framboð í leiðtogakjöri Sjálfstæðisflokksins fyrir komandi borgarstjórnarkosningar. Það fer fram 27. janúar næstkomandi. Vilhjálmur Bjarnason, fyrrverandi alþingismaður, er einn þeirra. Hann segir í samtali við Kjarnann að hann hafi verulegar efasemdir um Borgarlínuáformin.
Kjartan Magnússon borgarfulltrúi sækist einnig eftir leiðtogasætinu. Hann segist vera hlynntur því að styrkja almenningssamgöngur en andsnúinn hugmyndum um Borgarlínu eins og þær hafi verið kynntar. Kjartan vill frekar styrkja núverandi kerfi. „Ég vil að sjálfsögðu skoða allar hugmyndir sem miða að því að efla almenningssamgöngur í Reykjavík, en mér finnst í þessu máli að borgarstjórinn sé með villuljós því að ástandið er ekki gott í umferðarmálum í Reykjavík né í almenningssamgöngum. Og þessi vinstri meirihluti sem hefur ráðið hérna síðustu átta árin hefur ekki styrkt almenningssamgöngur. Strætóferðum hefur til dæmis fækkað í austurhluta borgarinnar.“
Eyþór Arnalds segir í yfirlýsingu sem hann birti á Facebook-síðu sinni 9. janúar, þegar hann tilkynnti um framboð í leiðtogakjöri Sjálfstæðisflokksins, að Reykjavík væri í miklum vanda í samgöngumálum. „Dýrar lausnir eins og Borgarlína munu auka á vandann með enn meiri þrengslum í gatnakerfinu. Reykjavík á að vera í fararbroddi í nútímalegum samgöngum en festast ekki í dýrum og þunglamalegum lausnum. Þrengingarnar hafa nú þegar búið til kransæðastíflu í gatnakerfi borgarinnar.“
Það er erfitt fyrir ungt fólk að eignast fyrstu íbúð í Reykjavík. Framboð á húsnæði er takmarkað og þess vegna er verðið...
Posted by Eyþór Laxdal Arnalds on Tuesday, January 9, 2018
Því eru fjórir af þeim fimm sem sækjast eftir að leiða lista Sjálfstæðisflokks í komandi borgarstjórnarkosningum andsnúnir eða hafa verulegar efasemdir um Borgarlínuverkefnið.
Áslaug Friðriksdóttir borgarfulltrúi sker sig úr hópnum sem sækist eftir leiðtogasætinu. Hún segir í tilkynningu, þar sem farið er yfir helstu áherslumál hennar, að Borgarlínuverkefnið sé sjálfsagt. „Auðvitað er rétt að horfa til framtíðar og taka ákvarðanir sem leiða til betra samgöngukerfis fyrir allt höfuðborgarsvæðið. Gott hraðvagnakerfi getur stórbætt almenningssamgöngur. Lestarkerfi á ekki að skoða frekar.“