Björgólfur Thor Björgólfsson fjárfestir tekur stökk á lista Forbes yfir milljarðamæringa heimsins á milli ára. Í fyrra var Björgólfur Thor í 1.415 sæti en er nú í 1.116 sæti á listanum með eignir upp á 1,8 milljarð dala. Það þýðir að auður Björgólfs Thors er metinn á 186,3 milljarða króna.
Björgólfur Thor er eini Íslendingurinn á listanum, og reyndar eini Íslendingurinn sem hefur nokkru sinni komist á hann.
Ríkasti maður heims samkvæmt Forbes er Bill Gates, stofnandi Microsoft. Þetta er í 17 sinn á síðustu 21 árum sem hann vermir toppsætið. Heildareignir hans eru metnar á 86 milljarða dala, eða um 8.900 milljarða króna. Warren Buffett, véfréttin frá Omaha, situr í öðru sæti og Jeff Bezoz, stofnandi Amazon, er í því þriðja.
Fjöldi milljarðamæringa náði nýjum hæðum í ár og í fyrsta sinn frá því að Forbes hóf að taka listann um þá sem eiga meira en einn milljarð dali saman er fjöldinn yfir 2000. Í fyrra fjölgaði milljarðamæringunum um 13 prósent, úr 1.810 í 2.043.
Var einu sinni í 249. sæti
Í águst 2014 var tilkynnt að skuldauppgjöri Björgólfs Thors Björgólfssonar væri lokið og að hann hefði greitt kröfuhöfum sínum, að mestu stórum alþjóðlegum bönkum, samtals um 1.200 milljarða króna. Þessi uppgjör tryggði honum mikinn auð þar sem hann fékk að halda góðum eignarhluta í Actavis að því loknu. Sá eignarhluti hefur gert Björgólf Thor ævintýralega ríkan á ný.
Árið 2007 var Björgólfur Thor Björgólfsson í 249. sæti yfir ríkustu menn veraldar á lista tímaritsins Forbes. Ári síðar, eftir hrun fjármálakerfisins, stóð hann frammi fyrir tveimur kostum. Annað hvort að verða persónulega gjaldþrota og láta það verkefni í hendur kröfuhafa sinna að vinna sem mest verðmæti úr eignum hans. Eða að vinna með þeim, leggja allar eignir sínar á borðið, bæði persónulegar eignir og eignir félaga í hans eigu, og reyna að ná samkomulagi sem kæmi í veg fyrir hans persónulega gjaldþrot. Eftir hrunið lá fyrir að Björgólfur Thor var í persónulegum ábyrgðum vegna skulda sem námu minnst 40 milljörðum króna.
Skömmu eftir hrun hófust viðræður milli Björgólfs Thors og trúnaðarmanna hans, og síðar fulltrúa lánardrottna sem áttu kröfu á Björgólf Thor og félög hans.
Á endanum var lagt upp með að reyna að sameina Actavis öðru stóru samheitalyfjafyrirtæki og svo gengið frá undirrituðu samkomulagi milli Björgólfs Thors og Novators og allra lánardrottna og þeirra sem áttu kröfu á hann.
Tilkynnt um skuldauppgjör
Um þetta tilkynnti Björgólfur Thor með fréttatilkynningu 21. júlí 2010. Í henni sagði meðal annars: „Samkvæmt samkomulaginu [við kröfuhafa] munu skuldir verða gerðar upp að fullu og ekki gefnar eftir. Allar eignir Björgólfs Thors og Novators liggja til grundvallar uppgjörinu, en á þeim var gerð ítarleg úttekt og mat af hálfu alþjóðlegs ráðgjafarfyrirtækis. Björgólfur Thor verður áfram hluthafi í félögum á borð við Actavis, Play, CCP og Verne Holding. Arðurinn af þessum eignarhlutum og verðmæti, komi til sölu þeirra, mun ganga til uppgjörs skuldanna, ásamt ýmsum persónulegum eigum hans. Þar á meðal eru húseign í Reykjavík og sumarhús við Þingvelli. Samhliða þessu skuldauppgjöri hefur náðst samkomulag um fjárhagslega endurskipulagningu lyfjafyrirtækisins Actavis. Við gerð samkomulagsins nutu Björgólfur Thor og Novator liðsinnis tveggja alþjóðlegra fyrirtækja, hinnar virtu lögmannsstofu Linklaters og ráðgjafarfyrirtækisins AlixPartners, sem er eitt þekktasta fyrirtæki heims á sviði fjárhagslegrar endurskipulagningar“.
Eftir að samkomulagi hafði verið náð þar sem allir sem áttu hagsmuna að gæta komu að borðinu var vinnu haldið áfram. Í samkomulaginu fólst meðal annars að Deutsche Bank, stærsti kröfuhafi Björgólfs Thors, réði ferðinni þegar kom að Actavis en skuldbatt sig til að vinna úr stöðu mála með Björgólfi Thor og Novator. Með samkomulaginu varð formlega ljóst að Björgólfur Thor yrði ekki gerður persónulega gjaldþrota.
Björgólfur verður ríkur…aftur
Í apríl 2012 dró til tíðinda. Þá var tilkynnt um yfirtöku lyfjafyrirtækisins Watson á Actavis. Samtals voru greiddar um 700 milljarðar króna fyrir félagið en til viðbótar áttu að koma greiðslur sem tóku mið af því hvernig rekstur Actavis var árið 2012 samkvæmt uppgjöri. Hagur Björgólfs Thors og Novator vænkaðist við þetta en í þeirra hlut komu fimm milljónir hluta í hinu nýja félagi á grundvelli samnings við Deutsche Bank sem gerður var samhliða kaupum Watson. Eftir að tilkynnt var um kaup Watson á Actavis, og þar með sameiningu þessara félaga, hefur markaðsvirði þess hækkað hratt. Það er skráð á markað undir nafni Actavis og hækkaði gengi bréfa á hlut úr tæplega 60 dölum frá því tilkynnt var um kaupin í 127,2 dali þann 22. maí 2013, ríflega ári síðar. Þetta þýddi að hlutur Björgólfs í Actavis í gegnum Novator var á milli 70 og 80 milljarða króna virði á þeim tíma.
Um miðjan maí 2013 var síðan tilkynnt um enn meiri stækkun á efnahagsreikningi Actavis þegar greint var frá kaupum félagsins á írska lyfjaframleiðslufyrirtækinu Warner Chilcott. Samkvæmt fyrstu fréttum AFP-fréttaveitunnar var kaupverðið áætlað um 8,5 milljarða dala, sem jafngilti um 1.100 milljörðum króna, miðað við gengi krónu gagnvart Bandaríkjadal daginn sem tilkynnt var um viðskiptin.
Allt var undir, líka einkaþotan og snekkjan
Allt eignasafn Björgólfs Thors og félaga sem hann tengdist var sett að veði fyrir því að honum tækist að greiða skuldir sínar til baka. Steingrá einkaþota hans af Challenger-gerð, sem merkt var Novator, var þar á meðal. Hún var oft í kastljósi fjölmiðla þegar allt var í blóma í íslensku viðskiptalífi. Fyrrverandi leiðtogi Sovétríkjanna, Mikhail Gorbatsjov, fékk meðal annars far með henni þegar hann kom hingað til lands 11. október 2006 til að halda fyrirlestur í Háskólabíói. Hún var að lokum seld. Það sama átti við um snekkjuna Element sem var bátur af dýrari gerðinni, svo ekki sé fastar að orði kveðið.
Upphaflega var gert ráð fyrir því að niðurstaðan úr uppgjöri Björgólfs Thors og Novator við kröfuhafa myndi ekki liggja fyrir fyrr en fjarskiptafyrirtækið Play í Póllandi yrði selt. Það er á meðal stærstu farsímafyrirtækja Póllands en viðskiptavinir þess voru á vormánuðum 2013 ríflega 9,1 milljón talsins.
Tilkynnt var um það sumarið 2017 að Novator, fjárfestingafélag Björgólfs Thors, ætlaði að selja tæplega helmingshlut í Play, sem þá var metið á 261 milljarð króna.
Björgólfur Thor gaf árið 2015 út bók um fall sitt og endurkomu. Kjarninn birti umfjöllun um bókina skömmu eftir að hún kom út.