Ráðgjafar frá Kviku banka, sem ráðnir voru af Kaupþingi ehf. til aðstoða við söluna á Arion banka í desember síðastliðnum, héldu kynningar fyrir nokkra íslenska lífeyrissjóði í lok síðustu viku með það fyrir augum að fá þá til að kaupa um fimm prósent hlut í bankanum hið minnsta áður en að hlutafjárútboð verður haldið. Á kynningunum voru sjóðirnir hvattir til að kaupa hlut í bankanum áður en að ársuppgjör hans verður gert opinbert.
Það uppgjör mun birtast í síðasta lagi um miðjan febrúar, eða eftir um mánuð. Samkvæmt upplýsingum Kjarnans verður í kjölfarið farið á fullt í að skrá Arion banka á markað og selja eftirstandandi hluti í honum í hlutafjárútboði. Reynt verði að klára skráninguna í mars en að hún verði að fara fram í síðasta lagi í maí. Kaupþing hefur út árið 2018 til að selja hlut sinn í Arion banka og forsvarsmenn félagsins vilja ekki draga skráningu of nálægt þeim tímamörkum.
Viðmælendur Kjarnans innan lífeyrissjóðakerfisins segja að málið sé á algjöru frumstigi. Kynningarnar hafi verið haldnar að frumkvæði ráðgjafa Kaupþings og það geti vel verið að málið verði einfaldlega blásið út af borðinu fljótt. Allt muni þetta þó velta á því hvaða verð verði í boði.
Viðmælendur Kjarnans búast ekki við því að eiginlegar viðræður muni fara fram, gefi þeir kaupunum undir fótinn. Þess í stað muni Kaupþing einfaldlega gera sjóðunum tilboð sem þeir muni annað hvort taka eða hafna.
Geta fengið háar bónusgreiðslur takist að selja allar eignir
Stefnt hefur verið að sölu á Arion banka í töluvert langan tíma. Kaupþing ehf., eignarhaldsfélag utan um eftirstandandi eignir þrotabús hins fallna banka, hélt á 87 prósent hlut í Arion banka eftir að gengið hafði verið frá uppgjöri milli þeirra og ríkisins í byrjun árs 2016. Og ríkið hélt áfram á 13 prósent hlut.
Í ágúst 2016 var greint frá því að um 20 starfsmenn Kaupþings gætu fengið allt að 1,5 milljarða króna í bónusgreiðslur ef markmið um hámörkun á virði óseldra eigna myndi nást. Þessar bónusgreiðslur ættu að greiðast út eigi síðar en í lok apríl 2018. Langstærsta óselda eignin á þeim tíma var 87 prósent hlutur Kaupþings í Arion banka. Og sú eign er enn að hluta óseld.
Samkvæmt upplýsingum frá Kaupþingi þá verða bónusgreiðslurnar að óbreyttu greiddar út fyrir lok apríl. Þau viðskipti sem áttu sér stað með hluti í Arion banka í fyrra hafa áhrif á umfang þeirra en fyrirhugað hlutafjárútboð á eftirstandandi 57,4 prósent hlut Kaupþings mun ekki gera það.
Hafa áður reynt að selja lífeyrissjóðum
Þetta er ekki í fyrsta sinn reynt hefur verið að selja íslenskum lífeyrissjóðum hlut í bankanum. Strax í nóvember 2015 var greint frá því að stærstu lífeyrissjóðir landsins hefðu hug á því að kaupa Arion banka af kröfuhöfum Kaupþings og að þeir hefði ráðið menn til að halda sérstaklega utan um það ferli. Það gerðist í kjölfar þess að fjármálafyrirtækin Virðing og Arctica Finance reyndu að setja saman hóp til að kaupa bankann, m.a. með aðkomu lífeyrissjóðanna. Þeir ákváðu frekar að sleppa milliliðnum og ráðast sjálfir beint í það verkefni að reyna að eignast bankann.
Þráðurinn var þó tekinn aftur upp snemma árs 2017 þegar stærstu eigendur Kaupþings reyndu að fá stærstu lífeyrissjóðina til að kaupa 25-30 prósent hlut í Arion banka. Þeim viðræðum var á endanum slitið í mars 2017 með hvelli.
Vogunarsjóðir og Goldman Sachs kaupa af sjálfum sér
Þá var tilkynnt að fjórir aðilar, vogunarsjóðirnir Taconic Capital, Och-Ziff CapitalManagement, Attestor Capital og fjárfestingabankinn Goldman Sachs hefðu keypt samtals 29,18 prósent hlut í Arion banka af Kaupþingi á 48,8 milljarða króna. Verðið sem greitt var fyrir er um 0,8 krónur á hverja krónu af bókfærðu eigin fé Arion banka, eða rétt yfir því verði sem hefði virkjað forkaupsrétt ríkisins.
Umræddir aðilar áttu fyrir viðskiptin 66,31 prósent hlut í Kaupþingi. Í viðskiptunum fólst því að eigendur ⅔ hluta Kaupþings voru að kaupa stóran hluta í Arion banka á eins lágu verði og mögulegt var fyrir þá án þess að virkja ákvæði sem gerði íslenska ríkinu kleift að ganga inn í kaupin. Að stærstu leyti af sjálfum sér.
Til viðbótar átti þessi hópur kauprétt á 21,9 prósent hlut í Arion banka. Hefðu þeir nýtt hann yrðu vogunarsjóðirnir þrír og Goldman Sachs beinir eigendur að meirihluta í Arion banka.
Síðar kom í ljós að skrifað hefði verið undir drög að kaupsamningnum 12. febrúar 2017. Það var gert svo að hægt yrði að miða kaupin við níu mánaða uppgjör Arion banka, þar sem eigið fé bankans var lægra en í ársuppgjörinu, og upphæðin sem þyrfti að greiða fyrir hlutinn gæti því verið lægri. Til þess að slíkt væri mögulegt þurfti að skrifa undir fyrir 13. febrúar. Þrátt fyrir undirskriftina 12. febrúar hafi viðræðum við íslenska lífeyrissjóði um aðkomu að kaupunum verið haldið áfram allt fram til 19. mars, þegar skyndilega var tilkynnt um kaup vogunarsjóðanna og Goldman Sachs á sunnudagseftirmiðdegi. Í kjölfarið var viðræðum við þá slitið.
Forsvarsmenn lífeyrissjóðanna voru fjarri því að vera ánægðir með þessa stöðu. Og kröfðust meðal annars bóta frá Kaupþingi. Samkomulag náðist á endanum vegna útlagðs kostnaðar sjóðanna, sem var um 60 milljónir króna.
Hætt við skráningu vegna pólitískrar óvissu
Í ágúst 2017 var tilkynnt að vogunarsjóðirnir og Goldman Sachs ætluðu sér ekki að nýta sér kauprétt á 21,9 prósent hlut sem þeir höfðu samið um, og þurftu að nýta fyrir 19. september það sama ár.
Enn var þó stefnt að því að skrá Arion banka á markað, á Íslandi og mögulega í öðru landi líka, á seinni hluta ársins 2017. Frá því var fallið í september í kjölfar þess að ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar sprakk og boðað var til kosninga. Ástæðan var pólitísk óvissa.
Þess í stað er stefnt að skráningu á fyrsta ársfjórðungi ársins 2018.