Íbúðalánasjóður telur einsýnt að afnám stimpilgjalds, sem lagt er á þegar keypt er húsnæði, muni leiða til þess að húsnæðisverð muni hækka. Því sé ekki víst að markmið frumvarps um afnám stimpilgjalda, sem er að auðvelda fólki að eins og frekast er unnt að eignast íbúðarhúsnæði, einkum við aðstæður á borð við þær sem nú ríkja á húsnæðismarkaði“ muni nást með aðgerðinni. Til þess að ná því markmiði væri markvissara að útvíkka þann afslátt sem nú gildir um stimpilgjald vegna fyrstu kaupa, ýmist með því að auka hann enn frekar eða með því að veita vissum félagshópum, sem nú eiga sérstaklega erfitt með að komast inn á fasteignamarkað, sérstakan afslátt.
Þetta kemur fram í umsögn sjóðsins um frumvarp um afnám stimpilgjalda sem átta þingmenn Sjálfstæðisflokks lögðu fram í desember. Umsögninni var skilað á þriðjudag. Íbúðálanasjóður fagnar hins vegar umræðu um stimpilgjöld vegna íbúðarkaupa.
Samtök atvinnulífsins skiluðu einnig inn ítarlegri umsögn um frumvarpið og leggja til að frumvarpið verði samþykkt á þeim forsendum að í því felist aðgerð sem minnkar skattheimtu. Þau benda þó á að það kunni að vera að frumvarpið muni ekki ná markmiði sínu að auðvelda fólki að afla sér íbúðarhúsnæðis. „Aðgerðir eins og þessar eru til þess fallnar að ýta undir eftirspurn eftir íbúðarhúsnæði sem leiðir til verðhækkunar.“
Tvær aðrar umsagnir bárust Alþingi vegna frumvarpsins, en frestur til að skila inn slíkum rann út á mánudag. Þær voru frá Neytendasamtökunum og Hagsmunasamtökum heimilanna, sem leggja til að frumvarpið verði samþykkt.
Flutningsmenn telja að stimpilgjaldið hækki húsnæðisverð
Fyrsti flutningsmaður frumvarpsins er Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Auk hennar eru sjö flokksfélagar hennar flutningsmenn þess. Í því er lagt til að stimpilgjald vegna kaupa einstaklinga á íbúðarhúsnæði verði afnumið, en það er í dag 0,8 prósent af heildarfasteignarmati. Sú undantekning er til staðar að veittur er helmingsafsláttur þegar um fyrstu kaup er að ræða.
Þar segir enn fremur: „Sýnt þykir að stimpilgjald hafi áhrif til hækkunar fasteignaverðs, dragi úr framboði og rýri hlut kaupenda og seljenda. Af framangreindu má ætla að afnám stimpilgjalds af fasteignaviðskiptum muni auðvelda verðmyndun á húsnæðismarkaði með tilheyrandi aukningu á framboði sem hefur verið með minnsta móti undanfarin ár.“
Húsnæðisverð hækkað um rúmlega 90 prósent á sjö árum
Húsnæðisverð hefur hækkað mikið á Íslandi á undanförnum árum. Frá því í september 2010 og fram í nóvember 2017 hækkaði vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu til að mynda um tæp 93 prósent. Á árinu 2017 einu saman hækkaði verðið um 13,4 prósent og frá byrjun árs 2016 hefur það hækkað um 30,5 prósent.
Undanfarna mánuði hefur þó dregið umtalsvert úr hækkunum og jafnvægi ríkt. Á milli október og nóvember lækkaði það þeirra að segja lítillega. Það var í fyrsta sinn síðan í apríl 2015 sem að vísitalan lækkaði á milli mánaða.
Helsta ástæða þess að íbúðaverð hefur hækkað mikið á skömmum tíma, og erfiðara hefur verið fyrir ungt eða tekjulágt fólk að kaupa eða leigja, er að eftirspurn er langsamlega meiri en framboð. Samkvæmt greiningu Íbúðalánasjóðs, sem gerð var fyrir aðgerðarhóp félags- og jafnréttismálaráðherra og birt var í apríl, vantaði nú þegar 4.600 íbúðir og byggja þyrfti níu þúsund íbúðir til loka árs 2018 til að ná jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar.
Afleiðingin er meðal annars sú að fjórir af hverjum tíu íbúum höfuðborgarsvæðisins á þrítugsaldri búa enn, eða á ný, í foreldrahúsum.