Fyrstu niðurstöður nýs líkans Íbúðalánasjóðs, sem á að aðstoða stjórnvöld við mat á undirliggjandi þörf fyrir nýjar íbúðir, benda til þess að skortur á nýjum íbúðum hafi aukist frá því í byrjun síðasta árs, meðal annars vegna mikillar mannfjölgunar. Alls þurfi að byggja um 2.200 íbúðir á ári til að mæta þörf. Þetta kemur fram í umsögn sjóðsins um þingsályktunartillögu þingmanna Samfylkingarinnar um að ríkisstjórnin komi að byggingu fimm þúsund leiguíbúða svo fljótt sem auðið er.
Íbúðirnar eiga að nýtast til þess að koma fótunum undir leigumarkað sem er rekinn án hagnaðarsjónarmiða. Í greinargerð sem fylgir tillögunni er vitnað í áætlun Íbúðalánasjóðs um að til ársloka ársins 2019 verði þörf fyrir níu þúsund nýjar íbúðir á landinu öllu og rúmlega tvö þúsund á hverju ári þar á eftir.
Byggjum 1.800 íbúðir á ári en þurfum 2.200
Í umsögn Íbúðalánasjóðs, sem var skilað inn 17. janúar, segir að Íbúðalánasjóður vinni nú að gerð ofangreinds líkans og að endanlegar niðurstöður um þörf á nýjum íbúðum næstu tvö árin liggi ekki fyrir. Fyrstu niðurstöður bendi hins vegar til þess að skorturinn sé meiri en fyrri áætlanir sjóðsins hafi haldið fram. Ástæðan sé meðal annars mikil mannfjölgun.
Ekki sé útlit fyrir að sú uppbygging sem spáð hafi verið á næstu tveimur árum muni duga til að mæta uppsafnaðri þörf miðað við mannfjöldaspá Hagstofunnar.
Útlendingum fjölgar hratt
Hagstofa Íslands birti nýja mannfjöldaspá í lok október 2017. Samkvæmt henni var meðal annars gert ráð fyrir því að aðfluttir íbúar verði 23.385 fleiri en brottfluttir á tímabilinu 2017-2021. Aðfluttir eru fyrst og fremst erlendir ríkisborgarar. Í byrjun árs 2017 voru erlendir ríkisborgarar 30.380 hérlendis. Þeim mun því fjölga um 77 prósent á örfáum árum ef gengið er út frá því að allir aðfluttir umfram brottflutta séu erlendir ríkisborgarar.
Gert er ráð fyrir að aðfluttir umfram brottflutta verði 5.119 á þessu ári í mannfjöldaspánni. Verulegar líkur eru á að sú tala sé vanáætluð í ljósi þess að rauntölur sýna að erlendum ríkisborgurum fjölgaði um 6.310 á fyrstu níu mánuðum síðasta árs. Það þýðir að þeim útlendingum sem hingað flytja umfram þá sem flytjast í burtu fjölgaði mun meira á fyrstu níu mánuðum síðasta árs en á öllu árinu 2016, þegar erlendum ríkisborgurum hérlendis fjölgaði um 4.090.
Sérfræðingar borgarinnar ekki sannfærðir
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík, segir að þessi mikla fjölgun erlendra ríkisborgara á fyrstu þremur ársfjórðungum síðasta árs veki athygli. Tölur Hagstofunnar sýna að fjórir af hverjum tíu erlendum ríkisborgurum sem settust að á Íslandi á tímabilinu hafi gert það í Reykjavík. Alls hefur erlendum ríkisborgurum sem búa í höfuðborginni fjölgað um 5.580 á tæpum fimm árum. Á fyrstu níu mánuðum ársins 2017 fjölgaði þeim um 2.460.
Dagur segir að sú forsenda Hagstofunnar við endurskoðun á mannfjöldaspá, að þessi mikla hækkun muni halda áfram næstu fimm árin, sé hins vegar umdeilanleg. „Sérfræðingar borgarinnar eru ekki sannfærðir um að það gangi eftir. Aðflutningur fólks hefur oftast tengst hagsveiflunni náið og ef spár um heldur minni hagvöxt gengur eftir þá má búast við að einnig muni hægja á aðflutningnum. Við sláum hins vegar engu föstu í þessu efni og munum fylgjast vel með þróuninni.“