Fjórir af hverjum tíu nýjum útlendingum setjast að í Reykjavík

Gríðarleg fjölgun hefur orðið á fjölda þeirra erlendra ríkisborgara sem flust hafa til Íslands það sem af er árinu 2017. Langflestir þeirra hafa sest að í Reykjavík og á Suðurnesjunum. Erlendir ríkisborgarar eru hins vegar sárafáir í Garðabæ.

Hlutfall erlendra ríkisborgara er líka mismunandi eftir hverfum. Þannig eru um 30 prósent íbúa Efra-Breiðholts innflytjendur og rúmlega 22 prósent íbúa í Bakkahverfinu.
Hlutfall erlendra ríkisborgara er líka mismunandi eftir hverfum. Þannig eru um 30 prósent íbúa Efra-Breiðholts innflytjendur og rúmlega 22 prósent íbúa í Bakkahverfinu.
Auglýsing

Fjórir af hverjum tíu erlendum ríkisborgurum sem sest hafa að á Íslandi það sem af er árinu 2017 hafa gert það í Reykjavík. Alls hefur erlendum ríkisborgurum sem búa í höfuðborginni fjölgað um 5.580 á tæpum fimm árum. Á þessu ári einu saman fjölgaði þeim um 2.460. Því hefur tæplega helmingur þeirrar fjölgunar sem orðið hefur á erlendum íbúum Reykjavíkur átt sér stað í ár.

Önnur svæði eru einnig vinsæl á meðal nýrra íbúa landsins sem fæðst hafa í öðrum löndum. Þannig stefnir í að hlutfall erlendra íbúa í Reykjanesbæ verði um eða yfir 30 prósent á allra næstu árum.

Svo eru það sveitarfélögin þar sem útlendingarnir eru sjaldséðir. Af stórum þéttbýliskjörnum landsins sker Garðabær sig úr. Þar eru einungis fjórir af hverjum hundrað íbúum erlendir ríkisborgarar.

Þessi fréttaskýring birtist fyrst í nóvemberútgáfu Mannlífs.

Fjölgað um 60 prósent á fimm árum

Erlendum ríkisborgurum hefur fjölgað gífurlega á Íslandi á undanförnum árum. Sú aukning hefur verið sérstaklega mikil í ár. Á fyrstu níu mánuðum ársins jókst fjöldi þeirra um 6.310. Það er aukning á fjölda erlendra ríkisborgara á Íslandi um 21 prósent frá því sem var um síðustu áramót. Frá 2010 til septemberloka 2017 hafði erlendum ríkisborgurum fjölgað um 9.318 í 36.585, eða um 74 prósent.

Þessi hópur nýrra íbúa landsins dreifist ekki jafnt milli sveitarfélaga á landinu. Langflestir setjast að í höfuðborginni Reykjavík. Í lok árs 2012 bjuggu 9.380 erlendir ríkisborgarar í Reykjavík. Í lok september síðastliðins voru þeir orðnir 14.960 talsins. Þeim hefur því fjölgað um 60 prósent á innan við fimm árum. Langmest hefur aukningin verið þeim tíma sem liðin er af árinu 2017, en erlendum ríkisborgurum sem búa í Reykjavík hefur fjölgað um 2.460 á þeim tíma. Það þýðir að fjórir af hverjum tíu útlendingum sem flytja til landsins það sem af er ári búa í höfuðborginni.

Auglýsing
Raunar er líka umtalsverður munur milli höfuðborgarsvæðisins annars vegar og landsbyggðarinnar hins vegar þegar kemur að fjölgun útlendinga. Fjöldi erlendra ríkisborgara sem búa á landsbyggðinni er nú 14.410 og hefur tvöfaldast frá því í byrjun árs 2011. Á höfuðborgarsvæðinu eru útlendingarnir nú 22.290 talsins og hefur fjölgað um 60 prósent á tæplega sjö árum.

Verða yfir 30 prósent af íbúum Suðurnesja

Utan Reykjavíkur virðist fjölgun erlendra ríkisborgara vera langmest á Suðurnesjunum. Í Reykjanesbæ, stærsta sveitarfélagi þess svæðis, hefur fjöldi útlendinga á meðal íbúa þrefaldast frá því í byrjun árs 2011 og var 3.510 í lok september. Þegar öll sveitarfélögin á Suðurnesjunum eru skoðuð saman – en þau eru Reykjanesbær, Grindavík, Sandgerði, Garður og Vogar – þá kemur í ljós að erlendum ríkisborgurum á svæðinu hefur fjölgað úr 1.920 í 4.780 frá lokum árs 2010. Þá voru útlendingar um níu prósent af íbúum Suðurnesja. Í dag eru þeir um 19 prósent þeirra.

Ástæðan er fyrst og síðast sú mikla aukning í umsvifum sem orðið hefur á Keflavíkurflugvelli sem staðsettur er á Suðurnesjum. Ferðamönnum sem heimsækja Íslands hefur endað fjölgað úr um 500 þúsund árið 2010 og í um 2,3 milljónir á þessu ári, samkvæmt spám.Mikil aukning ferðamanna hefur búið til fjöldamörg störf á Keflavíkurflugvelli. Nýjasta viðbygging hans sést hér á myndinni. Þau störf eru fyrst og síðast mönnum með útlendingum.

Í nýlegri samantekt sem unnin var fyrir bæjarstjórn Reykjanesbæjar um stöðu og horfur í sveitarfélaginu, var lögð fram spá um að störfum á Kefla­vík­ur­flug­velli myndi fjölga um 2.513 á næstu fjórum árum. Þau þarf að óbreyttu að manna með erlendum rík­is­borg­urum sem flytja hing­að, annað hvort einir eða með fjöl­skyldum sín­um, í ljósi þess að atvinnuleysi hérlendis er sáralítið og í raun ríkir skortur á vinnuafli.

Því má búast við að erlendum íbúum Reykja­nes­bæjar fjölgi um mörg þús­und í nán­ustu fram­tíð og verði að minnsta kosti 30 pró­sent íbúa sveit­ar­fé­lags­ins.

Garðabær sker sig úr

Það er ekki sama fjölgunin í öllum sveitarfélögum. Þvert á móti.

Á höfuðborgarsvæðinu er staðan til að mynda þannig að tólf prósent íbúa Reykjavíkur eru erlendir ríkisborgarar, 9,4 prósent íbúa Hafnarfjarðar og 8,3 prósent íbúa Kópavogs.  Á Seltjarnarnesi eru þeir 6,4 prósent íbúa og í Mosfellsbæ einungis 5,9 prósent.

En það sveitarfélag höfuðborgarsvæðisins sem sker sig mest úr í þessum tölum er Garðabær. Þar búa einungis 640 erlendir ríkisborgarar og þeir eru einungis fjögur prósent íbúa sveitarfélagsins. Það þýðir að það eru 23,4 erlendir ríkisborgarar í Reykjavík fyrir hvern erlendan ríkisborgara í Garðabæ. Það búa tvö þúsund færri í Garðabæ en Reykjanesbæ alls. Samt búa 2.870 fleiri erlendir ríkisborgarar í Reykjanesbæ, sem er í um 40 mínútna akstursfjarlægð frá Garðabæ, en þar.

Fjölgun erlendra ríkisborgara í Garðabæ hefur verið mjög hæg. Á síðustu tæpu sjö árum hefur íbúum sveitarfélagsins fjölgað um 4.730. Af þeim eru einungis 290 erlendir ríkisborgarar.

Mismunandi staða sveitarfélaga

Fjöldi erlendra rík­is­borg­ara í Reykja­vík er: 14.960

Fjöldi erlendra rík­is­borg­ara á Suð­ur­nesj­un­um: 4.780

Fjöldi erlendra rík­is­borg­ara í Garða­bæ: 640

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Frá vígslu málverkanna í febrúar árið 2018. Síðan þá hafa þau ekki verið sýnd hlið við hlið.
Portrettmyndir Obama-hjónanna gera víðreist um Bandaríkin
Aðsóknarmet var slegið í National Portrait Gallery í Washington D.C. eftir að opinberar portrettmyndir Obama-hjónanna bættust í safneignina árið 2018. Nú eru myndirnar á leið í 11 mánaða reisu vítt og breitt um Bandaríkin.
Kjarninn 19. júní 2021
Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar.
Afnám leiguþaks gæti orðið Löfven að falli
Svíþjóð hefur, líkt og önnur lönd í Evrópu, reynt að sporna gegn hröðum leiguverðshækkunum með leiguþaki. Nú gæti farið svo að sænska ríkisstjórnin falli vegna áforma um að afnema slíkar takmarkanir fyrir nýbyggingar.
Kjarninn 18. júní 2021
Frá Akureyri.
Starfsfólki sagt upp á hjúkrunarheimilinu Hlíð á Akureyri
Forseti ASÍ gagnrýnir hagræðingaraðgerðir sem bitna fyrst og fremst á starfsfólki að hennar mati. Heilsuvernd tók við rekstri Öldrunarheimila Akureyrar í apríl á þessu ári.
Kjarninn 18. júní 2021
Kona gengur fram hjá minningarvegg um fórnarlömb COVID-19 í London.
Delta-afbrigðið á fleygiferð á Bretlandseyjum
Tilfellum af COVID-19 fjölgaði um 50 prósent í Bretlandi á einum mánuði frá 5. maí til 7. júní. Smitum af völdum Delta-afbrigðisins svokallaða fjölgaði um tæp 80 prósent milli vikna. Ný bylgja segja sumir en aðrir benda á að hún verði aldrei skæð.
Kjarninn 18. júní 2021
Komum erlendra ferðamanna til landsins fækkaði um 81 prósent milli 2019 og 2020.
Íslendingar eyddu minna á ferðalögum innanlands í fyrra heldur en árið 2019
Heildarútgjöld íslenskra ferðamanna innanlands námu 122 milljörðum króna í fyrra og drógust saman um 14 prósent frá 2019. Hlutfall ferðaþjónustu í landsframleiðslu dróst saman um rúmlega helming á tímabilinu, fór úr átta prósentum niður í 3,9 prósent.
Kjarninn 18. júní 2021
Upplýsingar um alla hluthafa og hversu mikið þeir eiga í skráðum félögum hafa legið fyrir á opinberum vettvangi undanfarið. Þetta telur Persónuvernd stríða gegn lögum.
Persónuvernd telur víðtæka birtingu hluthafalista fara gegn lögum
Vegna nýlegra lagabreytinga hefur verið hægt að nálgast heildarhluthafalista skráðra félaga í Kauphöllinni í samstæðureikningum á vef Skattsins. Persónuvernd telur þessa víðtæku birtingu fara gegn lögum.
Kjarninn 18. júní 2021
Flókið að fást við fólk sem lætur sannleikann ekki þvælast fyrir sér
Kerfið brást Helgu Björgu harðlega eftir að hún upplifði stöðugt áreiti borgarfulltrúa Miðflokksins í um tvö ár án þess að geta borið hönd fyrir höfuð sér. Málið hefur haft margvíslegar alvarlegar afleiðingar á andlega og líkamlega heilsu hennar.
Kjarninn 18. júní 2021
Horft frá Nauthólsvík yfir á Kársnes og að Hamraborg, þar sem Kópavogsbær stefnir á uppbyggingu þéttrar byggðar meðfram væntum borgarlínuleiðum.
Telur kjörnum fulltrúum skylt að rýna í hugmyndir um ódýrari Borgarlínu
Bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi vill rýna betur í hugmyndir um ódýrari Borgarlínu, sem lagðar hafa verið fram að undanförnu, svo vilji sveitarstjórna sé skýr í málinu. Einnig viðrar hún sérstakar áhyggjur af rekstrarkostnaði.
Kjarninn 18. júní 2021
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar