Magnús Garðarsson, fyrrverandi forstjóri og stofnandi United Silicon (USi), er grunaður um að hafa falsað reikninga og undirskriftir, átt við lánasamning og búið til gervilén í viðleitni sinni til að draga að sér fé úr fyrirtækinu. Alls er grunur um að Magnús hafi dregið að sér 605 milljónir króna.
Þetta kemur fram í skýrslu sem KPMG vann fyrir United Silicon og skilaði til fyrirtækisins í nóvember. Skýrslan byggir á skoðun KPMG á gögnum úr bókhaldi United Silicon og upplýsingum sem stjórnendur og endurskoðendur veittu KPMG við skoðunina.
Í skýrslunni er meint fjármálamisferli Magnúsar rakið ítarlega, en United Silicon kærði hann til héraðssaksóknara vegna gruns um stórfelld auðgunarbrot og skjalafals allt frá árinu 2014. Magnús hafnaði þessum ásökunum í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér 12. september 2017. Þar sagði hann þær „bull og vitleysu“.
Brögðum beitt til að fela upplýsingar
Þorri þess fjárdráttar sem talin er hafa átt sér stað hjá United Silicon var með þeim hætti að fyrirtækinu bárust reikningar sem sagðir voru vera frá ítalska fyrirtækinu Tenova, sem framleiddi ljósbogaofn kísilmálmverksmiðjunnar í Helguvík.
Í skýrslu KPMG segir að samningurinn um kaup á búnaði og efni vegna ofnsins hafi verið undirritaður 21. maí 2014. Hann hljóðaði upp á 28,5 milljónir evra, eða um 3,6 milljarða króna á núverandi gengi. Á sama tíma var gerður lánasamningur þar sem Tenova lánaði United Silicon fyrir kaupverðinu. Í honum var kveðið á um frestun á útgáfu reikninga sem nemur 20 prósent af reikningum Tenova samkvæmt greiðsluáætlun.
Með stjórnarsamþykktinni fylgdi skannað eintak af lánasamninginum. Í viðauka 8 við samninginn mátti einnig sjá tilvísun í lánasamninginn. Í skýrslu KPMG segir: „Ekki er að sjá neina tilvísun í lánasamninginn í viðauka 8 í því eintaki af frumriti samningsins sem varðveitt er hjá USi en skjalið er að öðru leyti keimlíkt því eintaki sem Tenova hefur undir höndum. Viðauki 8 er samt sem áður ólíkur öðrum skjölum samningsins og svo virðist sem um ljósrit sé að ræða. Við nánari skoðun á frumgagninu hjá USi má draga þá ályktun að átt hafi verið við skjalið í þeim tilgangi að falsa það. Þannig var brögðum beitt til að fela upplýsingar fyrir stjórnendum, starfsmönnum og endurskoðanda um lánasamninginn. Í þeim samskiptum sem KPMG hefur átt við hluteigandi aðila lítur út fyrir að Magnús hafi einn innan USi vitað af umræddum lánasamningi.“
„Algjörlega falsaðir“ reikningar
Reglulega bárust reikningar til United Silicon frá Tenova. Sá fyrsti er dagsettur 1. júlí 2014 og er ekki lækkaður um 20 prósent líkt og átti að gera samkvæmt lánasamningnum. Við nánari skoðun hafi komið í ljós að Magnús hafi óskað eftir því að 20 prósent upphæðarinnar, 570.760 evrur, yrði endurgreidd og lögð inn á danskan bankareikning í nafni United Silicon. „Fjárhæðin var síðan tekin út af bankareikningi og verður ekki séð að hún hafi verið nýtt í þágu USi. Forsvarsmenn USI höfðu enga vitneskju um þennan bankareikning og var hann ekki skráður í bókhald félagsins,“ segir í skýrslu KPMG.
Þeir reikningar sem KPMG telur tilhæfulausa eiga að hafa borist frá öðru félagi, Pyromet Tecnologia Elettrodica S.R.L. (PTE). Alls voru greiddir sjö reikningar til þess félags að fjárhæð 4.231 þúsund evrur. Þegar aðallögfræðingur Tenova, Giorgio Melega, fékk sent afrit af þessum reikningum við skoðun á bókhaldi United Silicon sagði hann þá vera „algjörlega falsaða“ og staðfesta grunsemdir um skipulagða fölsun. Orðrétt sagði í tölvupósti sem hann sendi 1. september 2017: „Sorry to confirm that these invoice appear completely fake and confirm our initial perception of a forgery scheme.“
Greiðslur vegna reikninganna fóru inn á bankareikning á Ítalíu sem er talin tengjast Magnúsi Garðarssyni eða félögum honum tengdum. Samtals nemur hinn meinti fjárdráttur 4,8 milljónum evra, eða 605 milljónum króna á núvirði.
Eitt þúsund færslur leiðréttar í bókhaldi
Í samantektarhluta skýrslu KPMG segir að við endurskoðun ársreiknings 2016 hafi endurskoðandi United Silicon kallað eftir staðfestingum frá lánadrottnum. Þar segir enn fremur að til að villa um fyrir endurskoðanda „ þá greip Magnús til þess ráðs að stofna lén og lætur líta út fyrir að hann sé Mark Giese, Senior Project Manager hjá þeim lánardrottni sem lánið var frá og falsar yfirlit. Þar staðfestir hann að skuldastaða USi sé lægri en raunin var sem nemur þeirri fjárhæð sem hann hafði þá tekið ófrjálsri hendi.“
Magnús hafi síðan falsað undirskrift Mark Griese á staðfestingarbréfi vegna ársins 2016 til endurskoðanda.
Um tíma var íhugað að færa bókhald United Silicon vegna ársins 2016 upp á nýtt vegna fjölda rangfærslna. Í skýrslu KPMG segir að það segi mikið um hver staða bókhaldsins var. Sú ákvörðun hafi hins vegar verið tekin að fara í leiðréttingar frekar en að færa bókhaldið allt aftur upp. Áætlað er að leiðréttingar hefðu numið um eitt þúsund færslum. „Það verður að teljast mikið þar sem félagið var ekki komið í fulla starfsemi. Erfitt var að draga fram áreiðanlegar upplýsingar um hreyfingar í bókhaldinu, t.d. á lánardrottnum fyrir árin, vegna allra leiðréttinganna sem búið var að gera.“