Talið er að Magnús Garðarsson, fyrrverandi forstjóri og stofnandi United Silicon, hafi misnotað fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands sjálfum sér til hagsbóta. Þetta kemur fram í skýrslu sem KPMG vann fyrir United Silicon og skilaði til fyrirtækisins í nóvember. Skýrslan byggir á skoðun KPMG á gögnum úr bókhaldi United Silicon og upplýsingum sem stjórnendur og endurskoðendur veittu KPMG við skoðunina.
Í skýrslunni er meint fjármálamisferli Magnúsar rakið ítarlega, en United Silicon kærði hann til héraðssaksóknara vegna gruns um stórfelld auðgunarbrot og skjalafals allt frá árinu 2014. Magnús hafnaði þessum ásökunum í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér 12. september 2017. Þar sagði hann þær „bull og vitleysu“.
Í skýrslu KPMG segir að hinn meinti fjárdráttur sé upp á 4,8 milljónir evra, eða 605 milljónir króna á núverandi gengi. Þorri hans var vegna reikninga sem sagðir voru vera frá fyrirtækinu Tenova, sem framleiddi ljósbogaofn verksmiðjunnar. Þeir reikningar voru greiddir en við endurskipulagningu United Silicon, sem nú stendur yfir, hafi komið í ljós að þeir væru alls ekki frá Tenova. Þess í stað hafi fjármunirnir sem greiddir voru ratað inn á reikning annars félags. Stjórn United Silicon telur að Magnús Garðarsson hafi haft umsjón með því félagi. Kjarninn mun fjalla ítarlega um þann anga málsins í umfjöllun sem mun birtast á morgun.
Flókið félaganet eigenda
Magnús Garðarsson hefur lengi ætlað að byggja kísilmálmverksmiðju í Helguvík. Á vormánuðum ársins 2012 keypti félag sem heitir Stakksbraut 9 (S9) lóð á samnefndu heimilisfangi á iðnaðar- og hafnarsvæðinu í Helguvík til þess að hanna, reisa og reka slíka verksmiðju þar. Helsti forsvarsmaður verkefnisins var Magnús Garðarsson.
Áformin gengu hins vegar ekki eftir vegna þess að bandarískur samstarfsaðili dró sig út úr því.
Nýja félagið var í 99,9 prósent eigu félags sem heitir Kísill Ísland ehf. og í 0,1 prósent eigu USI Holding B.V. Eigandi Kísill Íslands var félagið United Silicon Holding B.V., skráð í Amsterdam í Hollandi, og eigandi þess var síðan enn eitt félagið, Silicon Minerals Ventures B.V. (SMV). Það er dótturfélag hollenska fyrirtækisins Fondel, sem sérhæfir sig í að útvega hráefni fyrir alls kyns framleiðslu á Evrópumarkaði.
Þann 14. febrúar 2014 var gert samkomulag milli Silicon Mineral Ventures B.V. og USI Holding B.V. um að byggja kísilmálmverksmiðju í Helguvík undir merkjum United Silicon. Á meðal þess sem fjallað var um í samkomulaginu voru leiðir til að fjármagna verkefnið. Þar sagði meðal annars að aðilar máls ætluðu sér að nýta hina svokölluðu fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands, sem tryggði allt að 20 prósent virðisaukningu á það erlenda fjármagn sem skipt var í íslenskar krónur í gegnum leiðina.
Grunur um að misnotkun
Þann 1. september 2014 var félagið Stakksbraut 9 ehf., sem var stofnað utan um upprunalegu áform um kísilmálmverksmiðju, sameinað nýja félaginu, United Silicon, sem yfirtók um leið allar eignir og skuldbindingar fyrrnefnda félagsins. Í skýrslu KPMG kemur fram að hlutafé fyrir samrunann hafi verið 224 milljónir króna en eftir hann 673,4 milljónir króna. Þar segir einnig að langstærsti hluti eignfærslu Stakksbrautar 9 hafi verið byggður á reikningum frá félagi sem heitir Pyromet Engineering B.V. (PE). Það félag var í eigu Magnúsar Garðarssonar.
Í samantekt KPMG segir að Stakksbraut 9 hafi alls greitt um 1.150 milljónir króna til Pyromet og 316 milljónir króna voru greiddar inn á reikning félagsins eftir að Stakksbraut 9 var sameinað United Silicon. Greiðslurnar áttu sér stað á tímabilinu 9. september 2014 til 27. ágúst 2015. Þeir reikningar virðast aldrei hafa verið bókaðir í bókhaldi United Silicon.
Í samantekt KPMG segir: „Án þess að hafa fyrir því staðfestingu eða gögn til rökstuðnings þá er hugsanlegt að tilgangurinn með þessum fjárhagsfærslum eftir að S9 er sameinað USi hafi verið að misnota fjárfestingarleið Seðlabankans. Mikilvægt er að það verði kannað nánar. Alls er um að ræða reikninga að fjárhæð 393 m.kr. sem þannig fara í gegnum bankareikning S9 eftir að það er sameinað, þ.e. 316 frá PE og 77 m.kr frá SMV. en sá reikningur er væntanlega falsaður.“
Umdeild aðferð á vegum Seðlabankans
Fjárfestingaleið Seðlabanka Íslands, sem einnig var nefnd 50/50 leiðin, var gríðarlega umdeild aðferð sem Seðlabankinn beitti til minnka hina svokölluðu snjóhengju, krónueignir erlendra aðila sem fastar voru innan fjármagnshafta og gerðu stjórnvöldum erfitt fyrir að vinna að frekari losun þeirra hafta. Samkvæmt henni gátu þeir sem samþykktu að koma með gjaldeyri til Íslands skipt þeim í íslenskar krónur á hagstæðara gengi en ef þeir myndu gera það í næsta banka. Mun hagstæðara gengi.
Alls fóru fram 21 útboð eftir fjárfestingaleiðinni frá því í febrúar 2012 til febrúar 2015, þegar síðasta útboðið fór fram. Alls komu um 1.100 milljónir evra til landsins á grundvelli útboða fjárfestingarleiðarinnar, sem samsvarar um 206 milljörðum króna.
Seðlabankinn segir að sér sé ekki heimilt að greina frá nöfnum þátttakenda í gjaldeyrisútboðum sínum vegna þagnarskylduákvæðis í lögum um Seðlabanka Íslands.
Peningaþvættisskrifstofu héráðssaksóknara bárust engar tilkynningar um að fjárfestar sem nýttu sér fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands hefðu verið að koma illa fengnu fé inn í landið. Viðskiptabankarnir, sem komu að nýtingu leiðarinnar sem milliliðir, segjast allir hafa kannað viðskiptavini sína. Skattrannsóknarstjóri hefur fengið afhent lista yfir þá sem nýttu sér leiðina of samkeyrt þann lista við gögn úr Panamaskjölunum. Við þá samkeyrslu kom í ljós að 21 einstaklingur sem nýtti sér leiðina átti einnig félag í skattaskjólum sem tilgreind voru í gögnunum. Enn er verið að vinna úr þessum gögnum hjá embætti skattrannsóknarstjóra.