Á viðskiptaráðstefnunni í Davos í Sviss, þar sem margt áhrifamesta fólk heimsins á sviði stjórnmála og viðskipta kemur saman til skrafs og ráðagerða, eru alþjóðaviðskipti í brennidepli.
Sérstaklega beinast spjótin nú að tveimur pólum. Annars vegar einangrunarhyggju og síðan opnum viðskiptum.
Skömmu áður en þessi árlegi viðburður hófst tilkynntu bandarísk stjórnvöld um nýjar aðgerðir til að örva efnahaginn heima fyrir. Innflutningstollar verða settir á innflutning þvottavéla og sólarskjalda, til að virkja sólarorku, og verða þeir á bilinu 30 til 50 prósent.
Talið er að aðgerðirnar beinist ekki síst að samkeppnisaðilum bandarískra framleiðanda í Asíu og Mexíkó. Þannig hafa iðnfyrirtæki í Suður-Kóreu og Kína mótmælt þessu harðlega, á meðan bandarísk fyrirtæki, eins og Whirlpool, fagna þessu.
En hvað er þarna á seyði? Hvernig stendur á því að Bandaríkin eru allt í einu orðin málsvari einangrunarhyggju í viðskiptum en Kína - þar sem ríkisvaldið er allt um lykjandi - talar fyrir opnum alþjóðavæddum heimi?
Nokkur atriði má segja að einkenni þessar rökræðar.
1. Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur alla tíð í sinni pólitísku baráttu, alveg frá því árið 2015, talað fyrir því að hornsteinninn í hans efnahagslegu sýn sé sá, að Bandaríkin séu að halda of mörgum uppi með annars vegar skattfé og svo „lélegum“ viðskiptasamningum við önnur ríki. Bakbeinið í slagorði hans, „Gerum Bandaríkin Frábær Aftur (Make America Great Again)“ er nátengt þessum málflutningi. Núna, eftir eitt ár í embætti, virðist sem hann ætli að reyna að hrinda stefnu sinni í framkvæmd, meðal annars með sértækum tollum en líka með því að draga Bandaríkin meira út úr alþjóðasamstarfinu, og stokka spilin upp á nýtt. Trump vill, að Bandaríkin framleiði meira og minna allt það sem hægt er að framleiða í Bandaríkjunum, þar, og hvetur Bandaríkjamenn til að kaupa bandarískar vörur frekar en aðrar. Þessi málflutningur er kunnuglegur frá tímum Ronalds Reagans, en þó með þeim fyrirvara að Reagan talaði um að Bandaríkin ættu alltaf að vera opin fyrir samkeppni og nýjum straumum. Það væri þjóðareinkennið. Í ræðu sinni í Davos í dag, reyndi Trump að róa þá sem hafa haft verulegar efasemdir um málflutning hans. Hann sagði Bandaríkin opin fyrir viðskiptum, en að sá tími væri liðinn þar sem það væri hægt að búast við „gjöfum“ frá Bandaríkjunum, að því er segir í umfjöllun The Economist.
Heading back from a very exciting two days in Davos, Switzerland. Speech on America’s economic revival was well received. Many of the people I met will be investing in the U.S.A.! #MAGA
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) January 26, 2018
2. Á meðan í Asíu. Kínverjar hafa gripið til margra aðgerða að undanförnu, til þess að opna efnahag sinn fyrir viðskiptum, meðal annars frá Bandaríkjunum. Þannig kom það mörgum á óvart, þegar Trump heimsótti Kína og fleiri Asíuríki í fyrra, að í tilefni af heimsókn hans var ákveðið að gera miklar breytingar á regluverki fjármálamarkaðarins og opna fyrir möguleika á eignastýringu erlendra fyrirtækja. Þetta kann að hljóma sem lítið mál, en almennt er litið á þessar aðgerðir sem stórt og mikið skref í að auka samvinnu Bandaríkjanna og Kína á sviði fjármálaþjónustu. Hvað þýðir þetta? Í umfjöllun Bloomberg segir, að þetta sé stórt og mikið skref, og sýni að Kínverjar - og fleiri þjóðir Asíu sem eru háðar risanum í Austri - séu skipulega að opna hagkerfi sín fyrir alþjóðlegum viðskiptaháttum. Með þessu eru send skilaboð til Bandaríkjanna: Á meðan Bandaríkin tali fyrir eingangrunarhyggju, þá sé kínverski risinn tilbúinn að taka við keflinu sem leiðandi afl alþjóðaviðskiptanna.
3. Margio Draghi, forseti bankastjórnar Seðlabanka Evrópu, lét hafa eftir sér á dögunum að bandarísk stjórnvöld mættu ekki „tala upp gjaldmiðlastríðið“ sem stundum er kallað. Til einföldunar, má segja að þá sé einstök gjaldmiðlasvæði að „stilla af“ gengi gjaldmiðla svo það henti t.d. Útflutningi. Staða Bandaríkjadals gagnvart evrunni er núna 1,25 Bandaríkjadalur fyrir hverja evru, og hefur jafn veik staða ekki verið upp í þrjú ár. Bandarískir fjölmiðlar hafa fjallað töluvert um það að undanförnu, að Trump og hans fólk í Hvíta húsinu vilji að dalurinn sé jafnvel enn veikari gagnvart evru. En Draghi varaði við því, að mikill pólitískur þungi sé settur í slíkar umræður, ekki síst til að hafa ekki óæskileg áhrif á markaði.