Donald Trump hefur gegnt embætti forseta Bandaríkjanna í eitt ár. Það hefur ekki gengið áfallalaust fyrir sig hjá forsetanum og sjálfsagt að tala um rússíbanareið.
Viðskiptamógúllinn og raunveruleikastjarnan hefur átt fullt í fangi með erfið verkefni, mörg sjálfsköpuð, frá því hann var eiðsvarinn, kaldan og blautan janúar morgunn fyrir ári síðan. Hegðan hans í embætti hefur verið óvenjuleg og óhætt að segja að Trump hafi mótað það eftir sínu höfði. Ýmislegt hefur gengið á og hefur forsetinn jafnt og þétt tapað stórum hluta ánægjufylgis, þrátt fyrir að eftir standi enn stór hópur dyggra stuðningsmanna í fylgismælingum.
Hér er stiklað á stóru á þessu fyrsta ári Trump forsetatíðarinnar, af nægu eru að taka, og ekki skyldi gleyma baráttu hans við þingmenn Repúblikana um Obamacare, fellibyljum, óendanlegu magni af undarlegum tístum, öllum þeim konum sem sakað hafa hann um kynferðislega áreitni og ofbeldi, falsfréttum og spilltum fjölmiðlum, endalausum mannabreytingum í Hvíta húsinu, skattalækkanir og harðari innflytjendastefnu.
Ómögulegt er að segja til um hvort þetta fyrsta ár gefi forsmekk af því sem koma skal, en verði svo er ekki ólíklegt að sú heimsmynd sem við búum við í dag verði gjörbreytt árið 2020 þegar því líkur, ekki síst fyrir heimamenn.
Yfirlit yfir helstu viðburði fyrsta árs Trump í embætti
8. nóvember 2016 - Öllum að óvörum var Donald Trump kjörinn forseti Bandaríkjanna. Hann varð þar með sá fyrsti til að gegna því embætti án þess að hafa áður gegnt opinberu embætti, starfað innan stjórnsýslunnar eða bandaríska hersins.
20. janúar 2017 - Trump tók formlega við embætti forseta Bandaríkjanna. Eins og tíðkast flutti hann innsetningarræðu sína undir berum himni í viðurvist hundruð þúsunda manna. Töluverðar deilur urðu um áhorfendafjöldann en upplýsingafulltrúi Hvíta hússins fullyrti að aldrei hefðu eins margir fylgjast með embættistökunni, bæði á vettvangi og í gegnum sjónvarp eða tölvur. Þær fullyrðingar hafa síðan verið hraktar.
27. janúar - Forsetinn undirritaði tilskipun um ferðabann borgara sjö múslimaríkja til Bandaríkjanna, með þeim rökum að þjóðaröryggi væri í húfi, þrátt fyrir að þeir hefðu gildar vegabréfsáritanir undir höndum. Tilskipunin tók síðar nokkrum breytingum. Lögbann var sett á tilskipunina víða í ríkjum landsins.
28. janúar - Trump tilnefndi Neil Gorsuch í embætti dómara við Hæstarétt Bandaríkjanna. Öldungadeild þingsins samþykkti tilnefninguna þann 7. apríl og Gorsuch tók við embætti þann 10. sama mánaðar. Gorsuch er þekktur sem bókstafsfræðimaður, það er að stjórnarskrá Bandaríkjanna skuli ávallt túlkuð með sama hætti og þegar hún var upphaflega sett.
30. janúar - Forsetinn rak Sally Yates, þá starfandi dómsmálaráðherra, eftir að hún hafði efast um lögmæti ferðabannsins. Yates hafði aukinheldur komið að rannsókn ráðuneytisins á Michael Flynn, fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafa Trump, og samskiptum hans við Rússa og meint ráðabrugg um hvernig væri hægt að slaka á viðskiptaþvingunum Bandaríkjanna gegn Rússlandi.
13. febrúar - Michael Flynn sagði af sér sem þjóðaröryggisráðgjafi.
14. febrúar - Forstjóri FBI, James Comey, snæðir kvöldverð með Trump í Hvíta húsinu. Samkvæmt vitnisburði Comey fyrir þinginu síðar bað forsetinn hann um að fella niður rannsóknina gegn Flynn.
19. mars - Trump fór í sitt fyrsta ferðalag sem forseti til Sádí-Arabíu, Ísrael, Vatíkansins, á fund NATO ríkjanna í Belgíu og G-7 ríkjanna á Ítalíu.
9. maí - Donald Trump rak James Comey, forstjóra FBI. Til stóð að Comey bæri vitni fyrir þingnefnd öldungardeildarþings tveimur dögum síðar.
17. maí - Robert Mueller skipaður saksóknari til að fara með formlega rannsókn á tenglsum Rússa við framboð Trump sem og meintum afskiptum Rússa af forsetakosningunum.
8. júní - James Comey, fyrrverandi forstjóri FBI, bar vitni fyrir þingnefnd öldungadeildarinnar þar sem hann staðfesti að forsetinn gekk hart að honum að fella niður rannsóknina á Flynn.
7. júlí - Fundaði með Vladimir Putin, Rússlandsforseta, á G20 fundi í Þýskalandi. Fundurinn stóð mun lengur en til stóð eða í tvo tíma þar sem forsetarnir ræddu meðal annars ásakanir um að Rússar hafi reynt að hafa áhrif á forsetakosningarnar, stríðið í Sýrlandi og fleira.
12. ágúst - Átök brutust út í bænum Charlotteville í Virginíuríki milli hvítra þjóðernissinna, sem mótmæltu því að fjarlægja ætti styttu af herforingjanum Robert Lee á torgi í bænum, og þeirra sem mótmæltu þjóðernissinnunum og lýstu yfir andstyggð á heðgan þeirra og málflutningi. Þrír létu lífið. Viðbrögð forsetans við ofbeldinu voru að lýsa yfir fordæmingu á hatri og ofbeldi beggja hliða.
18. ágúst - Steve Bannon, einn helsti ráðgjafi Trump og lykilmaður í kosningabaráttu hans, hættir störfum í Hvíta húsinu.
19. september - Í ræðu hjá allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna vísaði Trump til Kim Jong Un, leiðtoga Norður-Kóreu, eldflaugamanninn eða „Rocket Man“ og lofaði að gereyða Norður Kóreu, neyðist Bandaríkin eða bandamenn þeirra til að verja sig gagnvart árásum frá þeim.
2. desember - Michael Flynn, fyrrverandi öryggisráðgjafi Trump játaði að hafa logið að FBI og að hann hyggðist vinna með yfirvöldum að frekari rannsókn á tengslum Rússa við kosningabaráttuna.
6. desember - Forsetinn viðurkenndi Jerúsalem sem höfuðborg Ísraels. Ákvörðunin fól í sér breytingu á þeirri utanríkisstefnu sem Bandaríkin hafa fylgt undanfarna áratugi allt frá stofnun Ísraelsríkis. Trump setti samhliða þessari ákvörðun sinni af stað vinnu við að færa bandaríska sendiráðið í Ísrael frá borginni Tel Aviv til Jerúsalem.
5. janúar - Bókin Fire and Fury kom út í Bandaríkjunum og olli miklum erfiðleikum fyrir forsetann. Bókin lýsti fullkomnu vanhæfi forsetans og vantrausti allra í kringum hann og miklum átökum þeirra hópa sem mynda innsta hring forsetans, sem snúast um að hafa áhrif á ákvarðanir hans.