Danskir þingmenn eru þessa dagana með til skoðunar frumvarp sem óhætt er að fullyrða að eigi sér fáar hliðstæður. Það snýr að klæðnaði, nánar tiltekið klæðnaði sem hylur andlit. Þótt þetta frumvarp sé beinlínis sett fram til höfuðs tilteknum höfuðbúnaði og andlitsgervi snertir það marga, til dæmis jólasveininn.
Ef íbúar Norðurlanda og kannski fleiri hefðu verið spurðir, fyrir tveimur áratugum eða svo, um merkingu orðanna búrka (burka) og niqab er líklegast að flestir hefðu hváð. Þeim sem tala sænsku hefði kannski dottið í hug bjórdós, þegar þeir heyrðu fyrra orðið en ekki haft grænan grun um merkingu þess síðarnefnda, kannski ímyndað sér eitthvað matarkyns.
En heimsmyndin hefur breyst, í dag vita flestir að búrka er ekki bjórdós og niqab er ekki matvara, þessi tvö orði merkja skósíðan fatnað múslímskra kvenna. Niqab tengist einkum Sádi- Arabíu og löndum umhverfis Persaflóa, upphaflega vörn gegn sól og sandi, búrkan er hinsvegar útbreiddust í Afganistan og Pakistan. Búrkan, sem oftast er blá að lit, hylur allar líkamann en fyrir augunum er einskonar net. Á niqab, sem er svart að lit, er einungis smá rifa í kringum augun, að öðru leyti er líkaminn hulinn.
Mikil fjölgun múslima
Í mörgum Evrópulöndum hefur múslímum fjölgað talsvert á síðustu árum. Eins og títt er um fólk sem sest að fjarri heimalandinu vilja múslímarnir gjarna halda sínum siðum og venjum sem oft á tíðum eru mjög frábrugðnir því sem tíðkast í ,,nýja“ landinu. Þetta gildir um mataræði, fjölskyldusiði, trúariðkun og klæðnað, einkum kvenna. Hið síðastnefnda hefur valdið stjórnvöldum í mörgum Evrópulöndum miklum höfuðverk. Samkvæmt trúarsiðum múslíma er konum sem klæðast skósíðum búrkum eða niqab undantekningalaust bannað að sýna ókunnugum andlit sitt. Gildir einu hver á í hlut.
Árekstrar og bönn
Árið 1931 settu Ítalir lög sem bönnuðu klæðnað sem hylur andlit að hluta eða öllu leyti. Samkvæmt lögunum geta yfirvöld á tilteknu svæði þó heimilað ákveðnar undantekningar frá lögunum. Árið 2011 tóku gildi í Frakklandi lög sem banna, að viðlagri sekt, að andlit sé hulið á almannafæri. Þessi lög voru mjög umdeild en rök frönsku stjórnarinnar voru meðal annars þau að ekki gæti gengið að t.d. lögregla og kennarar gætu ekki vitað hver væri á bak við ,,grímuna“. Margir franskir þingmenn fullyrtu að konur hyldu iðulega andlit sitt að skipan eiginmanna sinna,eða feðra, ,,gríman“ væri tákn undirokunar. Sama ár og Frakkar settu þessi lög fylgdu Belgar í kjölfarið og síðar Hollendingar, Austurríkismenn, Lettar, Búlgarar og fleiri þjóðir.
Danir íhuga bann
Í Danmörku býr talsverður fjöldi múslima og hefur fjölgað nokkuð á síðustu árum. Fyrir um það bil þremur árum var á danska þinginu, Folketinget, talsvert rætt um það sem Danir kalla búrkubann en orðið gildir um hvers kyns klæðnað sem hylur stóran hluta andlitsins. Síðan hefur lítið verið um þetta talað, fyrr en nú. Danska útvarpið, DR, birti fyrir nokkrum dögum hluta úr minnisblaði sem embættismenn í dómsmálaráðuneytinu höfðu samið varðandi hugsanlegt búrkubann. Í minnisblaðinu kemur fram að slíkt bann myndi ekki einungis gilda um búrkur og niqab, það myndi stríða gegn lögum um trúfrelsi. Bannið myndi því gilda um hvers konar höfuðbúnað, sem hylur andlit að því marki að erfitt sé að bera kennsl á þann sem búnaðinn ber.
Lambhúshettur, grímur, jólasveinagervi
Danskir fjölmiðlar hafa síðustu daga fjallað mikið um búrkubannið. Þeir hafa ekki síst velt því fyrir sér hvernig eigi að framfylgja þessu banni. Spurningarnar eru ótalmargar: verður bannað að ganga með lambhúshettu (sem Danir kalla elefanthue)? Slík höfuðföt fást í öllum útivistarbúðum, og mörgum öðrum, og eru vinsæl meðal hjólreiðafólks. Hvað með grímur? Á Strikinu í Kaupmannahöfn má iðulega sjá grímuklætt fólk standandi hreyfingarlaust á kassa með söfnunarbauk við fætur sér. Samkvæmt lögunum yrði þetta óleyfilegt. Hvað með mótorhjólahjálma (sem lögbundið er að nota) þeir hylja stóran hluta andlitsins. Í minnisblaðinu kemur fram að hægt sé að víkja frá lögunum, en varðandi slíkar undantekningar er ekki nánari útlistun að finna. Þingmaður sem rætt var við spurði hvort lögregluþjónn sem mætti gangandi manni, með lambhúshettu, ætti kannski að meta hvort hitastigið væri of hátt til að vera þannig klæddur.
Lögreglan vill skýrar vinnureglur
Í löngu blaðaviðtali, fyrir nokkrum dögum, sagði formaður félags danskra lögreglumanna brýnt, ef búrkubannið verður leitt í lög, að lögreglan fái mjög skýrar vinnureglur. Það geti ekki gengið að einstakir lögregluþjónar eigi að meta hvort sjá eigi í gegnum fingur varðandi lögin. ,,Slíkt kallar á mismunun og vandræði“.
Jólasveinar hafa áhyggjur
Eitt dönsku dagblaðanna ræddi við formann félags danskra jólasveina um búrkubannið. Í viðtalinu, sem var á gamansömum nótum, sagði formaðurinn að þeir sveinarnir hefðu nokkrar áhyggjur af þessari hugsanlegu lagasetningu. ,,Eins og hjá öllum öðrum er skeggspretta okkar jólasveinanna misjöfn og þess vegna hafa margir úr okkar hópi orðið að grípa til hjálpartækja, í formi gerviskeggs.“ Formaðurinn bætti við að ef hugmyndin um búrkubann yrði að lögum væri bót í máli ef það gerðist fljótlega ,,við höfum þá allmarga mánuði til að safna. Þeir okkar sem glíma við sprettuleysi verða svo annaðhvort að fá sérstakt gerviskeggburðarleyfi hjá lögreglunni, eða treysta á guð og lukkuna“ sagði formaðurinn.
Forystumenn stjórnarflokkanna hittast í Herning á Jótlandi í dag, sunnudaginn 28. janúar. Meðal þess sem þar er á dagskrá er búrkubannið.