Öll íbúafjölgun í Reykjavík í fyrra var vegna erlendra ríkisborgara sem fluttu til borgarinnar. Borgarbúum fjölgaði um 2.800 á árinu 2017 og voru 126.100 um nýliðin áramót. Erlendum ríkisborgurum sem búa í höfuðborginni fjölgaði á saman tíma um 3.140 og erum nú 15.640 talsins. Þetta kemur fram í tölum sem Hagstofa Íslands birti í byrjun viku.
Þar kemur einnig fram að erlendum íbúum höfuðborgarinnar hefur fjölgað um 70 prósent frá byrjun árs 2012.
Tveir af hverjum þremur á höfuðborgarsvæðinu búa í Reykjavík
Í Reykjavík bjuggu 9.190 erlendir ríkisborgarar í byrjun árs 2012. Þeim fjölgaði jafnt og þétt næstu ár og í lok árs 2016 voru þeir 12.500. Þá hafði þeim fjölgað um 36 prósent á fimm árum.
Í fyrra varð hins vegar sprenging. Þá fjölgaði erlendum ríkisborgurum í Reykjavík um 3.140 talsins, eða um 25 prósent á einu ári, og eru nú 15.640. Alls fjölgaði íbúum Reykjavíkur um 2.800 á síðasta ári og því er ljóst að íslenskum ríkisborgurum sem bjuggu í höfuðborginni fækkaði á milli ára en öll aukning á íbúafjölda er til komin vegna erlendra ríkisborgara sem þar hafa sest að.
Á höfuðborgarsvæðinu búa 23.200 erlendir ríkisborgara og þeim fjölgaði um 4.280 á árinu 2017. Það þýðir að erlendum ríkisborgurum sem búa í Kópavogi, á Seltjarnarnesi, í Garðabæ, Hafnarfirði, Mosfellsbæ og í Kjósahreppi fjölgaði samtals um 1.140 á síðasta ári. Því er ljóst að tveir af hverjum þremur erlendum ríkisborgurum sem settust að á höfuðborgarsvæðinu í fyrra búa í Reykjavík, en einn þriðji í nágrannasveitarfélögunum. Það búa 126.100 manns í Reykjavík en 96.490 samtals í öðrum sveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins.
41 prósent fjölgun í Reykjanesbæ
Það eru fleiri sveitarfélög en Reykjavík sem finna mjög fyrir fjölgun erlendra ríkisborgara.
Um síðustu áramót bjuggu 3.650 erlendir ríkisborgarar í Reykjanesbæ. Þeim fjölgaði um 1.070 á síðasta ári, eða um 41 prósent. Alls búa 16.350 í Reykjanesbæ, sem þýðir að 22,3 prósent íbúa sveitarfélagsins eru erlendir ríkisborgarar. Íbúum þess fjölgaði samtals um 1.117 á árinu 2017. 96 prósent þeirrar fjölgunar er vegna erlendra ríkisborgara sem fluttu í sveitarfélagið.
Ástæðan er fyrst og síðast sú mikla aukning í umsvifum sem orðið hefur á Keflavíkurflugvelli sem staðsettur er á Suðurnesjum. Ferðamönnum sem heimsækja Íslands hefur endað fjölgað úr um 500 þúsund árið 2010 og í um 2,3 milljónir í fyrra, samkvæmt spám.
Í nýlegri samantekt sem unnin var fyrir bæjarstjórn Reykjanesbæjar um stöðu og horfur í sveitarfélaginu, var lögð fram spá um að störfum á Keflavíkurflugvelli myndi fjölga um 2.513 á næstu fjórum árum. Þau þarf að óbreyttu að manna með erlendum ríkisborgurum sem flytja hingað, annað hvort einir eða með fjölskyldum sínum, í ljósi þess að atvinnuleysi hérlendis er sáralítið og í raun ríkir skortur á vinnuafli.
Því má búast við að erlendum íbúum Reykjanesbæjar fjölgi um mörg þúsund í nánustu framtíð og verði að minnsta kosti 30 prósent íbúa sveitarfélagsins.