Fjöldi þeirra fanga sem eru undir rafrænu eftirliti næstum þrefaldaðist í fyrra. Árið 2016 voru að meðaltali sjö fangar undir slíku eftirliti á meðan að þeir afplánuðu eftirstöðvar fangelsisdóma sinna. Í fyrra voru að meðaltali 17,8 fangar undir rafrænu eftirliti. Það er langmesti meðaltalsfjöldi sem verið hefur undir slíku.
Með rafrænu eftirliti er átt við afplánun utan fangelsis, þar sem fangi dvelur á eigin heimili eða öðrum samþykktum dvalarstað og er gert að bera ökklaband til þess að hægt sé að fylgjast með ferðum hans.
Um afplánun undir rafrænu eftirliti gilda ákveðnar reglur sem fangi verður að framfylgja. Fangi verður til að mynda að vera á dvalarstað sínum á kvöldin og yfir nóttina. Á virkum dögum þurfa þeir að vera þar frá klukkan 23 á kvöldin og til klukkan sjö á morgnanna. Um helgar þarf fanginn að vera kominn heim fyrir klukkan 21. Þá ber honum að sinna vinnu, námi eða einhvers konar verkefnum á virkum dögum, sem fangelsismálastofnun hefur samþykkt.
Fjórir af 13 með dóma fyrir efnahagsbrot
Af þeim sem voru undir rafrænu eftirliti þann 11. janúar síðastliðinn voru þrír sem hlotið höfðu dóma fyrir brot gegn 249. grein almennra hegningarlaga sem fjallar um umboðssvik. Einn sem sætir rafrænu eftirliti hlaut dóm fyrir skjalafals og fjárdrátt. Alls voru 13 fangar að afplána hluta refsingar sinnar undir rafrænu eftirliti á ofangreindum degi og því var 31 prósent þeirra sem það gerðu á þeim tíma fangar sem hlutu dóma fyrir efnahagsbrot þar sem refsiramminn er allt að sex ára fangelsi.
Fimm þeirra sem nú sæta rafrænu eftirliti hlutu dóma fyrir kynferðisbrot, einn fyrir manndráp eða tilraun til manndráps, einn fyrir fíkniefnabrot, einn fyrir umferðalagabrot og einn fyrir annan glæp en ofangreinda. Alls luku fimm fangar sem höfðu verið undir rafrænu eftirliti afplánun um líðinn áramót og þeim sem sættu slíku fækkaði því úr 18 í 13. Samkvæmt upplýsingum frá fangelsismálastofnun er búist við því að fjöldinn verði aftur kominn nálægt meðaltali síðasta árs áður en janúarmánuður er liðinn.
Páll Winkel, forstjóri fangelsismálastofnunar, segir að það sé algjörlega ótengt brotaflokkum hverjir fái að afplána með þessum hætti. Allir sem hlotið hafi eins árs fangelsi eða lengra uppfylla skilyrði til að ljúka refsingu sinni með þessum hætti. Páll segir að heilt yfir hafi reynslan af úrræðinu verið góð.
Lögum breytt vorið 2016
Lögum um fullnustu refsinga var breytt á Alþingi í mars 2016. Þar var hámarksfjöldi daga undir rafrænu eftirliti aukinn úr 240 dögum í 360. Við lagabreytinguna gat fangi með sex ára fangelsisrefsingu eða lengri verið allt að tólf síðustu mánuði afplánunar undir rafrænu eftirliti.
Við meðferð allsherjarnefndar var gerð sú breyting á frumvarpinu að fjölga dögum sem brotamenn gætu fengið í rafrænt eftirlit úr 30 dögum í 60 daga fyrir fyrsta árið. Þessi breyting var gerð að tillögu meirihluta allsherjarnefndar eftir aðra umræðu um frumvarpið, og skömmu áður en það var afgreitt sem lög. Skömmu áður en breytingartillagan var lögð fram hafði Borgar Þór Einarsson, lögmaður og í dag aðstoðarmaður utanríkisráðherra, skilað umsögn til nefndarinnar þar sem umrædd breyting var lögð til. Forstjóri fangelsismálastofnunar lýsti yfir andstöðu við þessa breytingu þegar hann kom fyrir allsherjarnefnd.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þáverandi nefndarmaður í allsherjarnefnd og þingmaður Vinstri grænna, sagði við Stundina í byrjun apríl 2016 að hún teldi lagabreytinguna hafa verið smíðaða í kringum þrjá menn sem hefðu hlotið dóma í Al Thani-málinu svokallaða.