Í skýrslu starfshópsins um endurskoðun á bankakerfinu er fjallað ítarlega um hinar ýmsu leiðir sem farnar hafa verið á alþjóðavettvangi, við endurskoðun á regluverki fjármálamarkaða eftir hremmingarnar á fjármálamörkuðum 2007 til 2009.
Í lok yfirgripsmikillar skýrslu hópsins er farið yfir tillögur hans og ábendingar um það sem þarf að huga sérstaklega að.
Í hópnum áttu sæti Guðjón Rúnarsson, formaður, Sigurður B. Stefánsson, Sigrún Ragna Ólafsdóttir, Frosti Sigurjónsson, og Hjördís Dröfn Vilhjálmsdóttir.
Helstu tillögur og ábendingar hópsins fara hér að neðan, eins og þær koma fyrir í skýrslunni.
Varnarlína um áhættumeiri starfsemi
Nefndin leggur til að ef einhver af kerfislega mikilvægu bönkunum hefur í hyggju að auka þá fjárfestingarbankastarfsemi sem felst í beinni og óbeinni stöðutöku umfram sem nemur 10-15% eiginfjárbindingu af eiginfjárgrunni, sé þeim banka frjálst að gera það enda verði stofnað sérstakt félag um fjárfestingarbankastarfsemina. Félögin geta verið hluti af sömu samstæðu, en þau verði með óháða stjórn, stjórnendur og fjárhag. Slík breyting á lögum um fjármálafyrirtæki verði í anda þeirra lagabreytinga sem gerðar hafa verið í Bretlandi á grunni Vickers-skýrslunnar frá 2011.
Til vara leggur nefndin til að löggjafinn veiti Fjármálaeftirlitinu skýra heimild og skyldu til að grípa til aðgerða ef eftirlitið telur að fjárfestingarbankastarfsemi tiltekins banka sé orðin það viðamikil að hún skapi áhættu fyrir viðskiptabankann. Í þeim efnum skal haft í huga að eftirlitið hefur í dag heimildir til að grípa inn í rekstur banka, en þær eru mjög almennar og því hætta á að hart yrði deilt um lögmæti slíkrar ákvörðunar og inngrip gætu dregist um of. Þá kallar nefndin eftir því að eftirlitsaðilar skilgreini þá hluta af starfsemi viðskiptabankanna sem verður ávallt að vera uppi til að þjóna almenningi og rekstri fyrirtækja í landinu. Mikilvægt er að enginn vafi leiki á því hvaða starfsþættir það eru.
Aðrar ábendingar
Standa vörð um eiginfjárkröfur
Nefndin leggur áherslu á að staðið verði vörð um nauðsynlegar eiginfjárkröfur, ekki síst á kerfislega mikilvæga banka. Fjármálaeftirlitið þarf að standast þrýsting til verulegrar lækkunar á þeim kröfum, sem líklegt er að fari vaxandi á komandi árum. Það er rauður þráður í skrifum fræðimanna um fjármálakreppur að sterkt eigið fé verði ávallt einn mikilvægasti öryggisventillinn til að vega á móti áhættu í bankastarfsemi og draga úr líkum á falli banka. Samhliða er mikilvægt að innleiða sem fyrst nýjar reglur um viðbúnaðar- og skilameðferð til að tryggja skilvirka úrlausn mála og lágmarka kostnað ef banki lendir í vanda.
Hemill á öran útlánavöxt
Nefndin telur ástæðu til að skoða að Fjármálaeftirlitið taki upp sambærileg viðmið í árlegu könnunarog matsferli sínu til að slá á öran útlánavöxt og tíðkast í Noregi. Við slíka útfærslu yrði horft samspils við þau úrræði sem eftirlitsaðilar hafa þegar í dag í þeim efnum.
Áhættuvilji skiptir máli
Nefndin leggur áherslu á að eftirlitsaðilar hafi vakandi auga með þróun áhættuvilja stjórnenda og lykilstarfsmanna í fjármálageiranum. Einn þáttur í að vekja starfsmenn reglulega til umhugsunar um þau mál væri árleg viðlagaæfing sem Fjármálaeftirlitið og Seðlabankinn stæðu að sameiginlega. Á slíkri æfingu væru ekki einungis æfð viðbrögð við vá, heldur einnig rifjuð upp fjármálaáföll fortíðar, orsök þeirra og afleiðingar. Jafnframt telur nefndin að mætti útfæra slíkt í endurmenntun af hálfu bankanna sjálfra, mögulega gegnum sameiginlegan vettvang sinn.
Öflugt eftirlit
Nefndin fagnar þróun í átt að áhættumiðuðu eftirliti og leggur áherslu á að staðið verði vörð um öflugt og skilvirkt Fjármálaeftirlit á Íslandi. Mikilvægt er að eftirlitið sinni jafnt hlutverki sínu sem leiðbeinandi og lögregla á fjármálamarkaði. Þá er mikilvægt að tíðni eftirlits sé með þeim hætti að unnt sé að greina þróun á áhættutöku í bankakerfinu yfir skemmri tímabil. Þá veltir nefndin upp hvort ástæða geti verið til að styrkja neytendamál á fjármálamarkaði með því að skilja þau frá Fjármálaeftirlitinu.
Gagnsæi
Nefndin fagnar aukinni upplýsingagjöf á fjármálamarkaði, en telur að gera megi enn betur, ekki síst af hálfu þeirra sem sinna eftirliti með markaðnum, til að auka gagnsæi. Nefndin leggur til að eftirlitsaðilar matreiði lykilupplýsingar um fjármálakerfið og birti þær 3-4 sinnum á ári. Ekki verði látið nægja að birta nýútkomnar skýrslur í heild sinni, heldur séu dregin fram helstu atriði sem eftirlitsaðilar vilja leggja áherslu á hverju sinni og sett fram á formi sem er auðskilið bæði fyrir fjölmiðlamenn og almenning. Æskilegt er að eftirlitsaðilar eigi í góðu samstarfi við fjölmiðla um reglulega birtingu slíkra upplýsinga, í þeim tilgangi að auka aðhald í kerfinu í heild. Þá leggur nefndin til að gagnsæi verði aukið varðandi skuldsetningu viðskiptamanna.
Fyrirbyggja hagsmunaárekstra
Nefndin beinir því til stjórnvalda að skoða nánar leiðir til að fyrirbyggja hagsmunaárekstra, m.a. í þeim tilgangi að armslengdarsjónarmið séu ávallt viðhöfð í viðskiptum milli starfssviða. Þá getur verið ástæða til að skoða sérstaklega rekstur á sjóðastýringarfyrirtækjum innan veggja fjármálafyrirtækja með það að markmiði að skerpa á óhæði slíkra félaga.
Fjártækni
Nefndin fagnar aukinni umræðu á íslenskum fjármálamarkaði um fjártækni (e. fin-tech). Til að undirbúa sig undir slíka samkeppni geta bankar tekið frumkvæði í að innleiða nýja tækni, eins og merkja má nú þegar. Þá er mikilvægt að regluverkið skapi eðlilegt svigrúm fyrir nýja aðila á því sviði, án þess að missa sjónar á fjármálastöðugleikanum.
Takmörkun hátíðniviðskipta
Nefndin telur ástæðu til að setja í íslensk lög ákvæði um takmörkun hátíðniviðskipta hér á landi.
Fjármálamarkaður og samkeppnislög
Nefndin leggur til að í næstu heildarendurskoðun á lögum um fjármálafyrirtæki verði hugað sérstaklega að samspili þeirra við samkeppnislög, með það að markmiði að stuðla að virkri samkeppni og auka samkeppnishæfni fjármálamarkaðarins