Loksins, loksins … hefur eflaust einhverjum hrotið af munni þegar þríeykið Angela Merkel, Martin Schulz og Horst Seehofer mættu heimspressunni í anddyri Konrad-Adenauer-Haus, höfuðstöðva Kristilegra demókrata (CDU), skammt frá íslenska sendiráðinu í Berlín, á miðvikudagsmorgun. Eftir margframlengdar samningaviðræður sem enduðu á 27 klukkustunda maraþonfundi gátu þau tilkynnt að niðurstaða væri fengin um stjórnarmyndun, Stóra bandalagið, GroKo, yrði að veruleika. Því til sönnunar lögðu þau fram 177 blaðsíðna samkomulag.
Og þó, sýnd veiði en ekki gefin. Þótt stjórnarmyndunin hafi nú varað í vel á fimmta mánuð verða Þjóðverjar enn að bíða í þrjár vikur eftir að ný stjórn taki formlega til starfa. Samkomulagið sem langþreyttir leiðtogarnir sýndu heiminum stoltir bíður þess nú hvort tæplega hálf milljón félaga í flokki þýskra jafnaðarmanna, SPD, samþykki það eða felli í allsherjaratkvæðagreiðslu sem tekur sinn tíma. Það verður því kominn mars þegar þeir geta kvatt starfsstjórnina sem stýrt hefur landinu síðan í september.
Útkoman úr þessari atkvæðagreiðslu er síður en svo gefin. Jafnaðarmenn hafa verið afskaplega tvístígandi eftir kosningarnar sem voru þeim ekki sérlega hagstæðar. Martin Schulz formaður brást ókvæða við úrslitunum og sagði best fyrir flokkinn að sleikja sárin í stjórnarandstöðu og ná vopnum sínum fyrir næstu kosningar. Forseta lýðveldisins tókst að hafa flokksbróður sinn ofan af því, en þá tók við virk andstaða, ekki síst ungra jafnaðarmanna, gegn þátttöku flokksins í því að endurreisa stjórn Merkel. 600 manna flokksstjórn kaus um áframhald viðræðna fyrir tæpum mánuði og samþykkti með semingi.
Um hvað var samið?
En hvað er það sem þýskir kratar þurfa nú að taka afstöðu til? Mér sýnist blaðamenn hér vera nokkuð sammála um að Schulz hafi uppskorið meira en almennt var talið líklegt að hann gerði. Margt í stefnuskránni er kunnuglegt því rétt eins og á Íslandi ríkir hér húsnæðisvandi og heilbrigðiskerfið glímir við ásælni einkarekstrarins. Í húsnæðismálum er uppi svipuð staða og heima: hægriöflin hafa engan áhuga á að aðstoða aðra en þá sem vilja kaupa sér húsnæði eða hagnast á að byggja það. Þess vegna telst það til tíðinda að krötum tókst að þrýsta kristilegum til þess að lofa fjárfestingum í leiguhúsnæði og að styrkja stöðu leigjenda. Hins vegar gekk þeim ekki eins vel að hamla gegn vexti einkarekinna sjúkratrygginga á kostnað þeirra opinberu.
Í málefnum flóttamanna náðist samkomulag um að setja þak á fjölda þeirra sem fá hæli og flokkarnir gerðu málamiðlun um sameiningu fjölskyldna flóttamanna. Hængurinn við það samkomulag er að ráðherrann sem á að framfylgja stefnunni er formaður flokks kristilegra í Bæheimi, áðurnefndur Horst Seehofer, en hann hefur mjög lítinn áhuga á að flóttamönnum fjölgi í landinu.
Það er þó einkum skipting ráðuneyta sem talin er jafnaðarmönnum hagstæð. Þeir fá tvö stór ráðuneyti, halda utanríkisráðuneytinu og taka við fjármálaráðuneytinu. Ljóst er að þeim tíðindum verður tekið fagnandi í Aþenu því Grikkir losna þar með við sinn helsta fjandmann í fjármálaviðreisn sinni, Wolfgang Schäuble sem lét af starfi fjármálaráðherra og var kosinn forseti þingsins þess í stað. Jafnaðarmenn hafa aðra stefnu en hann, leggja meiri áherslu á jöfnuð og að halda uppi lífskjörum í Grikklandi en að þýskir bankar endurheimti hverja evru sem þeir telja sig eiga útistandandi þar syðra.
Ekki lengur án umboðs
Kannski verður það þó feginleikinn yfir því að loksins sé ný stjórn í augsýn sem ræður ferðinni hjá jafnaðarmönnum eins og mörgum öðrum, bæði innan og utan Þýskalands. Þýskir stjórnmálamenn hafa ekki getað beitt sér eins og þeir vildu vegna stöðunnar heima fyrir. Starfsstjórn getur það einfaldlega ekki, hana skortir umboð. Þessa hefur séð stað í stjórnmálum álfunnar og heimsins, ekki síst á vettvangi Evrópusambandsins þar sem margir eldar hafa logað að undanförnu. Menn sakna Merkel í umræðum um flóttamannavandann. Lýðræðisþróunin hefur líka verið öfugsnúin í næstu nágrannaríkjum Þýskalands í austurhluta álfunnar, ekki síst í Póllandi. Þjóðverjar hafa eins og margir aðrir Evrópubúar fylgst furðu lostnir með tilraunum Breta til þess að losa sig út úr ESB. Svo hefur Emmanuel Macron sætt lagi og stolið senunni í pólitískri fjarveru Þjóðverja.
Það síðastnefnda hefur ekki síst gert sig gildandi eftir að franski forsetinn setti fram tillögur sínar um róttækar endurbætur á stjórnsýslu ESB og þó einkum Evrusvæðisins. Þar hafa menn beðið eftir viðbrögðum þýsku stjórnarinnar sem hafa látið á sér standa. En nú eru þau komin og einhver kallaði þau Macron-Lite, þ.e. útþynnta útgáfu af fyrirmyndinni. Þýska stjórnin vill ekki ganga jafnlangt og Macron í því að setja Evrusvæðinu strangari reglur, svo sem að aðildarríkjum þess verði gert að lúta sameiginlegri fjárlagagerð. Þeir hafa hins vegar tekið vel í ýmsar tillögur franska forsetans og segjast reiðubúnir að leggja fram aukið fé til Evrópusamstarfsins. Jafnframt hafa þeir tekið undir kröfur um auknar fjárfestingar á vegum ESB og benda á að þær megi kosta með aukinni skattlagningu á hin vel stæðu og vellauðugu tölvufyrirtæki Apple, Google, Facebook og Amazon sem hafa gerst sek um að smeygja sér undan skattgreiðslum í ríkjum ESB.
Nýir straumar í ESB
Í þessu sambandi verð ég að segja að umræðan um Evrópusamstarfið hér í Þýskalandi er ansi ólík því sem maður á að venjast uppi á Íslandi. Hér gera menn ýmsar athugasemdir við einstaka þætti í starfsemi Evrópusambandsins en engum dettur í alvöru í hug að leggja það niður eða draga sig út úr því. Á Íslandi er oft talað um að ESB sé í kreppu út af þessu eða hinu málinu en menn átta sig ekki á því að tilgangurinn með starfsemi þess er að takast á við kreppur og erfiðleika í samskiptum ríkja, fyrirtækja og félaga. Þetta er ekki bandalag um kyrrstöðu og logn heldur um að takast á við veruleikann í öllum hans myndum.
Þess vegna hefur það valdið ýmsum erfiðleikum að stærsta aðildarríkið skuli ekki geta beitt sér sem skyldi í þessu nauðsynlega samstarfi. Þetta skilja meira að segja popúlistarnir í Alternativ für Deutschland sem nú eru orðnir stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn á þýska þinginu. Þeim dettur ekki í hug að berjast gegn tilvist ESB þótt þeir vilji ýmsu breyta í samstarfinu. Umræðan hér í Þýskalandi snýst um það hversu þétt og náið samstarfið eigi að vera eins og sást vel í grein eftir þýska fræðikonu sem birtist í The Guardian nú í vikunni. Hér hefur hugmyndin um sambandsríki Evrópu notið vinsælda en þessi ágæta kona, Ulrike Guérot, vill ganga skrefinu lengra og stofna Lýðveldið Evrópu.
En sumsé, nú er Merkel komin aftur á stjá og með henni verða tveir öflugir Evrópukratar: Sigmar Gabriel í utanríkismálunum og Olaf Scholz frá Hamborg sem að öllum líkindum verður fjármálaráðherra. Saman geta þeir haft veruleg áhrif á þróun ESB og Evrusvæðisins í krafti embætta sinna. Það má því vænta nýrra áherslna í ESB-pólitík Þjóðverja með þessari nýju samsteypustjórn.
Enn er þó óvissan nokkur því eftir að stjórnarmyndunin var í höfn kom upp ágreiningur innan SPD um þá ákvörðun Martin Schulz að taka við embætti utanríkisráðherra. Hann var minntur á þá yfirlýsingu sína að afloknum kosningum að hann myndi aldrei framar taka sæti í stjórn undir forystu Merkel. Það endaði með því að hann dró sig til baka og Sigmar Gabriel heldur því embætti eins og útlitið er núna. Hvort þessar deilur hafa áhrif á flokksmenn þegar þeir greiða atkvæði um framhaldið skal ósagt látið, en þó er ljóst að þær hafa ekki dregið úr andófi ungkrata gegn stjórnarmynduninni.
En þetta kemur allt í ljós og nú geta Þjóðverjar hellt sér af krafti í karnivalið sem byrjar um helgina og endar á öskudaginn. Þar verður mikið sungið af skelfilegri tónlist.