Það verður ekki annað sagt um Donald J. Trump, Bandaríkjaforseta, en að hann láti hendur standa fram úr ermum, þegar kemur að því að uppfylla loforð um að setja á verndartolla fyrir bandarísk fyrirtæki og bandarískan efnahag. Hvort þeir séu skynsamlegir, og muni á endanum gagnast bandarísku efnahagslífi, er svo annað mál.
Hann margítrekaði í kosningabaráttu sinni árið 2016 að Bandaríkin þyrftu að endurskoða utanríkisverslun sína og þátttöku sína í alþjóðasamstarfi og fjölþjóðlegum fríverslunarsamningum.
Stál í ál í stál
Nýjasta útspilið í þessum efnum hefur fallið í grýttan jarðveg á markaði í Bandaríkjunum. Það eru tollar á innflutning á stáli og áli, en Trump sagði sjálfur þegar tilkynnt var um þessar aðgerðir, að þær myndu skapa störf í Bandaríkjunum og leiða til þess að bandarísk fyrirtæki gætu eflt viðskipti sín, meðal annars við bílaframleiðendur í landinu sjálfu.
Um 25 prósent tollur verður lagður á innflutt stál og 10 prósent á ál. Þessar aðgerðir eru risavaxnar á flesta mælikvarða, og hafa þegar komið fram mikil mótmæli frá öðrum markaðssvæðum, eins og í Evrópu og Asíu.
Óttast versnandi samkeppnisstöðu
En hvers vegna hafa einnig heyrst áhyggjuraddir í Bandaríkjunum?
Ýmis fyrirtæki sem nota stál og ál við framleiðslu sína, t.d. í bíla- og flugvélaiðnaði, óttast að tollarnir leiði til þess að samkeppnishæfnin skaðist.
Þrátt fyrir að allt, þá er iðnaður í Bandaríkjunum að miklu leyti háður framleiðslu frá öðrum löndum þegar kemur að áli og stáli. Sé horft til síðustu tíu ára þá hefur munurinn orðinn mestur um sexfaldur, það er að sexfalt meira af stáli og áli hefur verið flutt til Bandaríkjanna heldur en frá þeim. Að meðaltali er munurinn um fjórfaldur.
Þessar aðgerðir Trumps nú beinast ekki síst að Kínverjum, en málmiðnaðurinn hefur vaxið gríðarlega hratt þar á undanförnum árum, og hefur sala þaðan verið sífellt umfangsmeiri, meðal annars til Bandaríkjanna. Kínverjar segjast ekki hafa áhuga á tollastríði við Bandaríkin, láta þó fylgja, að ef fari svo að hagsmunir Kína séu skaðaðir, þá verði slíkum aðgerðum svarað.
Trump hefur sagt, að næst geti bílaframleiðendur í öðrum löndum, í Evrópu og Asíu, fengið að finna fyrir tollum og ýmis konar höftum. Með það að markmiði að styrkja bílaiðnaðinn heima fyrir.
Last week Trump sparked a trade war by putting tariffs on Steel and Aluminum. The EU has already announced counter tariffs
— Brian Krassenstein🐬 (@krassenstein) March 4, 2018
Do you guys know what one of the main causes of the GREAT DEPRESSION was?
A TRADE WAR!
Mark this tweet. Our economy will be much worse off in 18 months
Óbein áhrif á Íslandi?
Í ljósi þessa geti hinir nýju tollar haft mikil áhrif á bandarískt efnahagslíf, og einnig á heimsmarkaðinn. Óbein áhrif á Íslandi gætu komið fram í gegnum þróun heimsmarkaðsverðs áls, þó erfitt sé að segja til um hver þróunin verði.
Almennt er því spáð að eftirspurn eftir áli muni vaxa töluvert á næstu árum, en megnið af áli sem framleitt er á Íslandi fer til kaupenda í Evrópu.
We are on the losing side of almost all trade deals. Our friends and enemies have taken advantage of the U.S. for many years. Our Steel and Aluminum industries are dead. Sorry, it’s time for a change! MAKE AMERICA GREAT AGAIN!
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) March 5, 2018
Hergagnaframleiðendur ósáttir
Á meðal þeirra sem eru ósáttir við þessar aðgerðir Trumps og stjórnar hans, eru hergagnaframleiðendur, en þeir telja að hækkun tollanna geti leitt til kostnaðarhækkana og erfiðleika í rekstrinum. Í versta falli færist viðskipti annað, sem síðan muni fækka störfum og leiða til verri vandamála.
Trump heldur sig þó við þessa sýn; Bandaríkin verða að ná vopnum sínum með því að beita tollum og höftum, til að „vernda“ störf í heimalandinu og örva bandaríska hagkerfið. Hann telur þessa nálgun á efnahagsmálin vera þá skynsamlegustu, hvað sem aðrir hafa um það að segja.