Stjórnarandstaðan gerir nú sitt ítrasta til að fá það í gegn að kosið verði um vantraust á Sigríði Á. Andersen dómsmálaráðherra í dag. Þetta herma heimildir Kjarnans. Þingfundur mun hefjast klukkan 13.30. Ljóst er að riðla þarf dagskránni eitthvað til að svo megi verða.
Ríkisstjórnarflokkarnir hafa sjö manna meirihluta á þingi nú þegar kosið verður um vantrauststillögu Samfylkingarinnar og Pírata á hendur Sigríði. Þingflokkar Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar eru með 35 menn á þingi en stjórnarandstöðuflokkarnir 28.
Munu Rósa og Andrés styðja vantraustið?
Allra augu beinast að þingmönnum Vinstri grænna, þeim Rósu Björk Brynjólfsdóttur og Andrési Inga Jónssyni, sem studdu ekki myndum ríkisstjórnarinnar og styðja þannig ekki ríkisstjórnarsamstarfið. Samkvæmt heimildum Kjarnans vonast stjórnarandstöðuflokkarnir til að þau tvö muni ekki leggjast gegn vantrauststillögunni.
Ljóst er hins vegar að það mun ekki vera nóg, til þess að fá meirihluta fyrir tilögunni þurfa fleiri þingmenn meirihlutans að sitja hjá í atkvæðagreiðslunni eða styðja hana.
Jafnvel þótt þau tvö myndu styðja vantrauststillöguna, og öll stjórnarandstaðan líka, þá myndi það ekki duga til þess að fá hana samþykkta. Til þess þarf líkast til tvo stjórnarþingmenn til viðbótar til að kjósa með henni. Hjáseta mun ekki duga.
Brynjar og Svandís telja sig ekki vanhæf
Þá vekur það augljóslega athygli að tveir þingmenn ríkisstjórnarinnar eru nátengdir því máli sem vantrauststillagan snýst um, þau Brynjar Níelsson og Svandís Svavarsdóttir. Brynjar er eiginmaður Arnfríðar Einarsdóttur, Landsréttardómara, sem Sigríður Á. Andersen skipaði þrátt fyrir að vera ekki meðal þeirra sem dómnefnd taldist hæfasta til starfanna.
Þá er Ástráður Haraldsson fyrrverandi eiginmaður Svandísar og barnsfaðir, en hann er einn þeirra sem hlaut ekki embætti við Landsrétt, þegar meðal annarra Arnfríður var tekin fram fyrir hann, þrátt fyrir að Ástráður væri talinn meðal þeirra hæfustu til að verða Landsréttardómari. Ástráður vann dómsmál gegn ríkinu í Hæstarétti vegna brota Sigríðar á stjórnsýslulögum og fékk dæmdar miskabætur.
Bæði Brynjar og Svandís stigu til hliðar við afgreiðslu málsins þegar dómararnir voru skipaðir, en á þeim tíma sátu þau bæði í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, vegna vanhæfis og voru hvorugt viðstödd atkvæðagreiðsluna þegar greitt var um þá atkvæði í þinginu. Nú er spurningin, munu þau vera fjarverandi þegar kosið verður um vantraustið, sitja hjá eða kalla inn varamenn.
Í samtali við Kjarnann segjast þau bæði ætla að taka þátt í atkvæðagreiðslunni nú. Brynjar segist fljótt á litið enga annmarka sjá á því og mun bara kjósa eftir sinni bestu sannfæringu. „Annars hef ég bara ekkert velt því fyrir mér, þetta er bara nýkomið en svona fljótt á litið fyndist mér annað fráleitt,“ segir Brynjar.
Svandís segist einnig ætla að taka þátt í atkvæðagreiðslunni. „Þetta varðar ekki skipan dómara í Landsrétt heldur vantraust á ráðherra í ríkisstjórn sem ég á sæti í.“
Vinstri græn þurfa að styðja Sigríði
Ljóst er að málið er allt saman hið erfiðasta fyrir Vinstri hreyfinguna - grænt framboð. Einn fyrrverandi varaþingmaður flokksins og framkvæmdastjóri, Drífa Snædal, sagði sig úr flokknum þegar ríkisstjórnin var mynduð. Við það tilefni sagði Drífa að samstarf við Sjálfstæðisflokkinn verði eins og að éta skít í heilt kjörtímabil.
„Þá verður VG í þeirri stöðu að verja samstarfsflokkinn og mörkin munu sífellt færast til í samstarfinu líkt og í ofbeldissambandi. Þetta verður eins og að éta skít í heilt kjörtímabil, ef stjórnin endist svo lengi. Með ákvörðuninni um stjórnarviðræður setti flokkinn niður, trúverðugleikinn laskaðist verulega og vinstrið á Íslandi mun eiga erfitt uppdráttar næstu árin og áratugina,“ sagði Drífa á Facebook-síðu vinstri grænna.
Með atkvæðagreiðslunni er stjórnarandstaðan að setja upp nokkuð klóka pólitíska skák. Með því að efna til hennar er stjórnarandstaðan að þvinga Vinstri græn til þess að veita Sigríði Andersen pólitískt skjól og ljá henni traust sitt og pólitískan stuðning.
Komi til þess að Hæstiréttur, eða Mannréttindadómstóll Evrópu þegar þar að kemur, komist að þeirri niðurstöðu að Landsréttardómararnir séu vanhæfir til að dæma við dómstólinn á þeim grundvelli að Sigríður hafi staðið rangt að skipuninni er hún komin í afar þrönga stöðu - og ríkisstjórnarflokkarnir, og þá helst Vinsti græn.
Sú niðurstaða myndi setja íslenskt dómskerfi í fullkomið uppnám og veikja pólitíska stöðu allra þeirra sem að málinu hafa komið, og þar með talin Vinstri græn ef þau styðja Sigríði í atkvæðagreiðslunni nú.