Tekjur Ríkisskattstjóra af hlutafélagaskrá og ársreikningaskrá voru 133,7 milljónir króna í fyrra. Verði frumvarp Björns Leví Gunnarssonar, þingmanns Pírata, um að upplýsingar úr hlutafélagaskrá og ársreikningaskrá verði aðgengilegar almenningi án þess að gjald verði tekið fyrir muni því tekjur stofnunarinnar skerðast „verulega“. Þetta kemur fram í umsögn sem embætti ríkisskattstjóra hefur skilað inn vegna frumvarpsins.
Þar segir enn fremur að gera megi ráð fyrir því að margir þeirra aðila sem fram til þessa hafi greitt fyrir upplýsingar úr skránum mun sækja þær upplýsingar gjaldfrjálst verði frumvarpið að lögum. „Samkvæmt framangreindu er því ljóst að fótunum er verulega kippt undan fjármögnun á rekstri fyrirtækjaskrár verði innheimta þjónustugjalda að öllu leyti felld niður. Mun ríkisskattstjóri því verða af miklum rekstrartekjum sem bæta þarf embættinu með aukningu á beinu rekstrarframlagi. Þeirri breytingu á rekstrargrundvelli fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra, sem fyrirhuguð er, má líkja við það að ákveðinn yrði ókeypis aðgangur að söfnum landsins.“
Ríkisskattstjóri segir að ef fyrirhugaðar lagabreytingar fram að ganga þá væri æskilegt að veitt yrði heimild til að setja reglugerð um afmörkun þeirra upplýsinga sem veita ætti gjaldfrjálst aðgengi að og framkvæmd hins rafræna aðgengis. „Hvort heldur átt er við einstakar uppflettingar almennings eða aðgang fyrirtækja að gagnagrunnum eða afritun einstakra skráa vegna úrvinnslu upplýsinga.“
Creditinfo telur gjaldtöku ekki takmarka aðgengi almennings
Í umsögn ríkisskattstjóra kemur fram að 106 milljónir króna af þeim 133,7 milljónum króna sem stofnunin hafði í tekjur af því að selja upplýsingar úr hlutafélaga- og ársreikningaskrá hafi komið frá miðlurum. Þ.e. fyrirtækjum sem kaupa upplýsingarnar og endurselja þær til viðskiptavina.
Stærsta fyrirtækið á þeim markaði er Creditinfo. Það skilaði einnig inn umsögn um frumvarpið. Þar segir m.a. að upplýsingarnar séu fyrst og fremst nýttar af atvinnulífinu. „Kaupendur upplýsinganna eru að langmestu leyti fjármálafyrirtæki, lögmenn, endurskoðendur og aðrir þátttakendur í viðskiptalífinu. Framangreindir aðilar hafa hagsmuni af því að afla upplýsinganna í tengslum við ákvarðanatökur og ekki óeðlilegt að þeir sem nota upplýsingarnar greiði fyrir slíkar upplýsingar með gjöldum sem lögð eru á skv. heimild í lögum, í stað þess að almannafé verði nýtt til að standa straum af kostnaði við rekstur skránna.“
Ekki verði séð að það takmarki aðgang almennings að upplýsingum úr framangreindum skrám að greitt sé sanngjarnt gjald fyrir öflun þeirra að mati Creditinfo, enda sé væntanlega í flestum tilfellum um að ræða öflun á einstaka upplýsingum fremur en að þörf sé á öflun viðamikilla skráa. „Það ætti þó helst við í tilfelli fræðimanna en skoða mætti afhendingu gagna til slíkra aðila sérstaklega, sem þá tilgreindu í hvaða tilgangi þörf væri á viðamiklum skrám, hvernig þær yrðu nýttar og hvernig meðferð persónuupplýsinga yrði tryggð. Magnafsláttur í gjaldskrá væri hugsanlegur í slíkum tilfellum.“
Ein önnur umsögn hefur borist um málið utan þeirra sem ríkisskattstjóri og Creditinfo skiluðu inn. Hún kom frá Alþýðusambandi Íslands (ASÍ). Þar segir að sambandið telji „mikilvægt að einstaklingar og fyrirtæki hafi hindrunarlausan aðgang að þeim upplýsingum sem þessar skrár hafa að geyma og tekur undir þau sjónarmið sem að baki frumvarpinu liggja.“
Lagabreyting skilaði ekki tilætlunum árangri
Í fyrra var samþykkt frumvarp sem sem varðaði aukinn aðgang að fyrirtækjaskrá. Í því fólst að almenningur fékk aðganga að fyrirtækjaskrá án gjaldtöku. Sú lagabreyting fól þó ekki í sér að aðgengi að gögnum þeirrar skrár, sem er að finna í hlutafélaga- og ársreikningaskrá, yrði án gjaldtöku. Því skipti lagabreytingin litlu máli fyrir þá sem þurfa að sækja slíkar upplýsingar starfs síns vegna.
Auk þeirra hópa sem Creditinfo nefndi í sinni umsögn eru þeir sem sækja slíkar upplýsingar meðal annars fjölmiðlar, en í upplýsingum hlutafélaga- og ársreikningaskrár er að finna allar helstu upplýsingar um rekstur og eignarhald fyrirtækja landsins auk upplýsinga um allar breytingar sem verða t.d. í fjármögnun þeirra og stjórnarskipan.