Á árunum 2016 og 2017 ákváðu samtals 3.449 einstaklingar að greiða uppgreiðslugjald til Íbúðalánasjóðs og færa húsnæðisfjármögnun sína annað. Þessi hópur greiddi rúmlega 1.600 milljónir króna í uppgreiðsluþóknanir fyrir þetta til sjóðsins. Það þýðir að meðalgreiðsla þess hóps sem ákvað að greiða uppgreiðslugjaldið á þessu tímabili var 466 þúsund krónur. Þetta kemur fram í svari félags- og jafnréttismálaráðherra við fyrirspurn frá Ólafi Ísleifssyni, þingmanni Flokks fólksins, sem var birt á Alþingi í dag.
Hægt hefur verið að taka lán hjá Íbúðarlánasjóði með skilmálum um uppgreiðslugjöld frá árinu 2000. Mikil aukning varð í töku slíkra lána á árunum 2006 til 2008, þegar gríðarlegur efnahagslegur uppgangur var á Íslandi og sjóðurinn veitti lán fyrir allt að 90 prósent af kaupverði fasteigna. Á þeim þremur árum tóku samtals 9.541 einstaklingar lán hjá Íbúðalánasjóði með uppgreiðslugjaldi. Til samanburðar tók 165 einstaklingar slík lán árið 2005.
Staða Íbúðalánasjóðs breyttist mikið við hrunið og hann hefði farið í greiðsluþrot ef íslenska ríkið hefði ekki lagt honum til tugi milljarða króna. Í dag er hlutverk hans fyrst og síðast félagslegt og sjóðurinn býður ekki upp á samkeppnishæf húsnæðislán. Hámarkslán hjá sjóðnum er 30 milljónir króna, lánið getur numið allt að 80 prósent af verðmæti fasteignar og kjörin eru 4,2 prósent fastir verðtryggðir vextir. Þetta eru ein lökustu lánskjör sem bjóðast á húsnæðislánamarkaðnum í dag og eru auk þess eðlis að þau nýtast t.d. ekki kaupendum á höfuðborgarsvæðinu, þar sem húsnæðisverð hefur tvöfaldast frá byrjun árs 2011 og íbúðir sem kosta undir 30 milljónum teljandi á fingrum annarrar handar.
Þúsundir greiddu upp lán sín
Það breytir því ekki að fjöldi Íslendinga er nú þegar með lánin sín hjá Íbúðarlánasjóði frá gamalli tíð. Haustið 2015 hófu lífeyrissjóðir landsins endurkomu sína inn á húsnæðislánamarkað með miklum hvelli. Þeir buðu betri kjör en bæði bankar og lánastofnanir, hækkuðu lánshlutfall sitt og lækkuðu verulega lántökugjöld. Þessi breyting hleypti nýju lífi í húsnæðismarkaðinn. Í dag eru til dæmis þeir lífeyrissjóðir sem bjóða upp á hagstæðustu lánakjörin upp á verðtryggð lán með breytilegum 2,67 prósent vöxtum. Það eru miklu lægri húsnæðislánavextir en hafa áður þekkst á Íslandi.
Ríkissjóður þyrfti að leggja til viðbótarfjármagn
Í svari ráðherra við fyrirspurn Ólafs segir að enn séu útistandandi 7.533 lán með uppgreiðsluþóknun sem hafi ekki verið greidd upp. Ógjaldfallin uppgreiðslugjöld á lánum séu 5,5 milljarðar króna vegna útlána sem séu alls 93 milljarða króna virði. Í svarinu segir: „Væri uppgreiðslugjald fellt niður mundi sjóðurinn verða af þeim tekjum. Að auki hefði slík ákvörðun væntanlega fordæmisgildi og mætti því gera ráð fyrir að endurgreiða þyrfti þegar greidd uppgreiðslugjöld með vöxtum. Samtals má því ætla að beinn kostnaður sjóðsins vegna niðurfellingar uppgreiðslugjalds yrði að lágmarki átta milljarðar króna. Því til viðbótar yrði óbeint tjón vegna þess að sjóðurinn gæti ekki ávaxtað féð með þeim hætti sem útreikningur uppgreiðslugjaldsins á skaðleysi gerir í raun ráð fyrir, þ.e. með útlánum á 4,2 prósent verðtryggðum vöxtum. Útlán sjóðsins í dag eru óveruleg og má gera ráð fyrir að uppgreiðslur yrðu að mestu ávaxtaðar á skuldabréfamarkaði þar sem vart er hægt að gera ráð fyrir meira en 2,5 prósent meðalraunávöxtun. Óbeint tjón vegna uppgreiðslna nemur því um 1,7 prósent af uppgreiddum lánum á ári.“
Miðað við heildarfjárhæð lána sem bera uppgreiðslugjöld væri árlegt tjón því um 1,6 milljarðar krónaþegar lánin væru að fullu uppgreidd. Beint og óbeint tap sjóðsins næstu fimm árin miðað við stöðuna á markaði í dag yrði því um 16 milljarðar króna.
Því sé „ljóst að rekstur Íbúðalánasjóðs gæti ekki staðið undir framangreindum kostnaði og þar sem Íbúðalánasjóður nýtur ríkisábyrgðar þyrfti tjónið með einum eða öðrum hætti að greiðast af ríkissjóði.“
Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttisráðherra, segir í svari sínu að hann hafi ekki tekið það til skoðunar hvort afnema eigi uppgreiðslugjöld af veittum lánum Íbúðalánasjóðs. Það sé ljóst að einn af stærstu áhættuþáttum í rekstri Íbúðalánasjóðs séu uppgreiðslur lána og með því að afnema uppgreiðslugjöldin myndi sú áhætta aukast og líklegra yrði að ríkissjóður yrði að leggja sjóðnum til viðbótarfjármagn.