Ólögmæti ekki vanhæfi

Dómur Hæstaréttar í Landsréttarmálinu er ekki mjög skýr um hvers vegna ákveðið var að vísa málinu frá. Þeir lögmenn sem Kjarninn hefur rætt við eru ekki á sama máli hvaða skilaboð Hæstiréttur er að senda með niðurstöðu sinni.

Landsréttur
Auglýsing

Hæsti­réttur vís­aði í gær frá dóm­stólum kröfu lög­manns­ins Vil­hjálms H. Vil­hjálms­sonar þess efnis að Arn­fríður Ein­ars­dóttir Lands­rétt­ar­dóm­ari viki sæti vegna van­hæfis á þeim grund­velli að hún hafi ekki verið skipuð með réttum hætti í emb­ætti. Kjarn­inn fjall­aði um nið­ur­stöð­una hér.

­Dómur Hæsta­réttar er ekki með öllu skýr um hvers vegna ákveðið er að vísa mál­inu frá, það er að segja hvað dóm­ur­inn telur ekki nægi­lega skýrt í kröfu­gerð lög­manns­ins, hvaða leið hann hefði þá frekar átt að fara og hver eru þá hin réttu næstu skref í mál­inu.

Þeir lög­menn sem Kjarn­inn hefur rætt við í dag eru ekki á sama máli hvaða skila­boð Hæsti­réttur er að senda með nið­ur­stöðu sinni.

Auglýsing

Dóm­ar­inn ekki per­sónu­lega van­hæfur

Í dómnum segir að þær ástæður sem gefnar eru upp fyrir kröf­unni um van­hæfi inni­haldi ekki neitt af þeim atriðum sem valdið getur van­hæfi eftir lögum um með­ferð saka­mála.

Í lög­unum segir að dóm­ari sé van­hæfur til þess að fara með mál, meðal ann­ars ef fyrir hendi eru „önnur atvik eða aðstæður sem eru fallnar til þess að draga óhlut­drægni hans með réttu í efa.“ Þetta er g-liður 6. gr. laga um með­ferð saka­mála - svo­kallað ruslakistu­á­kvæði - þar sem undir falla ekki sérstæk van­hæfis til­vik, eins og til dæmis ef dóm­ar­inn er skyldur aðila eða teng­ist til dæmis vitni í mál­inu, heldur ein­fald­lega ef ein­hver atvik eða aðstæður geta valdið því að dóm­ar­inn sé ekki hlut­laus í mál­inu.

Vil­hjálmur byggði í mál­flutn­ingi sín­um, bæði í munn­legum mál­flutn­ingi fyrir Lands­rétti og skrif­legri grein­ar­gerð fyrir Hæsta­rétti á þessu ákvæði. Sem sagt að skjól­stæð­ingur hans gæti vegna þess hvernig hún var skipuð dregið óhlut­drægni Arn­fríðar Ein­ars­dóttur í efa.

Hæstiréttur segir hins vegar um þessa 6. grein lag­anna að þau atriði sem þar eru upp tal­in, og engin önn­ur, geti orðið til þess að dóm­ari víki sæti í mál­inu ef aðili telur að eitt­hvert atrið­anna eigi við um dóm­ara og krefj­ist þess. Og telur greini­lega að í þessu máli falli það hvernig staðið var að skipun Arn­fríðar ekki undir ruslakistu­á­kvæð­ið.

Dóm­ur­inn segir að í rök­semdum Vil­hjálms sé hvergi haldið fram nokkru því sem valið gæti eftir 6. grein­inni að lands­rétt­ar­dóm­ar­inn Arn­fríður Ein­ars­dóttir teld­ist van­hæf til að fara með mál þetta og bæri af þeim sökum að víkja sæti í því, „heldur snúa rök­semdir varn­ar­að­ila í hví­vetna að því að ekki hafi verið farið að lögum við skipun þessa dóm­ara.“

Síðan segir Hæsti­rétt­ur: „Jafn­vel þótt á það yrði fall­ist gæti það sam­kvæmt fram­an­sögðu aldrei orðið til þess að krafa varn­ar­að­ila yrði tekin til greina. Hefur hann því í mála­til­bún­aði sínum klætt það álita­efni, sem hann í raun leitar úrlausnar um, rang­lega í bún­ing kröfu um að dóm­ar­inn víki sæti í mál­in­u.“

Þannig hafi úrskurður Lands­rétt­ar, sem var kærður til Hæsta­réttar og nið­ur­staða rétt­ar­ins fjallar um, ekki með réttu snú­ist um ágrein­ing um það efni og geti af þeim sökum ekki átt undir kæru­heim­ild til Hæsta­rétt­ar, sam­kvæmt lögum um með­ferð saka­mála, en þar er kveðið á um það að í 211. gr. að úrskurðir Lands­réttar um hvort dóm­ari við rétt­inn víki sæti í mál­inu skuli sæta kæru til Hæsta­rétt­ar.

Óhag­ræðið aug­ljóst

Vil­hjálmur seg­ist í sam­tali við Kjarn­ann ekki sam­mála for­sendum Hæsta­rétt­ar. „Það er grunn­regla í rétt­ar­fari og að rök og mót­mæli eiga að koma jafn fljótt fram og kostur er. Þess vegna taldi ég rétt að vekja strax athygli á hæf­is­skorti Lands­réttar í máli og gera kröfu um það að dóm­ur­inn yrði rétt skip­að­ur. Sam­kvæmt dómi Hæstiréttar virð­ist sem að það sé þá eng­inn leið til þess að óbreyttum lögum að fá úr því skorið strax hvort að sá dóm­ur­inn sem val­inn er til setu í hverju máli í Lands­rétti sé hæfur og rétt skip­aður heldur þurfi að bíða efn­is­dóms og freista þessu svo að fá þeim dómi hnekkt með áfrýjun til Hæsta­rétt­ar. Óhag­ræðið af þessu er aug­ljóst. Bæði hvað rétt­indi sak­born­ings og skil­virkni rétt­ar­kerfs­ins.“

Vil­hjálmur seg­ist telja að eins og „ruslakistu­á­kvæð­ið“ sé orðað að það sé ákærði og ákærði einn ­sem geti ákveðið það hvort að hann telji að atvik og aðstæður séu með þeim hætti að hann megi með réttu draga óhlut­drægni dóm­ara í efa. Það sé síðan dóm­stóla að skera úr um það hvort þau rök sem ákærði tefli fram til stuðn­ings kröfu sinni eigi að leiða til þess að dóm­ari víki sæti eða ekki og taka þannig efn­is­lega afstöðu til sjón­ar­miða ákærða og seg­ist vera á þeirri skoðun að Hæstirétttur hafi átt að gera það í þessu til­viki.

„Kröfu­gerðin í þessu máli var með hefð­bundum hætti og upp­fyllti öll form­skil­yrði saka­mála­laga. Það er auð­vitað jafn­framt þannig að hér­aðs­dómur kvað upp úrskurð í mál­inu. Úrskurð­ur­inn varð­aði hæfi eins dóm­ara í mál­inu og það er skýrt kveðið á um það í lög­unum að slíkir úrskurðir sæti kæru til Hæsta­rétt­ar. Ákvæðið hljómar reyndar þannig að úrskurðir Lands­réttar um það hvort að ,,dóm­ari Lands­réttar víkji sæti í máli" sæti kæru til Hæsta­rétt­ar. Það má hugs­an­lega velta því upp hvort að Hæsti­réttur sé með þessum dómi að segja að við­kom­andi dóm­ari sé ekki dóm­ari Lands­réttar þar sem hún var ekki skipuð sam­kvæmt lögum og þess vegna sé ekki kæru­heim­ild til stað­ar.“

Vil­hjálmur segir næstu skref verða þau að Lands­réttur boði til flutn­ings þar sem málið verður efn­is­lega flutt. „Síðan kemur dóm­ur. Að honum gegnum þarf að taka afstöðu til hvort að rétt sé að freista þess að áfrýja dóm­inum til Hæsta­rétt­ar. Þar mætti eftir atvikum hafa uppi þá kröfu að dómur Lands­réttar yrði ómerktur þar sem einn dóm­ar­inn sem dæmdi málið hefði ekki með réttu verið hand­hafi dóms­valds. Nú ef Hæsti­réttur synjar um áfrýj­un­ar­leyfi þá er dómur Lands­réttar end­an­leg­ur. Þá er eftir atvikum hægt að skjóta mál­inu til Mann­rétt­inda­dóm­stóls Evr­ópu. En það er síð­ara tíma mál,“ segir Vil­hjálm­ur.

Hljóti að vera mis­tök

Ragnar Aðal­steins­son lög­maður segir í sam­tali við Kjarn­ann að nið­ur­staðan hljóti að vera mis­tök hjá Hæsta­rétti. Hann fær ekki séð að dóm­ur­inn hafi unnið rétt úr kröfu Vil­hjálms, sem geri í sinni kröfu allt sem til þurfi.

„Þeir eru að gefa það í skyn að hann sé bara að leita eftir höggi á dóms­mála­ráð­herra, þegar hann er að útskýra van­hæfis­kröf­una og setja hana í sam­hengi við ákveðna atburða­rás sem varð í sam­fé­lag­inu og mér finnst alveg rétt hjá honum að gera það,“ segir Ragnar

Aðspurður um hvaða skila­boð felist í þessum dómi og hvort þetta þýði að rétta leiðin sé sú að fá efn­is­lega nið­ur­stöðu í mál­inu frá Lands­rétti og gera síðan kröfu um ómerk­ingu fyrir Hæsta­rétti á þeim grund­velli segir Ragnar að það skilji nú þegar hver maður á hvaða grunni lög­mað­ur­inn byggi dóm­kröfu sína.

Það að fara þessa löngu leið sé and­stætt regl­unni um að gera eigi það sem heppi­leg­ast sé í hverju til­viki til að fara stystu leið­ina í rétt­ar­fari en ekki þá lengstu. „Þetta er stysta leiðin og þessi leið er alveg full­kom­lega rétt til þess að leysa úr ágrein­ings­efn­inu að mínu vit­i.“

Ekki van­hæfi heldur ólög­mæti

Arnar Þór Stef­áns­son lög­maður segir að í dómnum sé Hæsti­réttur aðeins að fjalla um van­hæfi í þröngum skiln­ingi þess hug­taks, það er að segja hvort við­kom­andi dóm­ari hafi ein­hver tengsl við aðila máls­ins eða hvort fyrir hendi séu ein­hver atvik sem valdi því að hann sé ekki per­sónu­lega hæf­ur, til dæmis eitt­hvað sem dóm­ar­inn hafi sagt eða gert eða eitt­hvað í þá veru, sem eigi ekki við í þessu til­felli.

„Hæsti­réttur segir ekk­ert slíkt vera fyrir hendi en til að svara spurn­ing­unni um lög­mæti skip­un­ar­innar á við­kom­andi dóm­ur­um, eða gildi þeirrar skip­unar þá verður að leysa úr því undir efn­is­hlið máls­ins og þá undir áfrýj­un. Þar myndi rétt­ur­inn þá fjalla um hvort skip­unin sé ógild eða ógild­an­leg með þeim afleið­ingum að dómur sem við­kom­andi hefur setið í sé í reynd ólög­mæt­ur,“ segir Arn­ar.

Hann segir að það kunni að verða nið­ur­staða Hæsta­réttar að þó að það hafi verið ann­marki á skipun dóm­ar­anna þá sé það ekki endi­lega sjálf­gefið að slíkur ann­marki haggi skip­un­inni sem slíkri. „Þá ertu komin í ógild­ing­ar­fræðin í stjórn­sýslu­rétt­inum og það þarf að svara spurn­ing­unni, hversu alvar­legur þarf ann­marki að vera til að það valdi ógild­ingu á skip­un­inni? Í því efni er það einnig svo að mjög mikið tregðu­lög­mál er í þeim fræðum við því að hagga skip­unum í opin­ber emb­ætti. Einnig yrði horft til ákvæða stjórn­ar­skrár­innar um rétt­láta máls­með­ferð fyrir lög­mætum dóm­stól og að skipun dóms­valds­ins verði ekki ákveðin nema með lög­um.“ Sé það mat Hæsta­réttar að  ann­mark­inn á skip­un­inni sé nægi­lega alvar­legur til að hnekkja skip­un­inni og/eða fyrir sé að fara broti gegn stjórn­ar­skrá yrði dómur sem við­kom­andi dóm­ari sæti í í ómerktur og mál­inu vísað aftur til Lands­réttar tillög­mætrar með­ferðar fyrir rétti­legum skip­uðum dóm­ur­um.

Ef Hæsti­réttur hins vegar taki ekki undir kröf­una þá sjái samt sem áður ekki fyrir end­ann á mál­inu þar sem það sé alveg ljóst að ein­hver lög­maður muni láti á það reyna fyrir Mann­rétt­inda­stól Evr­ópu í Strass­borg og þá út frá ákvæð­inu í mann­rétt­inda­sátt­mála Evr­ópu um rétt­láta máls­með­ferð.

Arnar segir að í raun hvíli skylda á öllum lög­mönnum út frá rétt­ar­rík­is- og réttar­ör­yg­is­sjón­ar­miðum að láta reyna á þessi grunn­at­riði um lög­mæti skip­un­ar­innar og afleið­ingar af hugs­an­legu ólög­mæti.

„Það hafa þegar fallið efn­is­legir dómar í ein­hverjum málum þar sem þessir fjórir ein­stak­lingar eru dóm­ar­ar. Það þarf að láta reyna á þessi prinsip og ég tel að sú skylda hvíli ein­fald­lega á fyrsta lög­mann­inum í röð­inni hvort sem það verður minn ágæti kollegi Vil­hjálmur Hans Vil­hjálms­son, ég eða ein­hver ann­ar, að sækja um áfrýj­un­ar­leyfi á þessum grund­velli og láta reyna á þetta,“ segir Arnar og bætir við að þetta þurfi að ger­ast sem fyrst til að eyða réttaró­viss­unni.

Réttaró­vissan heldur áfram

Nið­ur­staðan er því að öllum lík­indum sú að Hæsti­réttur mun ekki taka afstöðu til þess efn­is­lega hvort aðferðin við skipun dóm­ar­anna fjög­urra við Lands­rétt valdi því að dómar þeirra séu ólög­mætir fyrr en ein­hver gerir kröfu þess efnis við áfrýjun Lands­rétt­ar­dóms.

Með nið­ur­stöðu Hæsta­réttar í gær er ljóst að sú óvissa mun halda eitt­hvað áfram, þó gera megi ráð fyrir að ein­hver innan lög­manna­stétt­ar­innar láti mjög fljót­lega á þetta reyna. Hæsti­réttur mun að öllum lík­indum veita hverjum sem er slíkt áfrýj­un­ar­leyfi ef beðið verður um það á þessum grund­velli.

Eins og áður hefur komið fram gæti nið­ur­staða Hæsta­réttar orðið með þeim hætti að þrátt fyrir þá anna­marka sem rétt­ur­inn hefur þegar gefið út að séu á skip­un­inni valdi það því ekki að dómar sem dóm­ar­arnir fjórir fella séu ólög­mæt­ir. Þá kemur til þess að ein­hver lög­maður fari með slíkt mál fyrir erlenda dóm­stóla. Slíkt ferli gæti tekið hátt í þrjú ár og því hætta á að þessi óvissa muni vara í lengri tíma. Og því má ekki gleyma að fari svo að málið endi fyrir erlendum dóm­stólum sem kom­ist að þeirri nið­ur­stöðu að skip­an­irnar hafi verið ólög­mætar gætu allir þeir dómar sem þessir dóm­arar fella í milli­tíð­inni talist ólög­mæt­ir.

Lagagreinarnar sem deilt er um

59. grein stjórn­ar­skrár­inn­ar: Skipun dóms­valds­ins verður eigi ákveðin nema með lög­um.

70. grein stjórn­ar­skrár­inn­ar: Öllum ber réttur til að fá úrlausn um rétt­indi sín og skyldur eða um ákæru á hendur sér um refsi­verða hátt­semi með rétt­látri máls­með­ferð innan hæfi­legs tíma fyrir óháðum og óhlut­drægum dóm­stóli.

G-lið­ur, 6. greinar laga um með­ferð saka­mála: Dóm­ari, þar á meðal með­dóms­mað­ur, er van­hæfur til að fara með mál ef: fyrir hendi eru önnur atvik eða aðstæður sem eru fallnar til þess að draga óhlut­drægni hans með réttu í efa.

B-lið­ur, 211. greinar laga um með­ferð saka­mál: Úrskurðir Lands­réttar um eft­ir­far­andi sæta kæru til Hæsta­rétt­ar: hvort dóm­ari Lands­réttar víki sæti í máli

Benedikt: Jodie Foster er baráttukona
Stórleikkonan Jodie Foster ætlar sér að endurgera kvikmyndina Konan fer í stríð, sem Benedikt Erlingsson leikstýrði.
Kjarninn 10. desember 2018
Horft til þess að nýta skráðan markað til að selja hluti í ríkisbönkunum
Í Hvítbók stjórnvalda um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið kemur fram að vantraust á fjármálakerfinu sé enn „djúpstætt“. Langan tíma muni taka að ná upp trausti á því á nýjan leik.
Kjarninn 10. desember 2018
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra.
Hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið lítur dagsins ljós
Gott regluverk og öflugt eftirlit, hagkvæmni í bankarekstri og traust eignarhald fjármálafyrirtækja eru þær þrjár meginstoðir sem framtíðarsýn íslensks fjármálakerfis þarf að mótast af.
Kjarninn 10. desember 2018
Sara Dögg Svanhildardóttir
Dýrt húsnæði og há gjöld ýta undir einsleitni
Kjarninn 10. desember 2018
Þögul mótmæli við síðustu þingsetningu
Meirihluti Íslendinga telur það mikilvægt að fá nýja stjórnarskrá
Meirihluti landsmanna segir það mikilvægt að Íslendingar fái nýja stjórnarskrá á yfirstandandi kjörtímabili, samkvæmt nýrri könnun MMR. Konur reyndust líklegri til að segja endurnýjun stjórnarskrár mikilvæga.
Kjarninn 10. desember 2018
Sigþrúður Guðmundsdóttir, Ásmundur Einar Daðason og Ellen Calmon
Efla fræðslu um þjónustu og lagaleg úrræði í þágu kvenna af erlendum uppruna
Konur af erlendum uppruna eru margar hverjar í bagalegri stöðu til að komast úr erfiðum heimilisaðstæðum. Þær kunna margar hverjar ekki tungumálið, þekkja ekki réttindi sín og eru upp á kvalara sína komnar.
Kjarninn 10. desember 2018
Nichole Leigh Mosty
Eitt mikilvægasta skjal tuttugustu aldarinnar og undirstaða frelsis, réttlætis og friðar í heiminum
Leslistinn 10. desember 2018
Uber á leiðinni á hlutabréfamarkað
Bandaríska skutlfyrirtækið Uber stefnir á að skrá félagið á hlutabréfamarkað á næsta ári. Talið er að Uber gæti reynst allt að 120 milljarða dala virði í frumútboðinu. Lyft, helsti samkeppnisaðili Uber, stefnir einnig á skráningu á hlutabréfamarkað.
Kjarninn 10. desember 2018
Meira eftir höfundinnFanney Birna Jónsdóttir
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar