Þingmenn fjögurra stjórnmálaflokka hafa lagt fram beiðni um skýrslu frá Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra um aðkomu og hlutdeild hulduaðila í kosningum til Alþingis. Þeir vilja meðal annars að komist verði að því hverjir stóðu að nafnlausum áróðri í kringum alþingiskosningarnar 2016 og 2017 og kanna tengslin milli þeirra og stjórnmálaflokkanna sem buðu fram til Alþingis.
Í beiðninni er farið fram á að skýrslan muni m.a. kanna hvort stjórnmálaflokkar, sem buðu fram í kosningum til Alþingis 2016, hafi gert grein fyrir framlögum til kosningabaráttu sinnar í formi auglýsingaherferða á vef- og samfélagsmiðlum sem kostaðar voru af þriðja aðila. Einnig er beðið um að mat fari fram á verðmæti þeirra framlaga sem falli undir framangreinda skilgreiningu og ekki var gerð grein fyrir í ársreikningum stjórnmálaflokkanna.
Þá vilja þingmennirnir að skýrslan fjalli um hvort og þá hvernig unnt sé að greina aðkomu og hlutdeild hulduaðila í síðustu tvennum kosningum til Alþingis og hvort og þá hvernig komið verði í veg fyrir nafnlausar kosningaauglýsingar og áróður.
Að lokum er þess óskað að forsætisráðherra taki afstöðu til þess hvernig komið verði í veg fyrir nafnlausar kosningaauglýsingar og áróður innlendra aðila og jafnframt hvernig bregðast megi við hættunni á inngripi erlendra aðila í kosningum á Íslandi.
Fyrsti flutningsmaður tillögunnar er Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar. Auk þessar eru þrír aðrir þingmenn Viðreisnar flutningsmenn ásamt þremur þingmönnum Pírata, Loga Einarssyni, formanni Samfylkingarinnar, og stjórnarþingmanninum Rósu Björk Brynjólfsdóttur, sem situr á þingi fyrir Vinstri græna.
Markmiðið að styrkja lýðræðið
Í greinargerð sem fylgir beiðninni segir að markmið hennar sé að styrkja lýðræðið á Íslandi með því að auka gegnsæi í kosningabaráttu og stuðla að því að öllum verði ljóst hverjir standi að baki kosningaáróðri, hverju nafni sem hann nefnist. Með hulduaðilum í skýrslubeiðninni er átt við aðila sem framleiða og dreifa auglýsingum í þágu eða gegn tilteknum stjórnmálaflokkum eða einstaklingum í skjóli nafnleyndar.
Í skýrslu Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) í kjölfar alþingiskosninganna árið 2017 kom m.a. fram að umboð eftirlitsaðila til eftirlits með ólögmætum og nafnlausum kosningaáróðri á netmiðlum væri ófullnægjandi. Athugasemdir ÖSE eru alvarlegar og renna stoðum undir mikilvægi þessarar skýrslubeiðni.“ Hér að neðan má sjá myndband sem Facebook-síðan Kosningar 2017 lét gera og birta fyrir síðustu þingkosningar.
VG Hverjum treystir þú?Ósvikin loforð eru nánast uppseld hjá VG en þó er eitt eftir sem aldrei verður svikið.
Posted by Kosningar on Thursday, October 27, 2016
Þar segir að leggja þurfi mat á það hvort stjórnmálaflokkarnir sem hag höfðu af herferðunum teljist hafa hlotið framlag sem nemur kostnaði við framleiðslu og dreifingu þeirra og ef svo er, hvort gerð hafi verið grein fyrir þeim framlögum í ársreikningum stjórnmálaflokkanna. „Þá þarf að komast að því hverjir stóðu að áróðrinum og kanna tengslin milli þeirra og stjórnmálaflokkanna sem buðu fram til Alþingis.“
Vilja líka skoða aðkomu erlendra aðila
Í greinargerðinni er sagt að ekki þurfi eingöngu að taka tillit til athugunar kosningaáróður innlendra hulduaðila. Fréttir hafi verið áberandi víða um heim af áróðri hulduaðila og mögulegum tengslum þeirra við valdhafa utan þess ríkis sem áróðrinum er beint að. Þar er verið að vísa til frétta um fyrirtækið Cambridge analytica, sem opinberað hefur verið að hafi beitt ýmsum pólitískum brögðum gegn pólitískum andstæðingum þeirra sem fyrirtækið væri að vinna fyrir, Þá hefur komið fram að fyrirtækið beiti kerfisbundinni dreifingu á umfjöllunum og efni á samfélagsmiðlum, sem gæti náð til hópa sem gætu verið líklegir til að kjósa þann sem unnið væri fyrir. Auk þess nýtti Cambridge analytica sér persónuupplýsingar um 50 milljónir notendur Facebook sem aflað var í gegnum persónuleikapróf í ofangreindum erindagjörðum.
Þingmennirnir segja að full ástæða sé til þess að samhliða mati á hlutdeild og aðkomu innlendra aðila að þingkosningum á Íslandi að í skýrslunni verði lagt mat á hættuna sem lýðræðinu gæti stafað af slíkum herferðum erlendra aðila og tekin afstaða til fyrirbyggjandi aðgerða gegn þeim. „Tjáningarfrelsið er nauðsynlegt allri lýðræðisumræðu og er því rétt að við gerð skýrslunnar verði tekin afstaða til þess hvernig umræddar auglýsingaherferðir rúmist innan þess réttar og þeirra takmarkana sem kveðið er á um í tjáningarfrelsisákvæði 73. gr. stjórnarskrárinnar. Þá er mikilvægt að Alþingi sýni frumkvæði og stuðli að því að forsætisráðherra skoði þessi mál. Til þess verði m.a. fengnir sérfræðingar sem geti greint stöðuna og lagt fram tillögur sem styrkja opið og gegnsætt lýðræðissamfélag.“