Í nýrri skýrslu GAMMA um ferðaþjónustuna, sem Hafsteinn Gunnar Hauksson hagfræðingur ritstýrði, er fjallað ítarlega um stöðu greinarinnar og áhrif hennar í íslenska hagkerfinu.
Margir áhugaverðir fróðleiksmolar um stöðu greinarinnar koma fram í skýrslunni, og eru hér að neðan fimm atriði sem fjallað erum í skýrslunni.
8 = 60 ár Óhætt er að segja að vöxturinn á undanförnum sjö árum hafi verið ævintýri líkastur. Á árunum 2008 - 2016 komu fleiri ferðamenn til landsins en á 60 árum þar á undan, en heildarfjöldi ferðamanna í fyrra var 2,2 milljónir. Árið 2010 komu færri en 500 þúsund ferðamenn, og því hefur fjöldinn margfaldast á skömmum tíma.
Áframhaldandi vöxtur Þrátt fyrir þann mikla vöxt sem hefur verið á undanförnum árum, þá er gert ráð fyrir að hann haldi áfram á þessu ári, samkvæmt spá ISAVIA. Hann verður um 11 prósent á þessu ár, og verður fjöldinn þá kominn á milli 2,5 til 3 milljónir ferðamanna.
Ísland er dýrt Gengi krónunnar gagnvart öðrum myntum hefur styrkst mikið á skömmum tíma, og þar hefur vöxtur ferðaþjónustunnar spilað sína rullu. Mikið innflæði vegna vaxandi umsvifa í ferðaþjónustu hefur gjörbreytt verði þjónustunnar í erlendri mynt. Á þetta er minnst í skýrslunni, og þar talað um margir kannist við ummæli ferðamanna sem kvarta yfir háu verðlagi, jafnvel brjálæðislegu. En á sama tíma dásama þeir landið og náttúru þess.
Ungt fólk að breyta venjum Í formála skýrslunnar fjallar Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands, um þær miklu breytingar sem eru að verða á lifnaðarháttum ungs fólks, meðal annars með auknum ferðalögum. Nefnir hann að Ísland sé, vegna landfræðilegrar stöðu sinni, inn í miðju þessara breytinga. Inn í framtíðina sé ferðaþjónusta orðin að stoðatvinnuvegi, og mikil tækifæri felist í því að framþróa hana fyrir komandi kynslóðir. Tengingar við Asíu séu á næsta leyti, sem geri það að verkum að Íslandi verði sterkur og stór tengipunktur fólks frá Ameríku, Evrópu og Asíu.
Miklar fjárfestingar í pípunum Fjallað er sérstaklega um þá miklu fjárfestingarþörf sem sé fyrir hendi vegni ferðaþjónstunnar. Hún liggur meðal annars í stækkun Keflavíkurflugvallar, en sú framkvæmd er þegar í gangi og heildarumfang er allt að 1,5 milljarðar Bandaríkjadala, eða sem nemur um 150 milljörðum króna. Líklegt er að einkafjárfestar muni koma að þeirri fjármögnun, en nú þegar hefur verið skrifað undir lánasamning við Norræna fjárfestingabankann. Aðrar fjárfestingar eru síðan í vegakerfinu, en álag á því hefur aukist mikið. Sem dæmi má nefna er uppgangur bílaleiga, en umfang þeirra hefur vaxið hratt. Floti bílaleigubíla hefur stækkað um þúsundir á hverju ári.