Hvað?
United Silicon, félag utan um rekstur kísilmálmverksmiðju, var sett í gjaldþrot 22. janúar síðastliðinn. Félagið hafði þá verið í greiðslustöðvun frá því í ágúst 2017.
Um miðjan febrúar náðist samkomulag milli skiptastjóra þrotabús United Silicon og Arion banka um að bankinn fái að ganga að sínum veðum og taka yfir allar helstu eignir félagsins.
Hluthafar og kröfuhafar félagsins hafa þurft að afskrifa stórar upphæðir vegna United Silicon það sem af er þessu ári. Arion banki hefur til að mynda þegar afskrifað 4,8 milljarða króna vegna verkefnisins. Bankinn tók yfir hlutafé í United Silicon og bókfærir virði eignanna á 5,4 milljarða króna. Auk þess eru útistandandi lánsloforð og ábyrgðir upp á um 900 milljónir króna.
Arion banki ábyrgðist rekstur United Silicon frá því að félagið var sett í greiðslustöðvun og fram að gjaldþroti og borgaði um 200 milljónir króna á mánuði vegna rekstur þess á því tímabili.
En fleiri hafa tapað stórum fjárhæðum. Frjálsi lífeyrissjóðurinn, sem fjárfesti 1.178 milljónum króna í United Silicon, hefur fært niður virði þeirra hlutabréfa og skuldabréfa sem sjóðurinn á í félaginu um 90 prósent. Um varúðarniðurfærslu er að ræða, og nemur hún rúmum milljarði króna. Sömu sögu er að segja af Eftirlaunasjóði félags íslenskra atvinnuflugmanna (EFÍA). Þar nemur niðurfærslan einnig 90 prósentum. Lífeyrissjóð starfsmanna Búnaðarbanka Íslands (LSBÍ) fjárfestir einnig í verkefninu. Arion banki rekur alla sjóðina þrjá, starfsfólk bankans gegnir stjórnunarstöðum í þeim og þeir eru til húsa í höfuðstöðvum hans í Borgartúni.
Þá setti lífeyrissjóðurinn Festa 875 milljónir króna í United Silicon. Hann hefur einnig framkvæmt varúðarniðurfærslu vegna verkefnisins.
Af hverju?
Starfsemi kísilverksmiðju United Silicon stöðvuð 1. september í fyrra. eftir að Umhverfisstofnun tók ákvörðun þess efnis. Óheimilt var að endurræsa ofn verksmiðjunnar nema með skriflegri heimild frá stofnuninni að loknum fullnægjandi endurbótum og ítarlegu mati á þeim. Það mat mun, líkt og áður sagði, taka allt að 20 mánuði.
Í bréfi sem Umhverfisstofnun sendi til forsvarsmanna United Silicon föstudaginn 19. janúar kom fram að ráðast þurfi í úrbætur sem kosta um þrjá milljarða króna áður en að verksmiðjan fær að fara í gang að nýju. Í kjölfarið var tekin ákvörðun um að setja félagið í þrot.
Hver var niðurstaðan?
Nýtt félag verður stofnað um starfsemi kísilverksmiðjunnar í Helguvík. Markmið Arion banka er að vinna að úrbótum á verksmiðjunni og selja hana eins fljótt og auðið er. Það mun hins vegar taka 18-20 mánuði að koma verksmiðju United Silicon í Helguvík aftur af stað.
Ljóst er að verksmiðjan verður ekki ræst að nýju fyrr en að vinnu við gerð nýs umhverfismats verði lokið og sú vinna er talin geta tekið þann tíma.
Sjö til átta alþjóðlegir aðilar hafa áhuga á verksmiðjunni en enginn þeirra hefur hug á því að taka hana í sundur og flytja annað. Um aðila úr alþjóðlega kísilmálmsgeiranum er að ræða. Samkvæmt upplýsingum Kjarnans hafa þeir sent teymi hingað til lands til að ræða við t.d. Landsvirkjun og Umhverfisstofnun um stöðu verksmiðjunnar.
En ýmsir aðrir angar málsins eru óhnýttir. Í liðinni viku lögðu stjórnir þeirra lífeyrissjóða sem fjárfest höfðu í United Silicon fram kæru til héraðssaksóknara þar sem óskað er eftir það að embættið taki til rannsóknar nokkur alvarleg tilvik sem grunur leikur á að feli í sér refsiverð brot af hálfu Magnúsar Ólafs Garðarssonar, fyrrum framkvæmdastjóra og stjórnarmanns United Silicon hf., og eftir atvikum annarra stjórnenda, stjórnarmanna og starfsmanna félagsins. Áður hafði stjórn United Silicon og Arion banki, stærsti kröfuhafi félagsins, sent kærur vegna gruns um refsiverða háttsemi Magnúsar til yfirvalda. Þetta var því þriðja kæran sem berst vegna gruns um brot hans.