Hvað?
Um miðnætti 5. mars lögðu tveir stjórnarandstöðuflokkar, Píratar og Samfylking, fram vantrauststillögu á Sigríði Á. Andersen dómsmálaráðherra. Sú gjörð á rætur sínar að rekja í Landsréttarmálinu svokallaða, sem snýst um að matsnefnd um hæfi umsækjenda um dómaraembætti við Landsrétt, nýtt millidómstig, lagði fram tillögu um 15 hæfustu einstaklinganna í fyrravor til að taka við 15 stöðum. Sigríður ákvað að breyta þeirri tillögu og færa fjóra af lista matsnefndarinnar en setja fjóra aðra í staðinn. Í desember 2017 komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að Sigríður hefði brotið gegn stjórnsýslulögum með athæfi sínu í málum sem tveir mannanna sem höfðu verið færðir af listanum höfðuðu. Hinir tveir hafa síðan höfðað bótamál á hendur ríkinu.
Í könnun sem Maskína vann fyrir Stundina kom fram að 72,5 prósent landsmanna vildu að Sigríður segi af sér embætti. Spurt var „Finnst þér að Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra eigi að segja af sér ráðherradómi eða á hún að sitja áfram sem dómsmálaráðherra?“
Af hverju?
Vantrauststillagan kom í kjölfar þess að umboðsmaður Alþingis sendi bréf til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Þar kom fram að hann myndi ekki hefja frumkvæðisrannsókn á málinu í ljósi yfirstandandi umfjöllunar dómstóla og Alþingis um málið. Hann gerði hins vegar nokkrar veigamiklar athugasemdir við málsmeðferðina, meðal annars þá að hann teldi að sá tveggja vikna frestur, sem ráðherra hefur ítrekað borið við að hafi haft áhrif á möguleika hennar til að rannsaka málið, hafi ekki átt við í því tilfelli.
Að auki benti hann sérstaklega á skyldu sérfræðinga ráðuneytisins til að veita ráðherra ráðgjöf, til að tryggja að ákvarðanir hans séu lögum samkvæmt og að öll stjórnsýsla ráðherra og ráðuneytis sé í samræmi við ólögfesta réttmætisreglu stjórnsýsluréttar. Ráðherra hafi í þessu tilviki verið veitt sú ráðgjöf, en minnst þrír sérfræðingar ráðuneytisins ráðlögðu Sigríði ítrekað við því að breytingar á lista Landsréttardómara og sá ófullnægjandi rökstuðningur sem þeim breytingum fylgdi gæti verið brot á stjórnsýslulögum, eins og síðar kom á daginn.
Hver varð niðurstaðan?
Tillagan var tekin fyrir á Alþingi 6. mars. Þar var hún felld. Atkvæði féllu þannig að 33 voru á móti tillögunni, 29 meðfylgjandi og einn sat hjá, Bergþór Ólason Miðflokki.
Tveir þingmenn Vinstri grænna, Rósa Björk Brynjólfsdóttir og Andrés Ingi Jónsson, studdu tillögu um vantraust, en aðrir stjórnarþingmenn voru á móti.
Í kjölfarið hefur því verið haldið fram, meðal annars af varaformanni Sjálfstæðisflokksins, að stjórnarmeirihlutinn telji nú 33 þingmenn en ekki þá 35 sem sitja á þingi fyrir stjórnmálaflokkanna þrjá sem mynda ríkisstjórn.