Hlutabréfamarkaðir um allan heim hafa lækkað að undanförnu og hafa tæknirisar heimsins leitt lækkanirnar.
Í umfjöllun Wall Street Journal kemur fram að fimm af stærstu tæknifyrirtækjunum, sem nefnd hafa verið FAANG-hlutabréf (FAANG-stocks), hafi lækkað um 397 milljarða Bandaríkjadala samanlagt á um þremur vikum, eða sem nemur um 40 þúsund milljarða króna. Facebook, Amazon, Apple, Netflix, og Google (Alphabet) eru félögin sem teljast til hina svonefndu FAANG-hlutabréfa. Þrátt fyrir lítils háttar hækkanir í dag, þá virðist sem áhyggjur fari vaxandi.
En hvað veldur?
Facebook-áhrifin
Þó aldrei sé hægt að segja með vissu til um ástæður lækkana hlutabréfa, þar sem forsendur viðskipta hverju sinni eru margbreytilegar, þá nefnir Wall Street Journal einkum tvær ástæður.
Annars vegar eru það vaxandi áhyggjur fjárfesta vegna starfsemi tæknifyrirtækja þar sem gögn eru meðhöndluð. Þar hafa spjótin ekki síst beinst að Facebook.
Eftir að fjallað var um hvernig fyrirtækið Cambridge Analytica komst fyrir upplýsingar um 50 milljónir notenda, og nýtti í þau í vinnu sinni fyrir kosningar, meðal annars í Bretlandi og Bandaríkjunum, þá hefur mikið vatn runnið til sjávar. Og verðmiðinn á Facebook hefur lækkað um 100 milljarða Bandaríkjadala, um 10 þúsund milljarða króna, á innan við þremur vikum. Það er um 20 prósent lækkun.
Svipaða sögu má segja af öðrum tæknirisum, eins og Amazon og Apple. Þar hefur verðmiðinn lækkað mikið og greinilegt að efasemdir eru nú komnar inn í hug fjárfesta, enda hefur hækkunin á þessum félögum, einkum allt árið 2017, verið ævintýri líkust.
Óttinn er ekki síst sá, að breytt regluverk, þegar kemur að meðferð persónuupplýsinga, muni hefta starfsemi fyrirtækjanna, en þó einkum og sér í lagi Facebook. Þrátt fyrir að Mark Zuckerberg, forstjóri Facebook, hafi boðist afsökunar á því að fyrirtækið hafi ekki staðið sig nægilega vel, þá segir hann að ekkert sé að óttast, og að ávinningurinn af því að tengja fólk saman um allan heim sé óumdeilanlegur.
Trump-áhrifin
Hin ástæðan sem fjallað hefur verið ítarlega um í helstu viðskiptafjölmiðlunum heimsins, undanfarin misseri, er það sem kalla má Trump-áhrifin. Þeim má skipta í tvennt. Annars vegar eru það tolla-áhrifin á markaðinn, en Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur beitt sér fyrir því að Bandaríkin verji störf á heimamarkaði með því að beita tollum á innflutning vara.
.@realDonaldTrump’s trade war is taking a toll on Colorado’s rural communities and our agricultural sector. Read more via @denverpost https://t.co/yigAPjl67h #coleg #copolitics
— COHouseDems (@COHouseDem) March 27, 2018
Á það meðal annars við um stál og ál, en fyrstu hugmyndir eru uppi um 25 prósent toll á innflutt stál og 10 prósent á ál. Undanþágur verða þó vegamiklar, meðal annars og of snemmt að segja til um hvernig þetta verður útfært. Gary Cohn hætti sem efnahagsráðgjafi Trumps vegna ágreinings um tollastefnuna, en Trump hefur þegar boðað mun víðtækari tolla á ýmsar vörur, ekki síst þær sem fluttar eru til Bandaríkjanna frá Asíu, Kína þar helst. Þessu hafa Kínverjar svarað, og óttast fjárfestar að tollastríð - versta martröð hins alþjóðavædda viðskiptaheims - sé skollið á.
Kínverjar og Evrópusambandið hafa þó varað við því að horfið verði frá þeim viðskiptasamningum sem þegar eru í gildi, og hafa hvatt Trump til þess að fara varlega. Óhætt er að segja fjárfestar hafi af þessu áhyggjur. Viðskipti með allar mögulegar vörur - fatnað, heimilistæki, matvörur, húsgögn og bíla þar á meðal - eru undir í þeim aðgerðum sem þegar hefur verið gripið til.
Einn þeirra sem viðraði áhyggjur sínar við fjárfesta, af því að Trump myndi fara í „tollastríð“ til að skapa störf heima fyrir - með þeim afleiðingum að allir myndu tapa - var Seth Klarman, stofnandi og forstjóri Baupost Group, sem meðal annars hefur hagnast verulega á endurreisn íslenska fjármálakerfisins. Í bréfi sem hann sendi fjárfestum í febrúar í fyrra, skömmu eftir að Trump hafði tekið við sem forseti, sagði hann að tollastríð væru dæmd til að enda illa. Það væri raunveruleg hætta á því hagkerfi heimsins myndi sogast inn í erfiðleika vegna þessarar pólitísku stefnu forsetans.
Spjótunum beint að Amazon
Hins vegar eru það síðan Trump-áhrifin af óvild forsetans í garð tæknifyrirtækja, eins og t.d. Amazon. Hún hefur birst í beinum árásum forsetans á fyrirtækið í Twitter-færslum, þar sem hann sakar það um að stunda ómerkilega viðskiptahætti og misnota bandaríska póstinn, UPS. Þá hefur hann sagt að fyrirtækið reyni allt til að borga ekki skatt, og að áróður stofnandans og forstjórans, Jeff Bezos, birtist síðan á síðum Washington Post, sem Bezos á. Þá hefur hann sagt einnig að Amazon sé að stuðla að því að margar búðir séu að loka víða um Bandaríkin.
I am right about Amazon costing the United States Post Office massive amounts of money for being their Delivery Boy. Amazon should pay these costs (plus) and not have them bourne by the American Taxpayer. Many billions of dollars. P.O. leaders don’t have a clue (or do they?)!
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) April 3, 2018
Frá því að Trump hóf að beina spjótum sínum að Amazon, hefur virði félagsins fallið um 100 milljarða Bandaríkjadala, eða sem nemur um 10 þúsund milljörðum króna. Jeff Bezos, sem er ríkasti maður heims, er með eignir sínar að miklu leyti bundnar í bréfum í Amazon en hann á ennþá um 17 prósent hlut í félaginu. Eignir hans hafa rýrnað um 17 milljarða Bandaríkjadala, um 1.700 milljarða króna, frá því að Trump hóf að beina spjótum sínum að Amazon. Bezos hefur ekki viljað tjá sig um gagnrýnina á fyrirtækið.