Á annað hundrað manns hafa nýtt sér úrræðið „Fyrsta fasteign“ frá því að það kom til framkvæmda um mitt ár í fyrra. Sá hópur hefur ráðstafað um 55 milljónum króna til íbúðakaupa á tímabilinu. „Fyrsta fasteign“ stendur þeim til boða sem eru að kaupa sína fyrstu íbúð. Samkvæmt úrræðinu geta þeir nýtt séreignarlífeyrissparnað till að safna fyrir innborgun á fyrstu íbúðarkaup eða greitt inn á höfuðstól húsnæðisláns. Alls er heimilt að ráðstafa að hámarki 500 þúsund krónum á ári í mest tíu ár með ofangreindum hætti samkvæmt skilmálum „Fyrstu fasteignar“.
Þegar úrræðið var kynnt í Hörpu um miðjan ágúst 2016 af þáverandi ráðamönnum þjóðarinnar kom fram í glærukynningu að um 50 milljarðar króna myndu rata í inngreiðslur á húsnæðislánum vegna „Fyrstu fasteignar“ á tíu árum eftir að úrræðið tæki gildi. Þegar níu mánuðir af tímabilinu eru liðnir þá hefur 0,1 prósent af þeirri upphæð sem ráðamenn sögðu að myndu fara í að greiða niður húsnæðislán undir hatti úrræðisins farið í það.
Samkvæmt upplýsingum frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu hafa um fimm þúsund umsóknir til viðbótar borist um þátttöku í úrræðinu sem enn á eftir að vinna úr. Ekki hafa fengist skýringar á því af hverju slíkt magn af umsóknum hefur safnast upp.
Einblíndu á efri mörk greiningar
Þeir sem nýta sér séreignarlífeyrissparnað til að greiða niður húsnæðislán sitt samkvæmt úrræðum sem stjórnvöld hafa innleitt á undanförnum árum fá tvöfaldan ávinning.
Þegar frumvarpið um „Fyrstu fasteign“ var lagt fram sagði í greinargerð þess að umfangið gæti náð til 4.300 til 15.200 launþega, samkvæmt greiningu Analytica, sem gætu „sparað í séreign árlega 1,3–5,2 milljarða kr. eða um 13–52 milljarða kr. á tíu ára tímabili.“ Sú tala sem Sigurður Ingi Jóhannsson, þáverandi forsætisráðherra, og Bjarni Benediktsson, þáverandi fjármála- og efnahagsráðherra, ákváðu að einblína á við kynningu sína á úrræðinu var 50 milljarðar króna ávinningur á tíu ára tímabili, sem er mjög nálægt efri mörkum greiningarinnar.
Raunveruleikinn sýnir að nýtingin hingað til hefur verið langt frá neðri mörkum hennar og enn lengra fá efri mörkunum. Í stað þess að 1,3-5,2 milljörðum króna hafi verið ráðstafað inn á húsnæðislán með séreignarsparnaði fyrstu íbúðakaupenda þá hefur um 55 milljónum króna verið ráðstafað inn á þau.
15 milljarða skattaafsláttur kynntur
Í kynningunni sem haldin var í ágúst 2016 kom fram að ef 50 milljarðar króna myndu fara í að greiða niður húsnæðislán myndi íslenska ríkið gefa fyrstu fasteignakaupendum 15 milljarða króna í skattafslátt á tíu ára tímabili, myndu þeir kjósa að nota séreignarlífeyrissparnað sinn til að kaupa húsnæði.
Samkvæmt kynningunni áttu um 14 þúsund manns að nýta sér úrræðið á fyrstu árum þess. Þá var lagt upp með að árlega myndu um tvö þúsund manns mætast í hóp þeirra sem eiga kost á því að nýta sér úrræðið.
Ljóst er að hópurinn sem hefur valið að nýta sér leiðina er mun fámennari en stefnt var að og því verður skattafslátturinn væntanlegra mun minni en fram kom í kynningu þáverandi ráðamanna.