Kristján Loftsson, sem hefur verið burðarrásin í hluthafahópi HB Granda í áratugi, fékk á dögunum tilboð í hlut sinn í félaginu sem hann taldi of gott til að hafna því.
Guðmundur Kristjánsson, forstjóri og aðaleigandi Brims, gerði tilboðið í hlutaféð, og voru tilkynningar sendar um það til Nasdaq kauphallar Íslands, eins og greint hefur verið frá.
Það var samtals upp á 21,7 milljarða króna og í 34,1 prósent hlut í HB Granda, en hlutaféð var að mestu leyti Hvals, sem er að miklu leyti í eigu Kristjáns Loftssonar, og félaganna Vogunar og Venusar, og síðan einnig Halldórs Teitssonar. Þeir eiga báðir sæti í stjórn HB Granda.
Yfirtökuskylda myndaðist við þessi viðskipti og er Guðmundi skylt að gera hluthöfum tilboð um kaup á því verði sem um ræðir í viðskiptunum. Yfirtökuskyldan myndast við yfirráð yfir 30 prósent hlut í skráðu félagi.
Verðið í viðskiptunum fyrrnefndu var 16 prósentum yfir þáverandi markaðsgengi félagsins, en strax á fyrsta viðskiptadegi eftir að tilboðið var gert opinbert hækkaði gengi HB Granda um 11 prósent og svo aftur um lítið eitt í gær. Markaðsvirði félagsins hefur aukist um 6 milljarða frá því að tilkynnt var um fyrrnefnd viðskipti.
Þetta eru um margt áhugaverð viðskipti, ekki síst í ljósi þess að þau eru meðal þeirra umfangsmestu frá því að hlutabréfamarkaðurinn var endurreistur fyrir bráðum áratug. Þá verður það að teljast sögulegt að Kristján Loftsson hverfi úr framvarðasveit hluthafa félagsins, eftir áratuga veru þar, en hann mun þó eiga lítinn hlut í félaginu, sem nemur um 10 milljónum króna miðað við núverandi gengi.
Nokkrir hlutir eru forvitnilegir í þessu samhengi.
- Aðrir hluthafar þurfa að fara í gegnum sömu hugsanir og Kristján Loftsson, og velta því fyrir sér hvort þetta er gott tilboð eða ekki. Ekki væri óeðlilegt ef hluthafar myndu ákveða að selja, í ljósi þess að Kristján taldi þetta það gott tilboð, og síðan gætu lífeyrissjóðir landsmanna, sem eru meðal stærstu hluthafa, hagnast verulega á sölunni. Sé sérstaklega horft til lífeyrissjóðanna þá getur einnig verið fýsilegt fyrir þá að vera hluthafar í félaginu áfram, enda rekstrarsaga HB Granda traust og árangursmikil, til langs tíma litið. Lífeyrissjóður verslunarmanna á 13,66 prósent hlut í félaginu og er næst stærstur hluthafa. Samanlagt eiga fjórir lífeyrissjóðir, það er Gildi, LSR og Birta auk Lífeyrissjóðs verslunarmanna, tæplega þriðjungshlut í félaginu.
Stórar spurningar sem þarf að svara
- Ef félagið verður yfirtekið þá þýðir það að Guðmundur þyrfti að fjármagna 65 milljarða viðskipti, og ef það á að vera trúverðugleiki að baki tilboðunum þá þarf að fjármagna þau öll fyrir fram. Viðmælendur Kjarnans sögðu umfang viðskiptanna vera mikið, og að það yrði ekki auðsótt að fjármagna þau, ef margir hluthafar myndu ákveða að selja.
Fjármálaeftirlitið, Samkeppniseftirlitið og Fiskistofa eru nú að skoða þau álitamál sem vakna við þessi viðskipti, er varða áhrifin á lögin sem eftirlitsstofnanirnar hafa eftirlit með. Það er hluti af hinum formlega feril. Mun reyna á hámarkseign í kvóta? Er þetta of mikil samþjöppun samkvæmt samkeppnislögum? Og svo framvegis. Þessum spurningum þarf að svara.
Guðmundur sagði í viðtali við Morgunblaðið að hann væri að fjármagna kaupin á hlut Kristjáns og Halldórs með aðkomu lánastofnanna. Ef það á að vera fullur trúverðugleiki að baki þessum tilboðum í afganginn af hlutafé HB Granda, í ljósi skilyrða um yfirtökuskyldu, þá þyrfti að vera búið að fjármagna yfirtökuna. Ljóst er að það er mikið verkefni að leysa.
Koma ríkisbankarnir að fjármögnun?
- Skattgreiðendur gætu átt töluvert undir, þar sem ríkið á bæði Landsbankann og Íslandsbanka, og raunar um 80 prósent af fjármálakerfinu. Heildarupphæðin, 65 milljarðar, nemur um fjórðungi af eiginfjárstöðu Landsbankans, svo dæmi sé tekið. Erfitt er að segja til um hversu mikil aðkoma lánastofnanna verður en óbeint má segja, að ríkið komi að þessum viðskiptum, það er ef annar hvor þessara banka kemur að fjármögnuninni.
Eigið fé Brims var rúmlega 20 milljarðar í lok árs 2016 og þrátt fyrir háar fjárhæðir og digra sjóði, þá er þetta stór biti. Enda samsvarar yfirtökuupphæðin öllu markaðsvirði VÍS, Tryggingarmiðstöðvarinnar og Origo, sem einnig eru skráð á markað.
Staðan mun hins vegar skýrast á næstunni, og að öllum líkindum fyrir aðalfund félagsins sem fram fer 4. maí. Lífeyrissjóðir eru stórir hluthafar, eins og áður segir, en þeir hafa ekki enn fengið nein tilboð í hluti sína, samkvæmt svörum frá þeim. Væntanlega koma þau innan tíðar, enda tekur tíma að ganga frá málum sem þessum, og fresturinn er 30 dagar frá því yfirtökuskylda myndast.
- Guðmundur hefur ekki hikað við að stækka útgerðarveldi sitt þegar tækifærin til þess koma. Að því leytinu til kemur það ekki á óvart að hann sé að hugsa stórt, en tilkynningin um kaupin kom þó mörgum á óvart, en ekki síst hjá lífeyrissjóðunum.
Guðmundur og aðilar tengdir honum á eiga um þriðjungshlut í Vinnslustöðinni en hann hefur lengi átt í deilum við aðra hluthafa, og neitaði hann að staðfesta ársreikning Vinnslustöðvarinnar fyrir árið 2017, einn stjórnarmanna. Í lok árs 2017 var eiginfjárhlutfall Vinnslustöðvarinnar 32 prósent og greiddi félagið tæplega einn milljarð í arð til hluthafa.