Leigjendum hefur fjölgað um tíu þúsund á sjö árum og fjöldi þeirra nú um 50 þúsund. Það er svipuð tala og sem nemur íbúafjölda í Kópavogi og Akureyri samanlagt, um 14 prósent af íbúafjölda landsins. Algengt er að hlutfallið sé á milli 20 og 30 prósent erlendis.
Að mati Íbúðalánasjóðs mun leigumarkaðurinn halda áfram að stækka á næstu árum, en samkvæmt könnun sjóðsins telja um 85 prósent þeirra sem eru á leigumarkaði að þeir muni halda áfram að vera á honum næsta hálfa árið.
Vantar sárlega íbúðir á markaðinn
Fjölgun íbúða hefur engan veginn haldið í við fjölgun landsmanna, en í fyrra var fólksfjölgunin um tíu þúsund en íbúðum fjölgaði um 1.768. Af þessum tíu þúsund voru um 8 þúsund erlendir ríkisborgarar, en að því er fram kemur í skýrslu Íbúðalánasjóðs eru þeir líklegri til að leigja húsnæði frekar en kaupa.
Íslendingar eru almennt á því að það sé óhagstæðara að leigja en að búa í eigin húsnæði, en 92 prósent aðspurðra telja þetta vera veruleikann.
Una Jónsdóttir, deildarstjóri leigumarkaðsmála hjá Íbúðalánasjóði, segir í tilefni af útkomu skýrslu sjóðsins, þar sem staðan á leigumarkaði er í brennidepli, að leigumarkaðurinn mótist verulega af þeirri staðreynd, að of lítið sé af húsnæði. „Könnunin birtir okkur þá mynd að leigumarkaðurinn glími enn við lítið framboð og að leiguverð sé íþyngjandi hjá stórum hópi fólks. Þessi staða veldur meðal annars því að um 350 manns eru utangarðs og hafa ekki fastan íverustað, 800 háskólanemar eru á bið eftir íbúð hjá Félagsstofnun Stúdenta og 1.600 manns bíða eftir félagslegu húsnæði hjá sveitarfélögunum. Þá má nefna að félagslegum íbúðum hefur fækkað um helming frá árinu 1995. Ein afleiðingin af skorti á húsnæði er að lægri tekjuhóparnir í samfélaginu búa við lítið húsnæðisöryggi og takmarkað fjárhagslegt svigrúm vegna hás húsnæðiskostnaðar. Fólkið á bakvið súluritin í skýrslunni er að stóru leyti fjölskyldufólk sem eyðir um helmingnum af tekjum sínum eftir skatt í leigu. Þá eru öll önnur útgjöld heimilisins eftir. Þessi hópur hefur í raun ekki efni á því að leigja en stritar við að borga leiguna til að missa ekki húsnæðið. Það hefur verið gripið til aðgerða af hálfu stjórnvalda til að hjálpa að þessum hóp. Húsnæðisbætur hafa verið hækkaðar frá áramótum og fleiri hafa sótt um þær fyrstu þrjá mánuði ársins heldur en á sama tímabili í fyrra,“ segir Una.
Markaður einkennst af miklum hækkunum
Ljóst er að hækkun leiguverðs og lítið framboð hefur mest áhrif á viðhorf fólks til leigumarkaðarins. Leiguverð hefur hækkað mikið á undanförnum árum, eða um 82 prósent frá því árið 2011.
Það er í samræmi við hækkun fasteignaverðs á sama tímabili. Þar hefur svo til allt lagst á eitt; aukinn kaupmáttur fólks, gríðarlegur vöxtur í ferðaþjónustu og síðan of hæg uppbygging húsnæðis miðað við fólksfjölgun. Þá hefur ytra umhverfið einnig verið okkur hagfellt, svo sem lágt heimsmarkaðsverð á olíu, en það hefur þó farið hækkandi að undanförnu. Verðbólga hefur því haldist í skefjum, þrátt fyrir mikla spennu í hagkerfinu.
Hún mælist nú 2,8 prósent á ársgrundvelli en verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands er 2,5 prósent og hélst verðbólgan undir því markmiði í fjögur ár.
Verri fjárhagur leigjenda
Fjárhagsstaða leigjenda er verri en hjá þeim sem eiga, að því er könnun Íbúðalánasjóðs leiðir í ljós. Um 44 prósent leigjenda segjast geta safnað sparifé á móti 66 prósent fólks sem býr í eigin húsnæði. Greiðslubyrði vegna leigu er oftar en ekki meiri en hjá fólki sem borgar af lánum í eigin íbúð.
Erfið staða leigjenda er helsta ástæða þess að Íbúðalánasjóður hefur sett sérstakan fókus á leigumarkaðinn og hafið ítarlegar greiningar á honum. Vantað hefur greinargóðar upplýsingar um leigumarkaðinn en með tilkomu sérstakrar leigumarkaðsdeildar innan sjóðsins er hugmyndin að afla gagna til að geta brugðist við vandanum hjá þeim sem standa verst og beint hússnæðisstuðningi hins opinbera á þá staði þar sem þörfin er mest.
Könnun Íbúðalánasjóðs um leigumarkaðinn fór fram í lok febrúar og í byrjun mars. Hún var framkvæmd af Zenter og um var að ræða netkönnun. Úrtakið taldi 2500 einstaklinga, 18 ára og eldri, og svarhlutfall var 58 prósent, að því er segir í skýrslu Íbúðalánasjóðs.