Sautján listar hafa boðað framboð í borgarstjórnarkosningum í Reykjavík sem fram fara þann 26. maí næstkomandi.
Átta framboð, Samfylkingarinnar, Sjálfstæðisflokks, Vinstri grænna, Viðreisnar, Alþýðufylkingarinnar, Höfuðborgarlistans, Sósalistaflokkurinn og Frelsisflokksins, hafa kynnt fullmannaða lista. Sjö til viðbótar hafa kynnt fólk á efstu sætum lista sinna, en það eru Framsóknarflokkurinn, Píratar, Miðflokkurinn, Íslenska þjóðfylkingin, Flokkur fólksins, Borgin okkar - Reykjavík og Kallalistinn. Bæði Kvennaframboðið hefur boðað komu sína sem og Karlaframboð.
Fari svo að allir þessir flokkar eða hópar bjóði fram verður áður óséður fjöldi í framboði. Borgarfulltrúum verður fjölgað úr 15 eftir komandi kosningar í 23 og verða þá rúmlega 5.000 kjósendur á bak við hvern borgarfulltrúa í stað rúmlega 8.000. Alls eru að lágmarki 23 og að hámarki 46 á lista hvers framboðs í Reykjavík. Sautján framboð gera þannig minnst 391 frambjóðendur og mest 782 frambjóðendur. Til samanburðar má nefna að í 36 af 74 sveitarfélögum á landinu eru íbúar færri en 782. Í 19 sveitarfélögum búa færri en 391.
Ekki er hörgull á valkostum fyrir borgarbúa í komandi kosningum. En um hvað snýst þessi kosningabarátta? Hvað eru frambjóðendur að bjóða upp á til að veiða til sín atkvæði og af hverju?
Samgöngumál
Umferðarmálin vega þungt í umræðu um skipulagsmál fyrir þessar kosningar og þá fyrst og síðast afstaða flokkanna til borgarlínunnar svokölluðu. Um er að ræða nýtt og afkastamikið kerfi almenningssamgangna sem sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu undirbúa í sameiningu. Borgarlínan mun ganga eftir samgöngu- og þróunarásum sem verið er að festa í svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins.
Flokkarnir eru með mjög mismunandi afstöðu til borgarlínu. Þeir flokkar sem mynda núverandi meirihluta, auk Viðreisnar, eru allir fylgjandi áframhaldandi þróun og lagningu borgarlínu, á kostnað áframhaldandi uppbyggingar vegakerfisins í þágu einkabílsins. Aðrir flokkar eru annað hvort á móti borgarlínunni og fylgjandi uppbyggingu breiðari vega og mislægra gatnamóta eða hafa ekki kynnt stefnu sína í samgöngumálum. Þó er það þannig að flestir flokkar hafa eflingu almennissamgangna á stefnuskrám sínum, sem þeir aðgreina frá borgarlínu.
Húsnæðismál
Húsnæðisskortur á höfuðborgarsvæðinu hefur umtalsverð áhrif á umræðu í aðdraganda borgarstjórnarkosninganna.
Þétting byggðar eða áframhaldandi uppbygging í úthverfum borgarinnar skiptist nokkurn veginn á svipaðan hátt á milli flokka. Meirihlutinn auk Viðreisnar vilja leggja alla áherslu á áframhaldandi þéttingu byggðar, auk þess að færa flugvöllinn til að koma þar fyrir íbúabyggð. Aðrir flokkar sem hyggja á framboð og hafa áþreifanlega stefnu í skipulagsmálum vilja hægja á þéttingunni og bjóða upp á nýjar lóðir og íbúðir í úthverfum líkt og í Keldum, Úlfarsárdal, Norðlingaholti, Kjalarnesi og í Örfirisey.
Flokkarnir keppast við að lofa hraðri uppbyggingu á komandi kjörtímabili. Sjálfstæðisflokkurinn hefur lofað 2.000 nýjum íbúðum að jafnaði á ári, Höfuðborgarlistinn býður betur og ætlar að byggja 10.000 íbúðir á kjörtímabilinu. Aðrir flokkar lofa einnig auknu framboðið á hagkvæmu húsnæði fyrir ungt og efnaminna fólk.
Skóla- og daggæslumál
Biðlistar í grunn- og leikskólum, frístundaheimilum, auk daggæsluúrræða til að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla hafa vinsælt umkvörtunarefni foreldra í borginni á kjörtímabilinu. Síðasta haust vantaði um 80 stöðugildi í grunnskóla borgarinnar.
Þeir flokkar sem hafa kynnt stefnu sína sérstaklega í skólamálum vilja allir brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla, annað hvort með uppbyggingu dagforeldrakerfisins eða bjóða leikskólapláss fyrir börn frá 12 mánaða aldri.
Flokkarnir ætla að styrkja stöðu kennara og bæta kjör þeirra og starfsaðstæður, bæði á leik- og grunnskólastigi.
Lítill munur virðist vera á stefnu flokkanna þegar kemur að þessum málum, líklegt má telja að trúverðugleiki einstakra flokka eða frambjóðenda muni ráða atkvæðum fólks í þessum málaflokki frekar en stefnumálin sjálf.
Önnur mál
Töluvert er um svokallaða eins máls flokka í þessum kosningunum. Þó að flestir hinna nýju flokka hafi ágætlega breiðar stefnuskrár er ljóst að margir þeirra verða til vegna eins ákveðins máls sem þeir munu leggja alla áherslu á komist þeir til valda.
Sósíalistaflokkurinn er með skýrar sósíalískar áherslur, réttindi hinna vinnandi stétta í borginni verða þar fremst í flokki. Fleiri úrræði fyrir efnaminna fólk, launahækkanir hjá starfsmönnum borgarinnar, uppbygging félagslegs húsnæðis og frekari völd til fólksins. Alþýðufylkingin rær einnig á svipuð mið og vill félagslegan rekstur á öllum innviðum borgarinnar. Flokkur fólksins sem náði manni inn á Alþingi í fyrra er með afar svipaðar áherslur og hefur einnig einblínt töluvert á réttindi barna í borginni og eldra fólks. Munurinn á Flokki fólksins og hinum tveimur virðist þó helst vera skortur á skýrri hugmyndafræðilegri stefnu, eins og sést bæði hjá Sósíalistaflokknum og Alþýðufylkingunni.
Íslenska þjóðfylkingin og Frelsisflokkurinn leggja báðir áherslu á þjóðernishyggju, og berjast gegn alþjóðavæðingu og fjölmenningarstefnu.
Kvennaframboðið leggur eðli málsins samkvæmt allar sínar áherslur á femínísk gildi, án þess að hafa stefnu í málefnum aðskildra hópa. Gera má ráð fyrir að Karlaframboð muni hafa þveröfugar áherslur, en flokkurinn var stofnaður út frá ósætti við málefni fráskyldra feðra.
Samkvæmt nýjustu kosningaspá Kjarnans eiga átta flokkar mesta möguleika á að ná manni inn í borgarstjórn eins og staðan er núna. Það eru Samfylkingin, Sjálfstæðisflokkurinn, Vinstri græn, Píratar, Viðreisn, Miðflokkurinn, Framsóknarflokkurinn og Flokkur fólksins, það er að segja sömu flokkar og eiga fulltrúa á Alþingi. Sú staða gæti auðvitað breyst enda enn um mánuður í kosningar.