Bandaríkin og Kína hafa komist að samkomulagi um að leggja til hliðar - í það minnsta í bili - ágreining vegna viðskiptasambands ríkjanna.
Eitt af stóru loforðum Donalds Trumps Bandaríkjaforseta í forsetaframboði hans var að endursemja um viðskiptasambandið við Kína, og beita til þess tollum til að örva hagkerfið heima fyrir. „Tölum um Kína!“ (Let's talk about China) var algengur frasi hjá honum á framboðsfundum.
Eftir mánaðarlangar samningaviðræður, þar sem háttsettir embættismenn frá löndunum tveimur leiddur viðræðurnar, er það niðurstaðan að þessi mál verði ekki tekin til endurskoðunar í bili, og að engir nýir tollar verði settir á vörur frá Bandaríkjunum til Kína eða frá Kína til Bandaríkjanna.
Steve Mnuchin, fjármálaráðherra, greindi frá þessari niðurstöðu í tilkynningu, en í stuttu máli þýðir hún að Kínverjar fengu sínu fram, þar sem þeir vildu helst engar breytingar, ólíkt Trump og hans stjórn.
Í umfjöllun Vanity Fair segir að tilkynning bandarískra yfirvalda sé í raun fullkominn ósigur, og að orðin í henni þýði í sjálfu sér lítið annað en óbreytt ástand. En fyrir hinn alþjóðavædda viðskiptaheim, þar sem bandarísk fyrirtæki, lítil og stór, eru staðsett, þá séu það góð tíðindi.
Vöxturinn í Kína, sem hefur verið stanlaust á bilinu 6 til 10 prósent á ári í meira en tuttugu ár, þýðir það að Kína mun auka verslun sína við bandarískt hagkerfi, alveg sama um hvað er samið. Brad Setser, sérfræðingur í kínverskum viðskiptum, sem Vanity Fair ræðir við, segir að bandarísk stjórnvöld séu að túlka þessa staðreynd sér í vil, í þessari samningalotu, en í reynd sé þetta einfaldlega staðreynd sem alltaf hefði orðið að veruleika.
Mikill halli
Málflutningur Trumps hefur verið á þá leið, að Kína sé að soga störf frá Bandaríkjunum en það hallar á Bandaríkin um 375 milljarða Bandaríkjadala, jafnvirði um 40 þúsund milljarða króna, í viðskiptum milli landanna.
Fyrstu hótanir Trumps væru þær, að leggja sértæka tolla á ál og stál. Um 25 prósent á ál og 10 prósent á stál, sem innflutt væri til Bandaríkjanna. Þá voru einnig fyrirhugaðir háir tollar á margar aðrar vörur sem voru fluttar til Bandaríkjanna frá Kína, meðal annars heimilistæki.
Kínverjar voru tilbúnir að svara þessu, meðal annars með háum tollum á mat og fatnað sem kemur til Kína frá Bandaríkjunum. Sérstaklega var það matvælaframleiðsla sem hefði fengið á sig mikið högg, og heyrðust strax ramakvein úr ranni bænda og fyrirtækja í matvælaframleiðslu vegna þessara áforma.
Trump segir núna - þvert á það sem hann hefur haldið fram til þessa - og nú geti bændur framleitt matvæli og selt til Kína, eins og mikið og þeir mögulega hafi tíma til.
Under our potential deal with China, they will purchase from our Great American Farmers practically as much as our Farmers can produce.
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) May 21, 2018
Ráðgjafinn hætti
Einn þeirra sem var algjörlega mótfallinn stefnu Trumps í málinu var Gary Cohn, ráðgjafi hans í efnahagsmálum. Hann hætti vegna ágreinings um tollastríðið og sagði einfaldlega alveg mótfallinn þeirri stefnu sem Trump vildi tala fyrir.
Scott Paul, sem leiðir hagsmunasamtökin Alliance for American Manufacturing, segir að niðurstaðan sé mikil vonbrigði fyrir Bandaríkin. Í raun sé þetta algjör ósigur, á meðan Kínverjar séu sáttir með stöðuna. Paul hefur til þessa verið mikill stuðningsmaður Trumps og talað fyrir stefnu hans um að tollastríð sé rétta leiðin til að endurvekja verksmiðjubúskapinn í Bandaríkjunum. Hann hefur gengið gegnum erfiða tíma, á undanförnum árum, einkum mörg af eldri fyrirtækjum Bandaríkjanna í mið- og suðurríkjunum.
Ekki öll nótt úti enn
En þrátt fyrir að ekkert tollastríð sé skollið á, þá er ekki þar með sagt að það geti ekki skollið á. Í tilkynningunni er sérstaklega tekið fram að það sé aðeins verið að slá aðgerðum á frest, og að ekkert verið gert að sinni. Nánari viðræður muni halda áfram með það að markmiði að styrkja viðskiptasamband milli ríkjanna - eins og það er orðað. Sjálfur hefur Trump kennt Obama, og slæmri samningatækni hans, um hvernig fór. Það er ekki í fyrsta skipti sem hann grípur til þess að kenna forvera sínum um það, þegar eitthvað gerist sem ekki er honum að skapi.