Margrét Þórhildur drottning nýtur mikilla vinsælda meðal landa sinna. Hún var aðeins 32 ára þegar hún varð þjóðhöfðingi Dana í janúar 1972, eftir að faðir hennar, Friðrik IX, lést eftir skammvinn veikindi. Fimm árum áður hafði Margrét Þórhildur gifst hinum franska Henri-Marie-Jean André, eins og hann hét fullu nafni, sem eftir giftinguna var nefndur Henrik prins. Þau eignuðust tvo syni, Friðrik f. 26. maí 1968 og Jóakim 7. júní 1969. Margrét Þórhildur er mjög listhneigð og sama gilti um Henrik prins, sem lést 13. febrúar síðastliðinn.
Danir hafa alla tíð haft mikinn áhuga á konungsfjölskyldunni og fylgst grannt með nánast öllu sem hún tekur sér fyrir hendur. Smávægileg atvik verða uppsláttarefni á forsíðum vikublaða og fjölskyldan getur vart brugðið sér af bæ án þess að ljósmyndarar og blaðamenn elti hana á röndum. Frásagnir af fjölskyldunni tryggja söluna. Þeir bræður, Friðrik krónprins og Jóakim prins, voru vart farnir að stíga í fæturna þegar fjölmiðlar fóru að fylgjast með hverju fótmáli þeirra. Athyglin beindist frá upphafi einkum að eldri bróðurnum Friðriki, ríkisarfanum.
Ólíkur foreldrunum
Snemma kom í ljós að Friðrik væri á margan hátt ólíkur foreldrunum. Hann væri ekki jafn áhugasamur um myndlist og bókmenntir en hefði hinsvegar mikinn áhuga dægurtónlist. Snemma kom í ljós áhugi hans á íþróttum og heilsurækt, áhuga sem foreldrarnir hafa alla tíð verið lausir við. Friðrik gekk í Krebs grunnskólann á Austurbrú í Kaupmannahöfn, fékk einkakennslu á Amalienborg og var um eins árs skeið (1982-83) í heimavistarskóla í Frakklandi og lauk stúdentsprófi frá Øregaard menntaskólanum í Hellerup árið 1986. Hann lauk prófi í stjórnmálafræði frá Háskólanum í Árósum árið 1995, lokaritgerð hans fjallaði um stefnu Eystrasaltsríkjanna í utanríkismálum. Skólaárið 1992-93 var krónprinsinn í námi við Harvard háskóla í Cambridge Massachusetts. Gekk þar undir nafninu Frederik Henriksen.
Í þjónustu hersins
Herinn hefur gegnt mikilvægu hlutverki í lífi krónprinsins. Hann hefur þjónaði í Landhernum, Flughernum og Sjóhernum. Af þessum þremur deildum er það sjóherinn sem Friðrik hefur mest dálæti á, í þeim efnum líkist hann móðurafa sínum, sem hafði mikið yndi af siglingum. Friðrik hefur sagt að vera sín í Froskmannsdeild sjóhersins hafi breytt sér og gert sig að þeim sem hann sé í dag. Þetta útskýrir hann í bókinni „Under bjælken“ sem kom út árið 2017. Rithöfundurinn, Jens Andersen, ræddi margoft við krónprinsinn og marga sem til hans þekkja meðan hann vann að gerð bókarinnar.
„Under bjælken“ hlaut mjög góða dóma gagnrýnenda, nafn bókarinnar tengist frásögn Friðriks af verkefni í Froskmannsdeildinni, sem er eins konar sérsveit innan sjóhersins. Friðrik lýsti því hvernig hann og félagar hans, hver í sínu lagi, hefðu átt að leysa af hendi sérlega erfitt verkefni sem lauk á því að komast undir „bjælken“, stóreflis bita á nokkurra metra dýpi í sjónum. „Ég var við það að gefast upp,“ sagði Friðrik „en mér tókst að ljúka verkefninu og það breytti mér, gerði mig að manni.“ Bókin þykir mjög vel skrifuð og gagnrýnendur segja hana lang bestu bók sem skrifuð hafi verið um fjölskylduna á Amalienborg. Hún birti skýra mynd af krónprinsinum, bæði dregna upp af honum sjálfum og vinum, fjölskyldu og samstarfsfólki.
Önnum kafnir foreldrar
Í áðurnefndri bók segir Friðrik að þeir bræður hafi nánast alist upp sem tvíburar, gengu til dæmis í nákvæmlega eins fötum fram að lokum grunnskóla. Foreldrarnir voru önnum kafnir, einkum móðirin, og faðirinn aðhylltist gamaldags uppeldisaðferðir. Krónprinsinn minntist á þetta í ræðu sem hann hélt í silfurbrúðkaupi foreldra sinna árið 1992, þar sagði hann „Papa, man siger, at den man tugter, elsker man. Vi har aldrig tvivlet paa din kærlighed.“ Löngu síðar var hann beðinn að útskýra þetta, hvort Henrik hefði t.d. flengt þá bræður. „Nei, það hefði aldrei hvarflað að honum, en hann hvessti sig þegar honum þótti ástæða til og við höfðum gert eitthvað sem honum fannst ekki í lagi.“
Bræðurnir hafa báðir margoft lýst því að þegar þeir voru ungir hefðu þeir gjarna viljað verja meiri tíma með foreldrunum. Þau Margrét og Henrik hafa líka iðulega talað á sömu nótum.
Dönsku glansmyndatímaritin voru á sínum tíma óþreytandi við að greina frá öllu, stóru og smáu, varðandi prinsana. Grannt var fylgst með hverja þeir umgengust, ekki síst eftir að þeir komust á þann aldur að geta farið út að skemmta sér. Þegar litið er yfir samantekt á umfjöllun fjölmiðla sést að iðulega hafa þeir „gert úlfalda úr mýflugu“ varðandi þá bræður. Áður en krónprinsinn kynntist Mary, eiginkonu sinni, hafði hann átt nokkrar danskar vinkonur „kærester“.
Vinkonurnar bera krónprinsinum vel söguna en þau Margrét og Henrik fylgdust grannt með kvennastússi þeirra bræðra og náinn fjölskylduvinur hefur sagt að aldrei hafi komið til greina að þeir myndi giftast dönskum stúlkum. Ekstrablaðið sá einu sinni ástæðu til að nefna það að kannski ætti krónprinsinn að afsala sér krúnuarfinum, þá hafði hann verið farþegi í bíl sem vinkona hans ók og þegar lögreglan stöðvaði bílinn reyndist vinkonan vera með áfengi í blóðinu. Báðir bræðurnir hafa verið teknir fyrir of hraðan akstur, oftar en einu sinni.
Mary kemur til sögunnar
Á Olympíuleikunum í Sydney í Ástralíu árið 2000 kynntist Friðrik stúlku, Mary Donaldson að nafni. Þau kynntust fyrir tilstilli vina, án þess að blaðamenn vissu af. Mary er fædd árið 1972 í Hobart á Tasmaníu, hún er með háskólapróf í viðskiptum og lögum og hefur einnig lagt stund á auglýsingasálfræði. Þessi fyrsti fundur þeirra Mary og Friðriks á Slip Inn barnum í Sydney reyndist afdrifaríkur og mánuðina á eftir hittust þau nokkrum sinnum. Danska blaðið BT greindi frá því í nóvember 2001, og Billed Bladet skömmu síðar, að þau Mary og Friðrik væru kærustupar en fjölmiðlafulltrúar Amalienborgar þvertóku fyrir allt slíkt. En blaðamennirnir vissu hvað klukkan sló og eftir að Mary flutti til Kaupmannahafnar fór ekkert milli mála. Í október árið 2003 tilkynntu þau Mary og Friðrik um trúlofun sína, þá höfðu drottningin og Henrik lagt blessun sína yfir ráðahaginn.
Mary og Friðrik voru gefin saman í Frúarkirkjunni í Kaupmannahöfn 14. maí 2004. Skemmst er frá því að segja að Mary krónprinsessa, eins og hún nefnist, hefur tekið dönsku þjóðina, og alla sem hafa kynnst henni, með trompi. Þykir einstaklega aðlaðandi, talar nær lýtalausa dönsku og vekur athygli hvar sem hún fer. Málefni barna og kvenna eru henni mjög hugleikin og hún vinnur mikið að alls kyns hjálparstarfi, bæði heima í Danmörku og erlendis. Þau Friðrik eiga fjögur börn, elstur er Christian fæddur 2005.
Friðrik hefur náð konungsþroska
Í tilefni fimmtugsafmælis Friðriks krónprins hafa danskir fjölmiðlar, og hirðsérfræðingar, fjallað ítarlega um ævi hans og það hlutverk sem bíður hans þegar Margrét Þórhildur „falder af pinden“ eins og hún orðar það. Niðurstaða er sú að krónprinsinn hafi nú náð „konungsþroska“. Hann þykir ekki tilþrifamikill ræðumaður og á ekki auðvelt með að tala óundirbúið en skrifaðar ræður hans þykja góðar og hann hitti þar á réttu nóturnar. Hann verður hinsvegar allt öðruvísi þjóðhöfðingi en móðir hans. Eins og áður var getið er hann ekki jafn áhugasamur um myndlist og bókmenntir og Margrét Þórhildur en áhugi hans á heilbrigðum lífsstíl og íþróttum af öllu tagi hefur síður en svo dvínað með árunum. Krónprinsinn er mjög áhugasamur um dægurtónlist, og það gildir jafnt um nýtt og gamalt.
Þau hjónin, Mary og Friðrik þykja alþýðleg „með báða fætur á jörðinni“ og það fellur í kramið hjá dönsku þjóðinni.
Afmælisvikan
Hálfrar aldar afmælisins hefur verið minnst með margvíslegum hætti. Áður hefur verið minnst á íþróttaáhuga krónprinsins og afmælisvikan byrjaði sl. mánudag með því að hann tók þátt í fjöldahlaupi í Álaborg, Árósum, Esbjerg og Óðinsvéum, þar sem Friðrik hljóp eina enska mílu 1.609 metra) á hverjum stað og hljóp svo samtals 10 kílómetra á Frederiksbergi og í Kaupmannahöfn. Allt án þess að blása úr nös enda hefur hann margoft hlaupið maraþon og reyndar margfalt lengri hlaup. Um 70 þúsund Danir tóku þátt í þessu afmælishlaupi.
Í liðinni viku hafa síðan verið fjölmargir viðburðir í tilefni afmælisins. Klukkan tólf á hádegi á afmælisdeginum (kjördagur á Íslandi) kom krónprinsinn ásamt fjölskyldu sinni og Margréti Þórhildi út á svalir Amalienborgar þar sem þúsundir voru samankomnar og drottningin stjórnaði níföldu húrrahrópi. Um kvöldið var hátíðarveisla á Kristjánsborg og vikunni lýkur svo að kvöldi sunnudags (27. maí) með skemmtun í Royal Arena samkomuhöllinni á Amager í Kaupmannahöfn. Þar verður fullt út úr dyrum en höllin rúmar 15 þúsund manns.