Mynd: samsett dagur og eyþór 2
Mynd: samsett

Meirihlutinn fallinn og Sjálfstæðisflokkur í sókn

Engar breytingar eru á skiptingu borgarfulltrúa á milli kosningaspáa. Samfylkingin heldur áfram að bæta lítillega við sig og Sjálfstæðisflokkurinn þokast upp á við í fyrsta sinn í nokkrar vikur. Vinstri græn stefna í vonda niðurstöðu og handfylli atkvæða gæti skorið úr um hvort oddviti Sósíalistaflokks eða Flokks fólksins nær inn.

Meiri­hlut­inn í Reykja­vík er fall­inn sam­kvæmt nýj­ustu kosn­inga­spá Kjarn­ans og Dr. Bald­urs Héð­ins­son­ar. Sam­an­lagt myndu þeir þrír flokkar sem eru í fram­boði og mynda hann fá ell­efu borg­ar­full­trúa af 23 sem dugar ekki til að halda völd­um. Það má munar þó sára­litlu að Sam­fylk­ing, Píratar og Vinstri græn haldi meiri­hluta.

Sam­fylk­ingin verður stærsti flokkur borg­ar­innar eftir kosn­ing­arnar í dag sam­kvæmt spánni með 29,6 pró­sent atkvæða og átta borg­ar­full­trúa. Eftir stöðugan vöxt und­an­farnar vikur þá fellur fylgi flokks­ins þó nokkuð skarpt við enda­lín­una. Staða Sam­fylk­ingar er nú þannig að átt­undi maður flokks­ins er í hættu á að detta út, en í síð­ustu spám hefur Sam­fylk­ingin verið nálægt því að ná níunda manni inn.

Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn sækir á á loka­sprett­inum og mælist nú með 27,1 pró­sent atkvæða. Það myndi duga flokknum til að fá sjö borg­ar­full­trúa og Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn er að ná við­spyrnu á ögur­stundu. Sagan hefur sýnt að flokk­ur­inn er með mjög öfl­ugt flokks­starf sem er lagið við að koma kjós­endum á kjör­stað. Ef kosn­inga­þátt­taka verður slök má því búast við að það geti unnið með Sjálf­stæð­is­flokki og að fylgi hans gæti orðið enn hærra. Þá er flokk­ur­inn einnig með meira fylgi hjá eldra fólki en yngra, sem sögu­lega hefur verið lík­legra til að skila sér á kjör­stað.

Niðurstöður kosningaspárinnar 26. maí 2018

Árið 2014 mæld­ist Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn til að mynda með 22,6 pró­sent fylgi í síð­ustu könnun sem gerð var fyrir kosn­ing­ar. Þar mæld­ist Sam­fylk­ingin með 36,7 pró­sent. Nið­ur­staðan varð hins vegar sú að Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn fékk 25,7 pró­sent en Sam­fylk­ingin fékk 31,9 pró­sent. Í þeim kosn­ingum hrundi kosn­inga­þátt­taka úr 73,5 pró­sent árið 2010 í 62,9 pró­sent, sem er versta þátt­taka sem verið hefur í borg­ar­stjórn­ar­kosn­ingum frá upp­hafi.

Vinstri græn halda áfram að falla en Við­reisn tekur stökk

Stóri tap­ar­inn í þessum kosn­ingum virð­ist ætla að verða Vinstri græn. Fylgi flokks­ins mæld­ist 12,2 pró­sent fyrir nokkrum vikum og flokk­ur­inn fékk í kringum 20 pró­sent í báðum Reykja­vík­ur­kjör­dæm­unum í síð­ustu þing­kosn­ingum fyrir sjö mán­uðum síð­an. Nú mælist fylgi hans í borg­inni ein­ungis sjö pró­sent og í fyrsta sinn í kosn­inga­spánni þetta vorið mæl­ast Vinstri græn ein­ungis með einn borg­ar­full­trúa inni, odd­vit­ann Líf Magneu­dótt­ur. Annar maður flokks­ins er þó næstur inn sam­kvæmt spánni og því þarf ekki mikið til.

Við­reisn tekur stökk í síð­ustu spánni og mælist nú með 6,9 pró­sent fylgi. Það dugar þó enn ein­ungis til að ná Þór­dísi Lóu Þór­halls­dóttur inn en Pawel Bar­toszek er næstur á eftir öðrum manni Vinstri grænna inn eins og staðan er í dag.

Þrír flokkar mæl­ast inni á litlu fylgi

Það virð­ist vera að 3,2-3,5 pró­sent fylgi muni duga til að koma einum manni að í kosn­ing­un­um. Eins og staðan er nú munu þrír flokkar með slíkt fylgi ná þeim áfanga. Þeirra stærstur verð­ur­ ­Flokkur fólks­ins ­með 3,5 pró­senta fylgi sem tryggir Kol­brúnu Bald­urs­dótt­ur, odd­vita þeirra, setu í borg­ar­stjórn.

Fram­sókn fær 3,3 pró­sent og Sós­í­alista­flokk­ur­inn 3,2 pró­sent sam­kvæmt spánni sem nægir þeim rétt til að ná inn sitt hvorum mann­in­um, sem yrðu þá Ingvar Mar Jóns­son og Sanna Magda­lena Mörtu­dótt­irþ

Það munar þó mjög litlu að þessir þrír nái ekki inn.

Ef eng­inn þeirra gerði það myndi það lík­leg­ast þýða að Vinstri græn, Við­reisn og Píratar bættu einum manni hver við sig.

Erfitt fyrir íhalds- og hægri flokka að mynda meiri­hluta

Kosn­inga­spáin reiknar nú einnig út hverjar lík­urnar eru á því að ákveðin flokka­mynstur geti náð meiri­hluta. Nið­ur­staða þeirra útreikn­inga eru þær að það séu 50,2 pró­sent líkur á því að Sam­fylk­ing, Píratar og Vinstri græn nái tólf borg­ar­full­trúum sam­an.

Ef þeir þrír flokkar myndu bæta Við­reisn, sem virð­ist vera með sam­bæri­legar áherslur í lyk­il­málum og núver­andi meiri­hluti, við upp á vagn­inn þá eru lík­urnar á því að þeir fjórir flokkar næðu meiri­hluta 88,5 pró­sent. Ef þeir myndu vilja auka vinstrislag­síð­una á stjórn­ar­sam­starf­inu, og skipta Við­reisn út fyrir Sós­í­alista­flokk­inn, væru lík­urnar á meiri­hluta 68,2 pró­sent.

Erfitt er að sjá hvar Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn ætti að finna flokka til að mynda meiri­hluta með, ef þeir sem hafa úti­lokað sam­starf við hann eru settir til hlið­ar. Það hafa allir flokk­arnir í meiri­hlut­anum gert og mjög erfitt er að sjá að Við­reisn myndi geta starfað með flokkum sem eru með and­stæðar stefnur í flestum aðal­málum flokks­ins. Úti­lokað er að Sós­í­alista­flokk­ur­inn myndi taka þátt í sam­starfi með Sjálf­stæð­is­flokkn­um.

Af þeim sem myndu ná inn manni sam­kvæmt spánni verður því að telj­ast lík­leg­ast að Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn geti myndað meiri­hluta með Mið­flokki, Flokki fólks­ins og Fram­sókn­ar­flokkn­um. Sam­an­lagt mæl­ast þessir fjórir flokkar þó ein­ungis með tíu borg­ar­full­trúa eins og er og tveir þeirra eru í mjög tví­sýnum sætum sem gætu tap­ast til Vinstri grænna og Við­reisn­ar. Kosn­inga­spáin metur enda líkur á því að Sjálf­stæð­is­flokk­ur, Fram­sókn­ar­flokk­ur, Flokkur fólks­ins og Mið­flokkur nái saman meiri­hluta ein­ungis 3,1 pró­sent.

Ef Við­reisn væri til­kippi­leg til að fara með ofan­greindum fjórum flokkum þá eru 26,4 pró­sent líkur á því að mynda fimm flokka meiri­hluta.

Eins og staðan er í dag myndu borg­ar­full­trú­arnir skipt­ast með eft­ir­far­andi hætt­i: 

 • Sam­fylk­ing myndi fá átta borg­ar­full­trúa

 • Sjálf­stæð­is­flokkur myndi fá sjö borg­ar­full­trúa

 • Píratar myndu fá tvo borg­ar­full­trúa

 • Vinstri græn myndu fá einn borg­ar­full­trúa

 • Mið­flokkur myndi fá einn borg­ar­full­trúa

 • Við­reisn myndi fá einn borg­ar­full­trúa

 • Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn myndi fá einn borg­ar­full­trúa

 • Sós­í­alista­flokkur Íslands myndi fá einn borg­ar­full­trúa

 • Flokkur fólks­ins myndi fá einn borg­ar­full­trúa

Þróun fylgis framboða í kosningaspánni
Kosningaspáin er unnin í aðdraganda borgarstjórnarkosninga 2018.
B C D F M P S V Aðrir

Þær kann­anir sem liggja til grund­vallar síð­ustu kosn­inga­spánni (26. maí) eru eft­ir­far­andi:

 • Þjóð­mála­könnun Félags­vís­inda­stofn­unar HÍ fyrir Morg­un­blaðið 17. – 21. maí (29,6 pró­sent)

 • Skoð­ana­könnun Frétta­blaðs­ins 23. – 24. maí (31,5 pró­sent)

 • Þjóð­ar­púls Gallup 22. – 25. maí (38,9 pró­sent)

Hvað er kosn­­inga­­spá­in?

Fyrir hverjar kosn­ingar um allan heim birta fjöl­miðlar gríð­ar­legt magn af upp­lýs­ing­um. Þessar upp­lýs­ingar eru oftar en ekki töl­fræði­leg­ar, byggðar á skoð­ana­könn­unum þar sem fólk hefur verið spurt hvernig það upp­lifir stjórn­málin og hvað það getur ímyndað sér að kjósa. Stjórn­mála­fræð­ingar og fjöl­miðlar kepp­ast svo við að túlka nið­ur­stöð­urnar og veita almenn­ingi enn meiri upp­lýs­ingar um stöð­una í heimi stjórn­mál­anna.

Allar þessar kann­anir og allar mögu­legar túlk­anir á nið­ur­stöðum þeirra kunna að vera rugl­andi fyrir hinn almenna neyt­anda. Einn kannar skoð­anir fólks yfir ákveðið tíma­bil og annar kannar sömu skoð­anir á öðrum tíma og með öðrum aðferð­um. Hvor könn­unin er nákvæm­ari? Hverri skal treysta bet­ur? Svarið er oftar en ekki óljóst því vand­inn er að hinn almenni kjós­andi hefur ekki for­sendur til að meta áreið­an­leika hverrar könn­un­ar.

Þar kemur kosn­inga­spáin til sög­unn­ar.

Kosn­­­inga­­­spálíkan Bald­­­urs Héð­ins­­­sonar miðar að því að setja upp­­­lýs­ing­­­arnar sem skoð­ana­kann­­­anir veita í sam­hengi. Fyr­ir­liggj­andi skoð­ana­kann­­­anir eru teknar saman og þeim gefið vægi til þess að spá fyrir um úrslit kosn­­­inga. Nið­ur­stöður spálík­ans­ins eru svo birtar hér á Kjarn­anum reglu­lega í aðdrag­anda kosn­inga.

Skiptir Kjarninn þig máli?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við erum til staðar fyrir lesendur og fjöllum um það sem skiptir máli.

Ef Kjarninn skiptir þig máli þá máttu endilega vera með okkur í liði.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar