Mynd: samsett dagur og eyþór 2

Meirihlutinn fallinn og Sjálfstæðisflokkur í sókn

Engar breytingar eru á skiptingu borgarfulltrúa á milli kosningaspáa. Samfylkingin heldur áfram að bæta lítillega við sig og Sjálfstæðisflokkurinn þokast upp á við í fyrsta sinn í nokkrar vikur. Vinstri græn stefna í vonda niðurstöðu og handfylli atkvæða gæti skorið úr um hvort oddviti Sósíalistaflokks eða Flokks fólksins nær inn.

Meirihlutinn í Reykjavík er fallinn samkvæmt nýjustu kosningaspá Kjarnans og Dr. Baldurs Héðinssonar. Samanlagt myndu þeir þrír flokkar sem eru í framboði og mynda hann fá ellefu borgarfulltrúa af 23 sem dugar ekki til að halda völdum. Það má munar þó sáralitlu að Samfylking, Píratar og Vinstri græn haldi meirihluta.

Samfylkingin verður stærsti flokkur borgarinnar eftir kosningarnar í dag samkvæmt spánni með 29,6 prósent atkvæða og átta borgarfulltrúa. Eftir stöðugan vöxt undanfarnar vikur þá fellur fylgi flokksins þó nokkuð skarpt við endalínuna. Staða Samfylkingar er nú þannig að áttundi maður flokksins er í hættu á að detta út, en í síðustu spám hefur Samfylkingin verið nálægt því að ná níunda manni inn.

Sjálfstæðisflokkurinn sækir á á lokasprettinum og mælist nú með 27,1 prósent atkvæða. Það myndi duga flokknum til að fá sjö borgarfulltrúa og Sjálfstæðisflokkurinn er að ná viðspyrnu á ögurstundu. Sagan hefur sýnt að flokkurinn er með mjög öflugt flokksstarf sem er lagið við að koma kjósendum á kjörstað. Ef kosningaþátttaka verður slök má því búast við að það geti unnið með Sjálfstæðisflokki og að fylgi hans gæti orðið enn hærra. Þá er flokkurinn einnig með meira fylgi hjá eldra fólki en yngra, sem sögulega hefur verið líklegra til að skila sér á kjörstað.

Niðurstöður kosningaspárinnar 26. maí 2018

Árið 2014 mældist Sjálfstæðisflokkurinn til að mynda með 22,6 prósent fylgi í síðustu könnun sem gerð var fyrir kosningar. Þar mældist Samfylkingin með 36,7 prósent. Niðurstaðan varð hins vegar sú að Sjálfstæðisflokkurinn fékk 25,7 prósent en Samfylkingin fékk 31,9 prósent. Í þeim kosningum hrundi kosningaþátttaka úr 73,5 prósent árið 2010 í 62,9 prósent, sem er versta þátttaka sem verið hefur í borgarstjórnarkosningum frá upphafi.

Vinstri græn halda áfram að falla en Viðreisn tekur stökk

Stóri taparinn í þessum kosningum virðist ætla að verða Vinstri græn. Fylgi flokksins mældist 12,2 prósent fyrir nokkrum vikum og flokkurinn fékk í kringum 20 prósent í báðum Reykjavíkurkjördæmunum í síðustu þingkosningum fyrir sjö mánuðum síðan. Nú mælist fylgi hans í borginni einungis sjö prósent og í fyrsta sinn í kosningaspánni þetta vorið mælast Vinstri græn einungis með einn borgarfulltrúa inni, oddvitann Líf Magneudóttur. Annar maður flokksins er þó næstur inn samkvæmt spánni og því þarf ekki mikið til.

Viðreisn tekur stökk í síðustu spánni og mælist nú með 6,9 prósent fylgi. Það dugar þó enn einungis til að ná Þórdísi Lóu Þórhallsdóttur inn en Pawel Bartoszek er næstur á eftir öðrum manni Vinstri grænna inn eins og staðan er í dag.

Þrír flokkar mælast inni á litlu fylgi

Það virðist vera að 3,2-3,5 prósent fylgi muni duga til að koma einum manni að í kosningunum. Eins og staðan er nú munu þrír flokkar með slíkt fylgi ná þeim áfanga. Þeirra stærstur verður Flokkur fólksins með 3,5 prósenta fylgi sem tryggir Kolbrúnu Baldursdóttur, oddvita þeirra, setu í borgarstjórn.

Framsókn fær 3,3 prósent og Sósíalistaflokkurinn 3,2 prósent samkvæmt spánni sem nægir þeim rétt til að ná inn sitt hvorum manninum, sem yrðu þá Ingvar Mar Jónsson og Sanna Magdalena Mörtudóttirþ

Það munar þó mjög litlu að þessir þrír nái ekki inn.

Ef enginn þeirra gerði það myndi það líklegast þýða að Vinstri græn, Viðreisn og Píratar bættu einum manni hver við sig.

Erfitt fyrir íhalds- og hægri flokka að mynda meirihluta

Kosningaspáin reiknar nú einnig út hverjar líkurnar eru á því að ákveðin flokkamynstur geti náð meirihluta. Niðurstaða þeirra útreikninga eru þær að það séu 50,2 prósent líkur á því að Samfylking, Píratar og Vinstri græn nái tólf borgarfulltrúum saman.

Ef þeir þrír flokkar myndu bæta Viðreisn, sem virðist vera með sambærilegar áherslur í lykilmálum og núverandi meirihluti, við upp á vagninn þá eru líkurnar á því að þeir fjórir flokkar næðu meirihluta 88,5 prósent. Ef þeir myndu vilja auka vinstrislagsíðuna á stjórnarsamstarfinu, og skipta Viðreisn út fyrir Sósíalistaflokkinn, væru líkurnar á meirihluta 68,2 prósent.

Erfitt er að sjá hvar Sjálfstæðisflokkurinn ætti að finna flokka til að mynda meirihluta með, ef þeir sem hafa útilokað samstarf við hann eru settir til hliðar. Það hafa allir flokkarnir í meirihlutanum gert og mjög erfitt er að sjá að Viðreisn myndi geta starfað með flokkum sem eru með andstæðar stefnur í flestum aðalmálum flokksins. Útilokað er að Sósíalistaflokkurinn myndi taka þátt í samstarfi með Sjálfstæðisflokknum.

Af þeim sem myndu ná inn manni samkvæmt spánni verður því að teljast líklegast að Sjálfstæðisflokkurinn geti myndað meirihluta með Miðflokki, Flokki fólksins og Framsóknarflokknum. Samanlagt mælast þessir fjórir flokkar þó einungis með tíu borgarfulltrúa eins og er og tveir þeirra eru í mjög tvísýnum sætum sem gætu tapast til Vinstri grænna og Viðreisnar. Kosningaspáin metur enda líkur á því að Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur, Flokkur fólksins og Miðflokkur nái saman meirihluta einungis 3,1 prósent.

Ef Viðreisn væri tilkippileg til að fara með ofangreindum fjórum flokkum þá eru 26,4 prósent líkur á því að mynda fimm flokka meirihluta.

Eins og staðan er í dag myndu borgarfulltrúarnir skiptast með eftirfarandi hætti: 

 • Samfylking myndi fá átta borgarfulltrúa
 • Sjálfstæðisflokkur myndi fá sjö borgarfulltrúa
 • Píratar myndu fá tvo borgarfulltrúa
 • Vinstri græn myndu fá einn borgarfulltrúa
 • Miðflokkur myndi fá einn borgarfulltrúa
 • Viðreisn myndi fá einn borgarfulltrúa
 • Framsóknarflokkurinn myndi fá einn borgarfulltrúa
 • Sósíalistaflokkur Íslands myndi fá einn borgarfulltrúa
 • Flokkur fólksins myndi fá einn borgarfulltrúa

Þróun fylgis framboða í kosningaspánni
Kosningaspáin er unnin í aðdraganda borgarstjórnarkosninga 2018.
B C D F M P S V Aðrir

Þær kannanir sem liggja til grundvallar síðustu kosningaspánni (26. maí) eru eftirfarandi:

 • Þjóðmálakönnun Félagsvísindastofnunar HÍ fyrir Morgunblaðið 17. – 21. maí (29,6 prósent)
 • Skoðanakönnun Fréttablaðsins 23. – 24. maí (31,5 prósent)
 • Þjóðarpúls Gallup 22. – 25. maí (38,9 prósent)

Hvað er kosn­inga­spá­in?

Fyrir hverjar kosningar um allan heim birta fjölmiðlar gríðarlegt magn af upplýsingum. Þessar upplýsingar eru oftar en ekki tölfræðilegar, byggðar á skoðanakönnunum þar sem fólk hefur verið spurt hvernig það upplifir stjórnmálin og hvað það getur ímyndað sér að kjósa. Stjórnmálafræðingar og fjölmiðlar keppast svo við að túlka niðurstöðurnar og veita almenningi enn meiri upplýsingar um stöðuna í heimi stjórnmálanna.

Allar þessar kannanir og allar mögulegar túlkanir á niðurstöðum þeirra kunna að vera ruglandi fyrir hinn almenna neytanda. Einn kannar skoðanir fólks yfir ákveðið tímabil og annar kannar sömu skoðanir á öðrum tíma og með öðrum aðferðum. Hvor könnunin er nákvæmari? Hverri skal treysta betur? Svarið er oftar en ekki óljóst því vandinn er að hinn almenni kjósandi hefur ekki forsendur til að meta áreiðanleika hverrar könnunar.

Þar kemur kosningaspáin til sögunnar.

Kosn­­inga­­spálíkan Bald­­urs Héð­ins­­sonar miðar að því að setja upp­­lýs­ing­­arnar sem skoð­ana­kann­­anir veita í sam­hengi. Fyr­ir­liggj­andi skoð­ana­kann­­anir eru teknar saman og þeim gefið vægi til þess að spá fyrir um úrslit kosn­­inga. Niðurstöður spálíkansins eru svo birtar hér á Kjarnanum reglulega í aðdraganda kosninga.

Ert þú í Kjarnasamfélaginu?

Kjarninn er opinn vefur en líflínan okkar eru frjáls framlög frá lesendum, Kjarnasamfélagið. Sú stoð undir reksturinn er okkur afar mikilvæg.

Með því að skrá þig í Kjarnasamfélagið gerir þú okkur kleift að halda áfram að vinna í þágu almennings og birta vandaðar fréttaskýringar, djúpar greiningar á efnahagsmálum og annað fréttatengt gæðaefni. 

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur undanfarin sjö ár og við ætlum okkur að standa vaktina áfram. 

Fyrir þá sem nú þegar eru stoltir styrkjendur Kjarnans þá leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka mánaðarlega framlagið með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar