Íbúðalánasjóður sendi í síðustu viku 20 leigufélögum sem eru með lán frá sjóðnum bréf þar sem kallar er eftir upplýsingum um verðlagningu leiguíbúða í þeirra eigu, og eftir atvikum um hækkanir á húsaleigu þeirra til leigutaka. Í bréfinu er kallað eftir svörum um hvort og þá hvernig skilyrðum reglugerðar um lán sjóðsins séu uppfyllt. Á meðal þeirra sem hafa fengið lán frá sjóðnum eru hagnaðardrifin leigufélög.
Leiguverð íbúðarhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað um 96 prósent á átta árum. Á síðustu tveimur árum hefur það hækkað um 30 prósent. Í nýlegri könnun sem gerð var fyrir Íbúðalánasjóð kom fram að þriðji hver leigjandi borgi meira en helming af ráðstöfunartekjum sínum í leigu og fáir þeirra geta safnað sér sparifé vegna hás leigukostnaðar. Einungis 14 prósent þeirra sem eru á leigumarkaði vilja vera þar.
Lán til hagnaðardrifinna félaga sem eiga ekki að fara til slíkra
Kjarninn greindi frá því í síðustu viku að Heimavellir, stærsta hagnaðardrifna leigufélag landsins sem á um tvö þúsund íbúðir, sé að stærstum hluta fjármagnað með lánum frá Íbúðalánasjóði. Íbúðalánasjóður og Kadeco, annað félag í eigu ríkisins, eru líka þeir aðilar sem hafa selt Heimavöllum flestar eignir.
Lánin eru að hluta til veitt í samræmi við reglugerð Íbúðalánasjóðs frá árinu 2013 til sveitarfélaga, félaga og félagasamtaka sem ætlaðar eru til byggingar eða kaupa á leiguíbúðum. Markmið þeirrar reglugerðar er að „stuðla að framboði á leiguíbúðum fyrir almenning á viðráðanlegum kjörum“.
Til að uppfylla skilyrði reglugerðarinnar mega félög sem fá slík lán ekki vera rekin í hagnaðarskyni né má greiða úr þeim arð. Heimavellir voru skráðir á markað í síðustu viku og ætla sér í kjölfarið að endurfjármagna lán sín hjá Íbúðalánasjóði, sem nema 18,6 milljörðum króna og eru rúmlega helmingur af skuldum félagsins, svo það geti greitt út arð.
Frá því að Heimavellir voru stofnaðir í febrúar 2015 hefur leiguverð á höfuðborgarsvæðinu hækkað um 40 prósent.
Eignarhlutir skipt hratt um hendur
Í svari Íbúðalánasjóðs við fyrirspurn Kjarnans um lán til Heimavalla kom fram að um átta milljarðar króna af lánum til félagsins séu samkvæmt reglugerðinni sem samþykkt var árið 2013. Restin, um 10,6 milljarðar króna, séu svokölluð almenn leiguíbúðalán en um þær lánveitingar hafi gilt mun rýmri reglur en gildi í dag. Þegar þeim hafi verið breytt með lögum hafi verið „sett sem skilyrði að rekstur félaga sem tækju leiguíbúðalán væri með hagsmuni leigutaka að leiðarljósi og skorður settar fyrir því með hvaða hætti heimilt væri að ráðstafa hagnaði“.
Í upplýsingum frá Íbúðalánasjóði sem Kjarnanum bárust í dag kemur fram að vegna mikilla hækkana á fasteignamarkaði hafi eignarhlutir í leigufélögum skipt hraðar um hendur á síðustu misserum. „Stór hagnaðardrifin leigufélög, sem stofnuð hafa verið af fjárfestum, hafa sópað upp minni leigufélögum á landsbyggðinni og í kjölfarið skráð sig á hlutabréfamarkað eða hafa uppi slík áform. Leigufélögin hafa lýst því yfir að þau hyggist greiða upp lán sem sum hinna yfirteknu félaga eru með hjá Íbúðalánasjóði og losna þannig undan þeim kvöðum sem lánunum fylgja; svo sem kröfum um hagkvæma leigu, takmörkunum á greiðslu kostnaðar til eigenda og banni við arðgreiðslum. Greiði félögin lánin upp getur sjóðurinn ekki lengur haft uppi neinar kröfur um hvernig félögin haga starfsemi sinni.“
Augljóst er að þarna m.a. átt við Heimavelli, sem skráð voru á markað í síðustu viku.
Ráðherra ætlar að endurskoða reglurnar
Íbúðalánasjóður segir fulla ástæðu til þess að endurskoða þann lagaramma sem leigufélög starfa eftir. Sjóðurinn óskaði eftir því fyrr á þessu ári við Ásmund Einar Daðason, ráðherra húsnæðismála, að heimildir Íbúðalánasjóðs til að veita lán vegna leiguíbúða verði endurskoðaðar þannig að þær uppfylli betur tilgang laga um húsnæðismál. „Í lögunum er Íbúðalánasjóði falið að stuðla að því með lánveitingum og skipulagi húsnæðismála að landsmenn geti búið við öryggi og jafnrétti í húsnæðismálum og að fjármunum verði sérstaklega varið til þess að auka möguleika fólks til að eignast eða leigja húsnæði á viðráðanlegum kjörum. Hefur félags- og jafnréttismálaráðherra boðað að lagt verði fram frumvarp á haustþingi þar sem lánaheimildir sjóðsins verða teknar til endurskoðunar, með það fyrir augum að styrkja félagslegt hlutverk hans.“